Ómetanlegt gildi dýralífsins

0
812
Alþjóða dýralífsdagurinn
Alþjóða dýralífsdagurinn er haldinn 3.mars.

Villt dýr og plöntur hafa ekki aðeins mikið gildi í sjálfu sér heldur eru þau einnig ómetanleg hluti af vistkerfinu og erfðum. Þau eru ómissandi hluti lífi okkar mannanna jafnt í félagslegu-,efnahagslegu-, vísindalegu- sem menningarlegu tilliti.

Og þau eru snar þáttur í sjálfbærri þróun

Alþjóða dýralífsdagurinn er tækifæri til þess að fagna fegurð og fjölbreytni dýra- og plönturíkisins. Jafnframt til að vekja til vitundar um þann mikla ábata sem verndun færir fólki. Á sama tíma er þörf fyrir að minna á þörf á að skera upp herör til höfuðs glæpum gegn dýralífi. Þá ber okkur að vera meðvituð um þann þátt sem maðurinn á í fækkun tegunda. Slíkt hefur alvarlegar og umfangsmiklar efnahagslegar-,umhverfislegar og félagslegar afleiðingar.

Líf á landi

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, hið fimmtánda í röðinni „Líf á landi” snýst um að hindra að gengið sé á fjölbreytileika lífríkisins. Þema alþjóðlega dýralífsdagsins 2020 er „Að viðhalda öllu lífi á Jörðu”. Það felur í sér að öll villt dýr og jurtategundir séu hluti fjölbreytni lífríkisins, auk þess að vera lífsviðurværi fólks, ekki síst þeirra sem lifa í mestu nábýli við náttúruna. Þar með snertir þetta Heimsmarkmið númer 1,12,14 og 15 og umfangsmiklar skuldbindingar alþjóðasamfélagsins til að draga úr fáækt, tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda og að varveita jafnt líf á landi og í vatni til að stöðva tap líffræðilegrar fjölbreytni.

Jörðin er heimili óteljandi tegunda dýra og jurta, svo margra að enginn hættir sér einu sinni í slíka talningu. Sögulega höfum við alltaf reitt okkur á stöðugt samspil ólíkra þátta til að viðhalda lífi okkar. Einnig til að tryggja það sem okkur er lífsnauðsynlegt; loftið sem við öndum að okkur, maturinn sem við borðum orkuna sem við beislum og efnivið sem við notum í margvíslegu skyni.

Nú er svo komið, hins vegar, að ósjálfbær virkni mannsins og rányrkja á tegundum og náttúruauðlindum hafa stofnað fjölbreytni lífríkis heimsins í hættu.
Nærri fjórðungur tegunda er í útrýmingarhættu á næstu áratugum.

Ofurár

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna og almannasamtök hafa nefnt árið í ár, 2020,  „ofurár líffræðilegrar fjölbreytni” og verður gengist fyrir ýmsum uppákomum til að skipa þessu máli í öndvegi. Þetta er einstakt tækifæri til að greiða fyrir þýðingarmiklum framförum með verndun og sjálfbæra nýtingu villtra jurta- og dýrategunda að leiðarljósi.

Mikilvægt er að útskýra fyrir börnum og ungmennum þá vá sem við stöndum frammi fyrir. Þau eru leiðtogar framtíðarinnar og eiga skilið framtíð þar sem við mennirnir höldum áfram að lifa í sátt og samlyndi með dýralífinu sem við höfum deilt þessari plánetu með í milljónir ára.

Hér eru nokkrir hlutir sem gætu komið að gagni: https://www.wildlifeday.org/content/outreach-material

Sjá nánar um “ofurárið” 2020: https://www.unenvironment.org/news-and-stories/news/2020-super-year-nature-and-biodiversity