Óréttlæti fortíðar ætti að eggja menn til baráttu gegn nútíma þrælahaldi

0
553

25. mars 2008 – Sameinuðu þjóðirnar minntust í dag í fyrsta sinn fórnarlamba þrælaverslunar yfir Atlantshafið. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði að þrælaverslunin hefði verið “eitt mesta grimmdarverk mannkynssögunnar.” Sagðist hann vonast til að baráttan til að uppræta hana gæti orðið innblástur til að vinna bug á nútímaþrælahaldi á borð við nauðungarvinnu og mansali. 

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ og forseti Allsherjarþingsins Srgjan Kerim

 “Við syrgjum ódæðisverkin sem framin voru gegn óteljandi fórnarlömbum, en á sama tíma dáumst við að þrælum sem risu upp gegn ofsækjendum sínum,” sagði Ban í ræðu við sérstaka athöfn í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna til að minnast fyrsta Alþjóða dags til minningar um fórnarlömb þrælahalds og þrælaverslunar á Atlantshafi.
“Þessir hugrökku einstaklingar og hreyfingin til að afnema þrælahald ættu að vera okkur öllum fyrirmynd í baráttunni við að uppræta nútíma þrælahald sem er blettur á samtímanum,” sagði framkvæmdastjórinn. Trumbuleikarar frá Afríku, dansarar og ljóðskáld frá Karíbahafinu komu fram á samkomunni í New York.
Ban benti á að enn þann dag í dag mættu milljónir manna, þar á meðal börn, þola kynþáttahatur, nauðungarvinnu, kynferðisþrælkun og mansal. 
Jarðarbúar ættu í senn að fyllast skömm yfir þessu og bregðast við þessar áskorun, sagði Ban. “Við skulum heiðra fórnarlömb þrælaverslunarinnar, með því að minnast baráttu þeirra. Við skulum halda baráttunni áfram þar til enginn maður er sviptur frelsi sínu, mannlegri reisn og mannréttindum.” 
Í ávarpi sínu í tilefni dagsins sagði forseti Allsherjarþingsins Srgjan Kerim að á þessum degi væri við hæfi að viðurkenna þá “djúpstæðu skömm” sem fylgdi þessu tímabili í sögunni og minnast þeirra milljóna sem áttu um sárt að binda. “Þetta er líka tækfæri til að heiðra hugrekki og siðferðisþreki þeirra sem börðust fyrir því að afnema þrælahald,” bætti hann við.  
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í desember 2007 ályktun þess efnis að 25. mars yrðir árlegur minningardagur um fórnarlömb þrælahalds og þrælaverslunar á Atlantshafi. Jafnframt var ákveðið að reisa minnisvarða í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna um í því skyni að viðurkenna þennan harmleik og gefa afleiðingum þrælahalds gaum.
Sjá nánar: http://www.un.org/apps/news/story.asp?NewsID=26090&Cr=slavery&Cr1=