Palestína (enn) á tímamótum

0
569

Palestine

29. nóvember 2012. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag með miklum meirihluta atkvæða að Palestína skyldi fá stöðu áheyrnarríkis.

Samþykktin er gerð á alþjóðlegum degi til samstöðu með Palestínumönnum. Markmiðið með deginum er að minna á þá staðreynd að Palestínumálið svokallaða er enn óleyst og Palestínumenn hafa enn ekki fengið að njóta þeirra réttinda sem sjálft Allsherjarþingið hefur lýst yfir að þeim beri.
Meðal þeirra réttinda er sjálfsákvörðunarréttur án utanaðkomandi íhlutunar og réttur flóttamanna til að snúa aftur til heimila sinna og endurheimta eignir.

Skærurnar á milli Palestínumanna á Gasasvæðinu og Ísraelsmanna undanfarið eru skýrt dæmi um þá gríðarlegu spennu sem enn ríkir á svæðinu. Átökin hafa kostað 139 Palestínumenn lífið, að sögn Sameinuðu þjóðanna á Gasa, þar af eru 70 óbreyttir borgarar. Meir en 900 hafa særst. Tíu þúsund hafa flosnað upp frá heimilum sínumí skærunum á svæðinu en alls teljast 1.7 milljón til flóttamanna.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað lýst yfir að Palestínumenn eigi rétt á óháðu og sjálfbæru ríki sem muni búa við hlið Ísraels við frið og öryggi.

Robert Serry, sérstakur samræmandi friðarferlisins í Miðausturlöndum  segir að það sé löngu tímabært að palestínskt ríki sjái dagsins ljós. “Þetta skiptir sköpum um að uppfylla lögmætar óskir beggja þjóða og eflir stöðugleika á svæðinu.”  

29. nóvember 1947 samþykkti Allsherjarþingið ályktun sem kölluð hefur verið Palestínu-ályktunin. Þar var gert ráð fyrir annars vegar “ríki Gyðinga” og hins vegar “ríki Araba” í Palestínu en Jerúsalem átti að vera sér á parti “corpus separatum” undir sérstakri alþjóðlegri stjórn.

Af þeim tveimur ríkjum sem setja átti á stofn samkvæmt ályktuninnii, hefur aðeins Ísrael séð dagsins ljós.

Mynd: Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna fagnar samþykkt Allsherjarþingsins. SÞ/Mark Garten.