París: Flóttamenn verði ekki blórabögglar

0
489
refugees

 refugees

18.nóvember. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lýst hryllingi yfir fjöldamorðunum í París og varar við því að flóttamenn séu gerðir að blórabögglum vegna árásanna.

Flóttamannastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, hefur lýst samstöðu með frönsku þjóðinni á sama hátt og hann gerði í síðustu viku þegar mannskæð hryðjuverkaárás var gerð í Beirút í Líbanon.

Guterres segir það „hreina fjarstæðu“ að saka flóttamenn um hryðjuverkaárásir, og sagði að þeir væru fyrstu fórnarlömbin og ekki væri hægt að draga þá til ábyrgðar fyrir atburðina í París, Beirút eða annars staðar.

Guterres heimsótti flóttamannabúðir í Serbíu í gær og notaði tækifærið til að hvetja ríkisstjórnir í Evrópu til að láta hjá líða að taka einhliða ákvarðanir en reyna þess í stað að stilla saman strengi til að leysa núverandi vanda.

Guterres„Það er ekki flóttamannastraumurinn sem er orsök hryðjuverka, það eru hryðjuverk og stríð sem valda flóttamannastraumnum,“ sagði hann. „Það er ljóst að ætlun Daesh er ekki aðeins að snúa Evrópubúum gegn flóttamönnum, heldur að etja saman einstaklingum, samfélögum og loks heilu ríkjunum hverjum gegn öðrum innan Evrópusambandsins.“

Talskona Flóttamannahjálparinnar varaði við því að saka flóttamenn um árásirnar í París.

„Við höfum þungar áhyggjur af orðræðu þar sem flóttamenn eru svertir sem hópur. Þetta býður hættunni heim og ýtir undir útlendingahatur og ótta. Það ætti ekki að gera flóttamenn að blórabögglum með þeim afleiðingum að þeir bætist í hóp fórnarlamba þessara sorglegu atburða,“ sagði Melissa Fleming, talskona Flóttamannahjálparinnar (UNHCR) á blaðamannafundi í Genf.

Fleming varaði við viðbrögðum sumra ríkja sem segjast ætla að binda enda á áætlanir sem samþykktar höfðu verið. Hún nefndi sem dæmi yfirlýsingar um að ríki ætli að genga á bak orða sinna um að stýra flóttamannavandanum með því að flytja flóttamenn á milli ríkja og að reisa nýjar hindranir. Hún lét á sama tíma í ljós áhyggjur af óstaðfestum fréttum um að einn árásarmannanna í París hafi komið til Evrópu innanum flóttamenn og farandfólk. 

„Við erum sannfærð um mikvilvægi þess að viðhalda því kerfi sem hefur verið komið upp til að taka við hælisleitendum. Hæli og hryðjuverk eru ósamrýmanleg,“ sagði Fleming og benti á að samkvæmt Flóttamannasáttmálanum frá 1951 séu þeir sem framið hafi alvarlega glæpi útilokaðir frá hæli.

Fleming lagði áhersla á að langstærsti hluti þeirra sem komið hafa til Evrópu séu á flótta undan ofsóknum og lífshættulegum afleiðingum átaka og komist ekki til Evrópu með öðrum hætti.  Hún lagði líka áherslu á að margir væru á flótta undan öfgastefnum og hryðjuverkum af hálfu „sama fólks og stendur að baki árásunum í Paris.“ Fleming benti einnig á að slæmar aðstæður í nágrannaríkjum Sýrlands hefðu knúið fólk til að leita á náðir Evrópubúa.

Mynd: 1.) Flóttamenn á leið til Grikklands. UNHCR/Achilleas Zavallis 2.) António Guterres og Aleksandar Vučić, forsætisráðherra Serbíu tala við blaðamenn í flóttamannamiðstöð í Presevo í Serbíu í gær. Mynd: UNHCR/L. Selmani-Misini