Pillay fagnar almannahreyfingu í Egyptalandi

0
439
alt

Navi Pillay, Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna lýkur lofsorði á almannahreyfinguna í Egyptlalandi í yfirlýsingu sem hún hefur gefið út. Hún segist þar jafnframt hafa áhyggjur af auknu mannfalli undanfarna daga og hvetur stjórnvöld til að hlusta á kröfum egypsku þjóðarinnar um grundvallar umbætur til að efla mannréttindi og lýðræði.

Pillay ásamt Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í Genf 25. janúar 2011. SÞ-mynd: Eskender Dedebe. alt

“Almannahreyfingin í Egyptalandi sem á sér engin fordæmi undanfarna áratugi hefur að mestu leyti beitt sér á kjarkmikinn og friðsamlegan hátt,” segir Pillay. “Heimurinn fylgist náið með því hvernig forsetinn og endurskipuð stjórn hans muni bregðast við áframhaldandi mótmælum þar sem krafist er róttækra breytinga á borgaralegum, pólitískum, félagslegum, menningarlegum og efnahagslegum réttindum.”

Pillay benti á að í 21. gein Mannréttindayfirlýsingarinnar er skýrt kveðið á um pólitísk réttindi almennings, en þar segir: “Vilji þjóðarinnar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstjórnarinnar.”

Ástand mannréttinda í Egyptalandi á undanförnum árum er ein helsta kveikja mótmælanna, að sögn Pillay: “Fólkið virðist hafna kerfi sem hefur svipt borgarana grundvallar rétttindum og hafnar stjórn sem hefur framið margs konar mannréttindabrot, þar á meðal beytt pyntingum í stórum stíl.”

Mannréttindafulltrúinn vitnaði í Inngangsorð Mannréttindayfirlýsingarinnar, þar sem segir að brýnt sé “að vernda mannréttindi með lögum svo eigi verði gripið til þess örþrifaráðs að rísa upp gegn harðstjórn og kúgun.”

“Ég tel að egypska stjórnin hafi sýnt í verki, með því að láta neyðarlög vera í gildi í þrjátíu ár, að mannréttindi eru ekki efst í forgangsröð hennar,” bætti hún við. Neyðarlögin voru sett í kjölfar morðsins á Sadat forseta og hefur aldrei verið aflétt jafnvel þó Egyptaland hafi ekki átt í stríði eða alvarlegum innanlandsátökum á þessum tíma.

“Neðarlögin hafa tryggt að öllu aðhaldi í mannréttindamálum hefur verið vikið til hliðar og öryggissveitir og aðrar ríkisstofnanir hafa troðið mannréttindi fótum,” sagði Pillay.

Hún segist einnig hafa þungar áhyggjur af því tómarúmi í öryggismálum sem myndast hafi eftir að lögreglan hvarf af götunum.