Póstkort frá Abidjan

0
492
alt

– eftir Ivan Simonovic

ABIDJAN, 8. april 2011: Ódaunn dauðans fylgir manni hvarvetna á ferð um Abidjan og vestuhluta Côte d’Ivoire (Fílabeinsstrandarinnar) undanfarna viku. Ég leit ofan í brunn við yfirgefnar höfuðstöðvar vígamanna í Carrefour hverfinu í Duékoué. Engar jarðneskar leyfar manna sáust í myrku tóminu en lyktin olli því að engum gat leynst hvað þar leyndist. Enginn veit hve margir hvíla þar. Það ömurlega starf að endurheimta og nafngreina hina látnu bíður. 

altAnnars staðar eru afleiðingar blóðsúthellinganna að koma í ljós. Í tveimur mannskæðum atvikum, nú síðast 28. mars voru meir en 300 drepnir. Ungu marokkósku friðargæsluliðarnir sem sendir voru á vettvang hafa talið 200 lík en fleiri liggja látnir í þéttvöxnum runnunum og öðrum óaðgengilegum stöðum.

Marokkóskir friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna á vettvangi í búðum fyrir uppflosnað fólk í Duékoué í vesturhluta Moyen-Cavally héraðs á Fílabeinsströndinni (Côte d’Ivoire). SÞ-mynd: Basile Zoma 

Mannréttindasveit frá Sameinuðu þjóðunum er líka á staðnum og safnar sönnunargögnum og reynir að glöggva sig á atburðarásinni. Myndin er ekki svart-hvít. Fyrra atvikið átti sér stað á yfirráðasvæði herflokka hliðhollum fráfarandi forseta Laurent Gbagbo og fórnarlömbin voru flest af kyni Dioula sem hneigjast til að styðja erkióvin Gbagbo, Alassane Outtara sem er almennt viðurkenndur réttkjörinn forseti landsins. Síðara atvikið átti sér hins vegar stað á svæði sem er á yfirráðasvæði sveita hliðhollum Outtara og fórnarlömbin af ættbálki Gueré sem flestir eru hliðhollir Gbagbo. Klæðaburður hinna látnu benti til að þeir væru óbreyttir borgarar.

 

Það er ekki vitað hve margir hafa látist í Abidjan. Guillaume Ngefa, yfirmaður mannréttindateymis Sameinuðu þjóðanna í Côte d’Ivoire telur töluna líklega vera 400. Líkum er ekki safnað saman kerfisbundið vegna áframhaldandi átaka og hættuástands.  Einföldustu lyf eru á þrotum og matur er af skornum skammti. Fólk er hungrað og óttaslegið. Friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna flytja diplómata og blaðamenn í brynvörðum bifreiðum á brott frá átakasvæðinu í nágrenni forsetabústaðarins þar sem Laurent Gbagbo er króaður inni. Íbúunum er ekki boðið upp á neina slíka örugga flóttaleið.

Ouattara forseti sem ríkir nú yfir öllu landinu að frátaldri miðborg Abidjan, sagði mér að hann ætlaði að gera allt sem í hans valdi stæði til að brjóta vítahring ættbálkaofbeldis.  “Ég mun stofna sannleiks- og sáttaráð og tryggja gagnsæja meðferð allra sem hafa framið glæpi, óháð því hvar í pólítik eða ætt þeir skipa sér,” sagði hann. “Ég vil sættir. Ég vil ríkisstjórn þar sem allir landshlutar og allir ættbálkar eiga sína fulltrúa.”

Hugsanlega hefði verið hægt að forðast núverandi ástand á Fílabeinsströndinni, ef sannleikurinn hefði fyrr verið leiddur í ljós um þá glæpi sem framdir hafa verið frá því yfirstandandi átök hófust í september 2002 og hinir seku látnir sæta ábyrgð. Alþjóðleg rannsóknarnefnd var skipuð 2004 en skýrsla hennar var hvorki birt né tekin upp á vettvangi Öryggisáðs Sameinuðu þjóðanna. Slíkt mun ekki gerast að þessu sinni. Öryggisráðið hefur þegar beðið framkvæmdastjórann Ban Ki-moon um að kynna því efni skýrslu óháðra rannsóknaaðilja sem unnu verk sitt að beiðni Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og deila efni hennar með öðrum alþjóðlegum samtökum. Báðar stríðandi fylkingar segjast munu styðja starf nefndarinnar og vinna með henni. Skýrslan á að koma út um miðjan júní, en hve margir munu týna lífi þangað til?

Þegar átökunum linnir, eru erfiðleikar Fílabeinsstrandarinnar hvergi nærri á enda. Þetta er auðugt land með sterka innviði sem enn eru að mestu óskemmdir. En landið munu þurfa á umtalsverðri hjálp erlendis frá að halda, bæði sem mannúðaraðstoð og sem aðstoð til lengri tíma litið, í því skyni að koma hjólum efnahagslífsins af stað á ný. Í ljósi nýafstaðinna atburða í norður-Afríku og jarðskjálfta í Japan, kann að verða á brattann að sækja fyrir Fílabeinsströndina að fá verulega alþjóðlega athygli og fjármagn.

Ivan Simonovic er aðstoðar-framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttindamála.