Kóngafólk fagnar degi Sameinuðu þjóðanna

0
444
UN-Day-Sweden

UN-Day-SwedenÞrátt fyrir grátt og kalt haustveður var haldið upp á dag Sameinuðu þjóðanna á litríkan hátt um öll Norðurlönd 24. október.

 

 

Í Helsinki höfuðborg Finnlands var haldið upp á daginn á Paasikivi-torginu við aðaljárnbrautastöðina og sáust ljósbláir fánar Sameinuðu þjóðanna langt að. Daginn bar lokahrinu baráttunnar fyrir sveitastjórnarkosningar og því svöruðu sumir ”ég er búinn að kjósa” þegar liðsmenn Félags Sameinuðu þjóðanna vildu minna á daginn. Margir brugðust fegnir við þegar boðið var upp á eitthvað annað en sveitastjórnarmál og fjöldinn allur af fólki lagði leið sína í Sameinuðu þjóða-tjaldið. Þar var meðal annars boðið upp á súkkulaði sem pakkað var inn í umbúðir sem búið var að prenta á jákvæðar upplýsingar; eins og að sárafátækt hefur minnkað um helming í heiminum frá 1990 og að ósonlagið verður búið að ná sér innan hálfrar aldar. Góðar fréttir það!

Í Svíþjóð var haldið upp á daginn um allt landið. Öll Sameinuðu þjóða-fjölskyldan var saman komin á aðaljárnbrautastöðinni í Stokkhólmi en aðalhátíð sænska félags Sameinuðu þjóðanna var í konserthúsinu í höfuðborginni. Viktoría prinsessa heiðraði samkomuna með nærveru sinni en Margot Wallström, fyrrverandi erindreki SÞ á sviði kynferðislegs ofbeldis í hernaði tók á móti verðlaununum ”SÞ-vinur ársins”. Samtökin Unga Helsingborg voru heiðruð sem besti stuðningshópur samtakanna í Svíþjóð. Fjöldi fyrrverandi friðargæsluliða á vegum Sameinuðu þjóðanna var viðstaddir.

Á Íslandi hélt Félag Sameinuðu þjóðanna málþing þar sem ýmsir aðilar tengdir samtökunum sögðu frá reynslu sinni. Þröstur Freyr Gylfason, formaður félagsins stjórnaði fundi en á meðal þátttakenda voru Hjálmar W. Hannesson, fyrrv. sendiherra Íslands hjá SÞ og Ásdís Guðmundsdóttir sérfræðingur í sáttmála SÞ um réttindi fatlaðra.

Í Noregi var haldið víða upp á daginn frá Kristiansand til Þrándheims. Haldin voru málþing um þróunarmál eftir 2015, friðarferli í Baskalandi og ástandið í Sýrlandi, en líka tekið upp léttara hjal og boðið upp á sirkus, söng og hljóðfæraslátt. Hákon Magnús krónprins ávarpaði svo 720 skólabörn á hátíðarfundi í Þjóðleikhúsinu sem sýndi síðan Kardemommubæinn.