„Áskorun til okkar sem búa við allsnægtir,“ Viðtal við Stefán Einarsson

0
439
alt

Stefán Einarsson, hönnunarstjóri auglýsingastofunnar Hvíta hússins vakti verðskuldaða athygli á dögunum þegar hann gerði sér lítið fyrir og sigraði í samkeppni Sameinuðu þjóðanna í Evrópu um bestu auglýsinguna til að vekja athygli á baráttuna gegn fátækt í heiminum.

Meir en tvö þúsund tillögur bárust frá á fjórða tug Evrópuríkja. Þrjár myndir Stefáns voru valdar í hóp þrjátíu bestu og dómnefnd valdi svo mynd hans „Dear leaders. We are still waiting,“ bestu auglýsinguna en auk þess hreppti hann þriðja og þrettánda sæti.

Jacques Séguéla, varaformaður Havas auglýsingastofunnar frönsku afhenti Stefáni sigurverðlaunin við hátíðlega athöfn í Madrid 10. september. Sofía Spánardrottning stýrði athöfninni en meðal viðstaddra var stórleikarinn Antonio Banderas, Góðgerðasendiherra Sameinuðu þjóðanna.

Árni Snævarr ræddi við Stefán um boðskap auglýsingarinnar og fleira:

 

Hversu mikið vita Íslendingar og Evrópubúar almennt um Þúsaldarmarkmiðin um þróun? Hvað segir þú sem fagmaður í auglýsingum um hvernig væri hægt að breyta því og kynna þetta mál betur?
 
“Ég hygg að vitneskja íslendinga um þúsaldarmarkmiðin um þróun sé mjög takmörkuð. Það hefur lítið verið fjallað um þau í fjölmiðlum og langt síðan þau voru í umræðunni. Þetta framtak sem nú fer fram undir heitinu wecanendpoverty.eu er breyting þar á og nauðsynlegt framlag til að kynna markmiðin betur.
Til að byrja með mætti birta auglýsinguna í helstu dagblöðum hér. Að auki væri áhrifaríkt að útbúa snjalla umhverfisgrafík og  stilla upp á fjölförnum stöðum sem næðu athygli almennings og fjölmiðla og kæmust þannig í umræðuna. Gæti verið klukka sem teldi niður tímann sem eftir væri. Tilvalið efni til að útbúa mjög áhrifaríka umhverfisgrafík.
Lítil sem engin umræða virðist vera á alþingi Íslendinga um þetta og nauðsynlegt að fá einhvern þingmann til að þrýsta á svör um hvað íslenska ríkisstjórnin sé að gera í málunum.
Einnig er áhrifaríkt að útbúa snjallan interaktívan netpóst eða svokallaðan wiral sem skapar þrýsting á stjórnvöld og upplýsir einnig almenning um að það er ekki líðandi að stór hluti mannkyns búi við algera örbirgð. Þetta á ekki endilega að vera á
neikvæðum nótum. Upplýsingar um hvernig miðast hefur á þessum árum og hvað vantar uppá er einnig mjög áhrifarík leið til að kynna málefnið betur. En aðalatriðið er að auglýsingaefnið sé áhrifamikið, einfallt og snjallt. Um leið og skilaboðin
eru ekki fókuseruð á fá atriði missa þau marks.
Einnig mætti hugsa sér að fá ríkissjónvarpið að sýna sterkar heimildarmyndir um fátækt. T.d. „Poverty“ eftir Philippe Diaz, sem er margverðlaunuð heimildarmynd um fátæktina í heiminum og heldur fram þeirri skoðun að fátækt sé ekki slys heldur afleiðing af alþjóðavæðingunni og nýlendustefnunni og því á ábyrgð auðugra ríkja að beita sér fyrir lausn á fátæktinni í heiminum. Mjög áhrifamikil og sláandi mynd sem myndi vekja mikla athygli á málefninu. Að kynna þetta málefni hér sem annars staðar væri mikil áskorun.”

alt

Stefán Einarsson, þróunarstjóri þriðji frá vinstri. Honum á vinstri hönd er Hennar hátign Sofia Spánardrottning en Rebeca Grynspan, aðstoðarforstjóri UNDP honum á hægri hönd. Því næst er Afsané Bassir-Pour, forstjóri UNRIC; leikarinn Antonio Banderas, Soraya Rodríguez Ramos, undirráðherra þróunarmála í ríkisstjórn Spánar og Jacques Séguéla, formaður dómnefndar. 


 Hver var hugmyndin á bakvið “We are still waiting” og hvernig vannstu auglýsinguna?
 
“Það sem mér datt fyrst í hug varðandi fátækt í heiminum er hinar sláandi andstæður á milli ríkra og fátækra. Í heimi  þar sem allur þessi auður er til, hvers vegna ríkir þá svona mikil fátækt er spurning sem flestir hljóta að spyrja sig. Verandi frá landi sem sjálft hefur lent í áþreifanlegum efnahagserfiðleikum var mér þetta efni frekar hugleikið. En aðallega hve ótrúlega heppin við erum að geta gengið að grundvallarþörfum vísum, eins
og vatni, mat, húsaskjóli, menntun, atvinnu og heilbrigðiskerfi.
Það er mjög sláandi staðreynd
að hafi maður aðgang að hreinu vatni, eigi eigið húsnæði, geti klætt sig og fætt þá tilheyrir maður hinum heppnu 25% mannkyns.”

alt

Ég las mér til um efnið og skissaði talsvert. Út frá þessum andstæðum kviknaði hugmyndin að tvískiptingunni á milli leiðtogana og biðraðar afrískra barna eftir mat.
Á meðan leiðtogar heims koma saman í sínu fínasta pússi á enn einum leiðtogafundinum til að semja yfirlýsingar líða milljónir manna í heiminum skort og eru enn að bíða eftir raunhæfum aðgerðum. Ég forðaðist að gera almenna auglýsingu um fátækt eða afleiðingar fátæktar í heiminum heldur einblíndi á að gera sterka áminningu til leiðtoga heimsins en sem líka væri áminning til okkar sem búa við allsnægtir. Auglýsingin átti að sýna fáránleikann sem ríkir í heiminum.

Setningin: Dear world leaders, We are still waiting kom síðan eiginlega af sjálfu sér þegar myndefnið lá fyrir. Ég þróaði þessa tvískiptingu áfram og gerði hana átakanlegri og beittari. Þá fæddist auglýsingin þar sem Obama, forseti USA situr inní limosínu á bak við hálfopna bílrúðu. Efri hluti andlits hans sést á bak við bílrúðuna en í bílrúðunni speglast líkami og andlit vanærðs afrísks barns. Saman mynda andlit Obamas og barnið eina heild, eina manneskju.
Sú auglýsing lenti í þrettánda sæti í keppninni. Ágætt er að gera orð Nelsons Mandela um fátækt að sínum: Líkt og þrælahald, og aðskilnaðarstefnan þá á fátækt sér ekki náttúrulegar skýringar heldur er fátækt mannanna verk.
Og líkt og önnur mannanna verk er hægt að vinna bug á henni og útrýma með aðgerðum okkar mannanna.”

 
Nú er kreppa í efnahagsmálum í heiminum – ekki síst á Íslandi – heldurðu að fólk sé síður viljugt til að veita fé til þróunaraðstoðar en áður?

“Ísland er það land sem varð hvað verst út úr kreppunni. Kreppan hefur haft miklar neikvæðar afleiðingar fyrir fjölda manns sem hefur misst atvinnu,
húsnæði og býr í fyrsta sinn við skort. En jákvæðar afleiðingar kreppunar hafa einnig verið miklar. Aðallega þá hugarfarslegar. Samhjálp og umhyggja fyrir þeim sem líða skort hefur aukist umtalsvert og fólk er tilbúnara en áður að veita góðum málum liðsstyrk. En hugsanlega er þessi afstaða aðeinsbundin við almenning. Fyrirtækin sem áður veittu fé til almannaheilla halda að sér höndum vegna efnahagserfiðleikanna og er það miður.
Áherslan á efnahagsleg gæði hefur minnkað og fólk einbeitir sér í meira mæli að fjölskyldu og vinum og því sem gefur lífinu sannarlega gildi svo ég tel almennt að fólk sé meira tilbúið að leggja góðum málum lið en áður.”