Ráðstefna minnst þróuðu ríkja hafin

0
449
alt

altBan Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti í dag leiðtoga fátækustu ríkja heims til að taka sameiginlega afstöðu og senda skýr skilaboð til heimsins um nauðsyn þess að fjárfesta í minnst þróuðu ríkjum heims til að uppræta fátækt í heiminum.
Leiðtogar hóps minnst þróuðu ríkja heims, 48 að tölu, sitja nú ráðstefnu sem hófst í dag í Istanbúl í Tyrklandi. Þetta er fjórða ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni minnst þróuðu ríkjanna. 
Ráðstefnan mun fara í saumana á framkvæmd svokallaðrar Brussel aðgerðaáætlunar sem samþykkt var á sams konar ráðstefnu fyrir áratug.
Ráðstefnunni í Istanbúl er ætlað að samþykkja nýja tíu ára áætlun og koma þjóðhöfðingjar, oddvitar ríkisstjórna, þingmenn, almannasamtök, einkageirinn og yfirmenn alþjóðlegra stofnana saman á fundinum í Tyrklandi til að leggja hönd á plóginn.
Samþykktar verða aðgerðir til að draga úr fátækt og skapa sómasamleg störf í 48 ríkjum sem teljast minnst þróuð. Þrjátíu og þrjú eru í Afríku, 14 í Asíu og eitt (Haítí) á vesturhveli jarðar.