Rausnarlegt framlag Íslands í þágu kvenna í Jemen

0
628
Framlag Íslands til Jemen
Stúlka í Jemen. Mynd: Flickr Rod Waddington: 2.0 Generic (CC BY-SA 2.0)

Ísland hefur veitt UNFPA, Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna, sérstakt framlag að upphæð 200,000 Bandaríkjadala. Það samsvarar hátt í þrjátíu milljónum íslenskra króna.

Fénu verður varið til að efla vernd kvenna í Jemen. Í tilkynningu frá UNFPA segir að frá 2019 hafi Ísland látið 850,000 dali renna til slíkra verkefna í Jemen en það er andvirði nærri 120 milljóna króna á gengi dagsins í dag.

„Við erum afar þakklát íslensku þjóðinni, þetta fé mun gera okkur kleift að veita konum og stúlkum heildstæð verndarúrræði og stuðning í yfirstandandi kreppu“, segir Nestor Owomuhangi, starfandi fulltrúi UNFPA í Jemen.

Framlag Íslands til Jemen
Kona á gangi í Jemen. Mynd: Flickr. fiat.luxury. CC 2.0 Generic (CC BY-SA 2.0)

Konur í hættu

Konur og stúlkur í Jemen eru sérlega berskjaldaðar fyrir ofbeldi og enn frekar nú í ljósi þess hve margir hafa flúið heimili sín og sú vernd sem áður bauðst hefur gufað upp.

Áður en átökin í Jemen brutust út voru konur neðarlega í virðingarstiga og sættu iðulega ýmiss konar harðræði. Konur og stúlkur eru nærri helmingur þeirra 4.3 milljóna Jemena sem flosnað hafa upp frá heimilum sínum undanfarin 3 ár og er 27% yngri en 18 ára.

Fjárframlög Íslands hafa tryggt meir en eitt þúsund konum sálfræðilegan stuðning, lagalega aðstoð og læknisþjónustu á sex svæðum í Jemen. Meir en 100 konum hefur verið veitt aðstoð við að stofna eigin fyrirtæki.

Griðasvæði

Griðasvæði ætluð konum hafa veitt þeim tækifæri til að hittast, skiptast á upplýsingum og endurreisa tengslanet samfélaga.

„Meir en 14.4 milljónir Jemena þurfa á vernd að halda og meira en helmingur þeirra eru stúlkur og konur. Þess vegna er afar brýnt að auka grundvallarþjónustu til að koma til móts við þarfir þeirra,“ segir Nestor Owomuhangi, hjá UNFPA í Jemen.

Hluti af mannúðarstarfi UNFPA í Jemen er að sinna þörfum kvenna og stúlkna á sviði frjósemisheilbrigðis.

UNFPA hefur farið fram á við ríki heims og alþjóðastofnanir að framlögum að andvirði rúmlega 100 milljóna Bandaríkjadala verði veitt til að sinna frjósemisheilbrigði kvenna og stúlkna sem hafa orðið fyrir barðinu á núverandi kreppu í Jemen. Um helmingur þeirrar upphæðar eða 52.1 milljón hefur þegar safnast.