Tóbak drepur milljarð á þessari öld

0
421

wntd 20120530

31. maí 2012. Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sakaði í dag tóbaksiðnaðinn um “herskáa” andstöðu við aðgerðir gegn tóbaksneyslu sem hann segir að geti valdið dauða eins milljarðs manna fyrir lok þessarar aldar.

Í ávarpi á Alþjóðadeginum án tóbaks eða Reyklausa deginum segir Ban að þennan dag beri nú upp á tíma “þegar tóbaksiðnaðurinn tekur sífellt herskárri skref til að grafa undan aðgerðum til að draga úr tóbaksógninni á heimsvísu.”

Tóbaksneysla drepur með því að valda krabbameini, hjarta- og öndunarfærasjúkdómum. Hún er ein af helstu áhættuþáttum þegar sjúkdómar sem eru ekki smitandi eru annars vegar og hægt er að afstýra. Á hverju ári deyja fimm milljónir manna vegna tóbaksnotkunar. 600 þúsund til viðbótar deyja af völdum óbeinna reykinga.

“Tóbaksiðnaðurinn sem framleiðir banvænan varning er í herskárri andstöðu við viðleitni ríkisstjórna og alþjóðlegra heilbrigðisyfirvalda til að hrinda í framkvæmd aðgerðum til að stemma stigu við tóbaksneyslu og vernda heilsu fólks,” segir framkvæmdastjórinn í ávarpi sínu.
 

 “Ef við eflum ekki aðgerðir okkar til að hafa stjórn á neyslunni mun tóbak drepa allt að einum milljarði manna fyrir lok þessarar aldar.” Ban sakar tóbaksiðnaðinn um að berjast gegn varnaraðgerðum “án nokkurs tillits til heilsu fólks.”
 
Hann ber lof á Rammasáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um stjórn á tóbaksneyslu og bendir á að í sumum löndum hafi verið dregið úr reykingum um 25% á aðeins þremur árum eftir að ákvæðum sáttmálans var hrint í framkvæmd.

“Stöndum fast gegn árásum tóbaksiðnaðarins og berjumst fyrir tóbakslausum heimi,” segir Ban í ávarpi sínu.

Sjá einnig um daginn án tóbaks: http://dagurantobaks.is/ og http://www.who.int/en/