Ríki verða að standa skil á skuldbindingum sínum gagnvart konum, segir UNIFEM

0
437

 18. september 2008 – Grípa þarf til aðgerða til þess hægt sé að fylgjast með að ríki og fjölþjóðastofnanir standi skil á skuldbindingum sínum í að efla réttindi kvenna, að því er fram kemur í nýrri skýrslu UNIFEM.
Í skýrslunni “Framþróun kvenna í heiminum 2008/2009, hver ber ábyrgð gagnvart konum? Kyn og ábyrgð” segir að því fari víðs fjarri að staðið sé við fyrirheit um að auka réttindi kvenna. “Ef ríkisstjórnir þurfa ekki að standa skil á skuldbindingum sínum, munu þær ekki dreifa gæðum jafnt og það kemur harðast niður á þeim fátækustu,” sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þegar skýrslan var kynnt. 
“Innan þess hóps verða fátækar konur oft harðast úti því þær njóta ekki menntunar, og stuðnings stjórnmálaafla og réttarkerfis. Þær eru settar til hliðar, kraftar þeirra eru ekki virkjaðir og þarfir þeirra sniðgengnar.”

Inés Alberdi, forstjóri UNIFEM á blaðamannafundi í New York

 Fjórum sinnum færri konur en karlar sitja á þjóðþingum og tekjur kvenna eru að meðaltali 17% lægri en karla. Um þriðjungur kvenna eru fórnarlömb kynbundins ofbeldis á æfi sinni og tíunda hver kona deyr á meðgöngu enda þótt það sé tiltölulega ódýrt að hindra mæðradauða.
Í skýrslunni er bent á að það dugi konum best ef komið er á fót ferli sem geri konum kleyft að, æskja upplýsinga, krefjast skýringa og rannsókna og bóta, þegar nauðsyn krefur.
Skýrslan var kynnt viku áður en veraldarleiðtogar hittast á fundi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York til að ræða Þúsaldarmarkmiðin um þróun, en það eru átta markmið til að minnka fátækt fyrir árið 2105.  

Konur mótmæla kynbundnu ofbeldi í Kongó.


“Að skylda ríki til að standa skil á aðgerðum í þágu jafnréttis kynjanna er ekki munaður, heldur nauðsyn,” sagði Inés Alberdi, forstjóri UNIFEM á blaðamannafundi í New York og bætti því við efndir en ekki orð væru nauðsynleg til að ná Þúsaldarmarkmiðunum.
Hún sagði að aðgerðaleysi ríkisstjórna og samtaka í að bæta hag kvenna, græfi bæði undan viðleitni til að draga úr fátækt og stæði mannlegri þróun fyrir þrifum.Hún benti sérstaklega á mæðradauða.
“Það er ódýrt og einfalt að bæta heilsugæslu til að draga úr mæðradauða,” sagði Alberdi en meir en half milljón kvenna deyr á hverju ári af barnsförum
Tíðni mæðradauða hefur minnkað um 0.4% á ári en langt er í land að hann hafi minnkað um 5.5% eins og nauðsynlegt er til að ná fimmta Þúsaldarmarkmiðinu um þróun. Þar er það takmark sett að mæðradauði hafi minnkað um þrjá fjórðu fyrir 2015.
Í skýrslu UNIFEM eru veitendur aðstoðar og öryggisstofnanir hvattar til þess að efla viðleitni sína til að setja sér jafnréttisstaðla. Bent er á að samtök á borð við Sameinuðu þjóðirnar hafi engan mælikvarða til að meta hve stórum hluta fjár er varið til að efla réttindi kvenna.