Rjúfum vítahring spillingar

0
471
AntiCorruptionDay1

AntiCorruptionDay1

9.desember 2015. Norðurlöndin eru á meðal þeirra ríkja heims þar sem minnst spilling þrífst.

Danmörk er í fyrsta sæti á lista Transparency International yfir minnsta spillingu í heiminum og Finnland, Svíþjóð og Noregur eru í þriðja til fimmta sæti. Ísland er nokkru neðar eða í tólfta sæti.

Í dag er Alþjóðadagur gegn spillingu, en þema dagsins í ár er rjúfum keðjuna #breakthechain.

Spilling teygir anga sína víða. Talið er að spilling, mútur og skattsvindl í þróunarríkjum nemi andvirði 1.26 trilljón Bandaríkjadala. Þetta fé mætti nota til þess að bjarga öllu fátækasta fólki heims úr viðjum fátæktar í sex ár og er þá miðað við alþjóðlegu fátæktarviðmiðin; þá sem lifa á 1.25 Bandaríkjadal eða minna á dag.

Meðfylgjandi myndband frá UNODC sýnir alvarlegar afleiðingar spillingar.

Þetta er til marks um að spilling er ein helsta hindrun í vegi efnahagslegrar- og félagslegrar þróunar í heiminum. „Spilling hefur geigvænleg áhrif á þróun því glæpamenn og óheiðarlegir embættismenn hrifsa til sín fé sem á að renna til skóla, heilsugæslu og brýnnar opinberrar þjónustu,“ segir Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi hans í tilefni Alþjóðadags gegn spillingu 2015.

Spilling hefur einnig alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfið. Sem dæmi má nefna að spilling setur strik í reikninginn á svo ólíkum sviðum sem nýtingu skóga og vatnsbóla, vernd dýrategunda í útrýmingarhættu, olíuvinnslu, stjórnun fiskveiða og urðun hættulegra efna.

 Eitt af sautján heimsmarkmiðum um Sjálfstæða þróun snýst um að „koma á fót skilvirkum og ábyrgum stofnunum fyrir alla á öllum stigum“

CORR2014 01logo colors EN„Ef ekki er spyrnt við fótum geta spilling og mútur reynst alvarlegur þrándur í götu sjálfbærrar þróunar og stefnt 2030 markmiðunum um sjálfbæra þróun í hættu um allan heim. Alvarlegir glæpir af þessu tagi grafa undan mikilvægu trausti á milli borgara og ríkisstjórna og fyrirtækja og neytenda,“ segir Júrí Fedotorov, forstjóri Eiturlyfja- og glæpaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNODC).  

Nánari upplýsingar um herferð Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) og UNODC til höfuðs spillingu má finna hér 

Notið myllumerkið #breakthechain á samfélagsmiðlum til að láta í ljós skoðanir á spillingu og nefnið @UNDP og @UNODC.