Róma: Hitt Evrópufólkið

0
425
alt

eftir Navi Pillay, Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna

alt

Sagt er að fátt sé svo með öllu illt að ei boði gott. Meðferð á Róma fólki í Frakklandi og víðar hefur vakið mikið uppnám að undanförnu. Fyrir vikið hefur kastljósinu í Evrópu og víðar loks verið beint að þeirri mismunun sem þessi hópur hefur verið beittur um langan aldur. Mikilvægt er að viðhalda athyglinni sem beinst hefur að skelfilegum aðstæðum þessa einangraða minnihlutahóps, þegar öldurnar tekur að lægja. Fjalla verður um þessi málefni í réttu samhengi á þann hátt að mannréttindi séu leiðarljós í stefnumótun og aðgerðum.

Andúð á Róma-fólkinu er enn mikil í Evrópu þrátt fyrir aðgerðir sumra Evrópuríkja og alþjóðlegra- og svæðisbundinna samtaka. Þessi andúð hefur jafnvel aukist í kjölfar kreppunnar sem hefur neytt margt Róma-fólk til að yfirgefa hefðbundin samfélög sín til að leita að betri tækifærum annars staðar. Af þessum sökum hefur mismunum og ofbeldi einnig færst í aukana.

Sem dæmi má nefna fréttir um mannskæðar árásir á Róma-fólk í Ungverjalandi og Slóvakíu. Mýmörg skjalfest dæmi eru um markvissa misnunum og má þar nefna skjal sem lak út úr franska innanríkisráðuneytinu þar sem fyrirskipað var að rýming búða Róma-fólks skyldi hafa forgang.

Að auki hefur Nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamisréttis (CERD) skrásett misalvarleg tilfelli þar sem Róma-fólki hefur ýmist verið úthýst með valdi, hindrað í að fá fullnægjandi húsnæði eða sætt aðskilnaði. Dæmi um slíkt má finna í Búlgaríu, Grikklandi, Ítalíu, Litháen, Rúmeníu, Slóvakíu og Tékklandi.

Í sumum löndum er aðgangur Róma-fólks að heilsugæslu takmarkaður vegna skorts á skilríkjum. Fram kemur hjá Nefndinni um afnám kynþáttamisréttis (CERD) að víða sé pottur brotinn í menntun Róma-barna; ýmist séu þau skilin frá öðrum börnum eða hlutfallslega of mörg þeirra séu í bekkjum fyrir börn sem stríði við námserfiðleika. Á síðustu árum hefur Mannréttindadómstóll Evrópu dæmt evrópskar ríkisstjórnir, þar á meðal ESB ríkin Tékkland og Grikkland, brotleg við skyldur sínar varðandi skólagöngu Róma-barna. Þessum dómum hefur í besta falli verið framfylgt handahófskennt.

Þar að auki hefur brottvísun Róma-fólks frá Þýskalandi til Kosovo haft skaðlegar afleðingar fyrir réttindi barna, þar á meðal réttindi þeirra tiil menntunar. Ný rannsókn UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna hefur leitt í ljós að slæmar afleiðingar fyrir börn sem höfðu aðlagast þýskum skólum þokkalega vel. Þeim hefur skyndilega verið komið fyrir í albönsku-mælandi umhverfi sem er þeim framandi. Möguleikar þeirra til skólagöngu eru litlir sem engir. Af þessum sökum þarf ekki að koma á óvart að Skrifstofa grundvallarréttinda í Evrópusambandinu (EU Fundamental Rights Agency) telur að Róma-fólk sæti mestrar mismununar allra í ESB.

Þau öfl sem þrífast pólitískt á því að kynda undir tortryggni hafa ýtt undir einangrun og fordóma með hatursáróðri. Þetta er eitt þeirra atriða sem ég gerði að umtalsefni þegar ég heimsótti löglegar jafnt sem ólöglegar byggðir Róma-fólks á Ítalíu nýverið. Þar, eins og víða annars staðar, hef ég talað fyrir meiri aðlögun Róma-fólks að meginstraumi jafnt upphaflegra sem væntanlegra heimkynna þeirra. Fyrsta skref aðlögunar er að tryggja aðgang að menntun og annari grunnþjónustu, svo sem heilsugæslu, fullnægjandi húsnæði og hreinlæti auk atvinnumöguleika. Allt er þetta áskilið samkvæmt mannréttindalögum. Það gerðu Róma-bönin sem ég hitti, foreldrar þeirra og fulltrúar þeirra  mér algjörlega ljóst í samtölum okkar.

Ég geri mér grein fyrir því að sumar hefðir Róma-fólksins brjóta í bága við það sem gengur og gerist og sumt kann í sjálfu sér að vera brot á mannréttindum, svo sem nauðungargiftingar og vinna barna. Mér er líka ljóst að sumt Róma-fólk sem lifir á jaðri samfélaga hefur leiðst út í glæpi, oftast smáglæpi og slíkt veldur skiljanlega úlfúð. Taka ber á slíkum málum hverju fyrir sig án þess að grípa til fortakslausrar fordæmingar. Taka ber á þeim á sama hátt og málum annara brotamanna en ekki með harkalegum aðgerðum í því skyni að kenna þessum hóp lexíu. Slíkt dregur dám af fordæmingu og sameiginlegri refsingu minnihluta.

Gripið hefur verið til alvarlegra aðgerða til að stemma stigu við þessum vanda jafnt á vettvangi þjóðríkja sem stofnana Evrópusambandsins. Sem dæmi má nefna að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur bersýnilega reynt að efla aðlögunarstefnu sína á vettvangi hlutaðeigandi stofnana og með því að innleiða Grundvallaratrði aðlögunar Róma-fólks árið 2009 (Common Basic Principles of Roma Inclusion in 2009.) Einnig má nefna að 182 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hétu því að grípa til áfreifanlegra aðgerða til að uppræta mismunun gegn Róma og öðrum minnihlutum, bæta hag þeirra og sjá þeim fyrir sérstakri vernd.

Miklu meira þarf að gera. 27 aðildarríki Evrópusambandsins hafa með virkum stuðningi framkvæmdastjórnar ESB auk Sameinuðu þjóðanna, möguleika á að breyta afstöðu sinni úr því að vera þolandi í að vera gerandi. Þeim ber að fylkja sér undir merki góðra stjórnarhátta og mannréttindastaðla og virkja þá hvarvetna í Evrópusambandinu til að tryggja Róma-fólki mannsæmandi líf í einum auðugasta hluta heims; heimshluta sem eru einnig þeirra heimahagar.

(Þessi grein birtist í nokkrum evrópskum dagblöðum 28. september 2010)