Rúanda: “SÞ hefur lært af reynslunni”

0
575

 BAN Reynders Stakeout

1.apríl 2014 Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að samtökin hafi lagt kapp á að “draga lærdóma af mistökum” í Rúanda og Srebrenica.

Framkvæmdastjórinn tók þátt alþjóðlegri ráðstefnu í dag um hvernig hindra má þjóðarmorð í Brussel. Ráðstefnan er haldin að frumkvæði belgísku stjórnarinnar og taka 124 fulltrúar ríkja og alþjóðasamtaka þátt í henni auk leiðandi fræðimanna.

“Andspænis ofbeldisverkum í Rúanda, ákvað Öryggisráðið að draga til baka friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna og þar með hurfu af vettvangi “augu og eyru” alþjóðasamfélagsins þegar þörfin var brýnust. Orðspor Sameinuðu þjóðanna beið einnig hnekki vegna aðgerða og aðgerðaleysis í Srebrenica”, sagði Ban í ræðu sinni á ráðstefnunni.

Ban sagði að tveir sérstakir erindrekar fylgdust nú með því hvar líkur væru á þjóðarmorði eða viðurstyggilegum glæpum í því skyni að vara við tímanlega.

Þá minnti hann á nýjasta frumkvæði samtakanna “Rights Up Front” sem miðar að því að einblína á mannréttindabrot á frumstigi. “Við lærðum af reynslunni á Sri Lanka. Þetta skyldar samtökin til að segja aðildarríkjunum það sem þau þurfa að heyra, en ekki það sem þau vilja heyra, um alvarleg brot og neyðarástand í uppsiglingu.”

Ban Ki-moon er í þriggja daga heimsókn í Brussel þar sem hann mun sækja sameiginlegan leiðtogafund Evrópusambandsins og Afríkuríkja, sitja fundi með oddvitum Evrópusambandsins og Belgíu og eiga fjöld funda með einstökum leiðtogum Afríku – og Evrópuríkja.

Á meðal málefna sem verða í brennidepli eru Úkraína, Mið-Afríkulýðveldið, Sýrland, þróunarmál og Loftslagsmál en á fimmtudag heldur Ban Ki-moon mikilvæga ræðu hjá samtökunum Friends of Europe um það málefni.

Mynd: Ban, Didier Reynders, utanríkisráðherra Belgíu og Thorbjörn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins á blaðamananfundi í Brussel. UNRIC/Julien Schreiber.