Sameinuðu þjóðirnar gagnrýna afgönsk lög

0
449

 
Navi Pillay mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna hvatti í dag afgönsku stjórnina til að nema úr gildi ný lög sem grafa undan réttindum kvenna í Afganistan og brjóta í bága við afgönsku stjórnarskrána og almenna mannréttindastaðla.

Karzai forseti undirritaði lögin fyrr í þessum mánuði eftir að þau höfðu hlotið samþykkji beggja deilda þingsins. Lögin taka eingöngu til einkamálaréttar Sjía-minnihlutans (um 10% íbúa); samskipta karla og kvenna, hjónaskilnaða og eignarréttar.  

Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna afhendir afganskri konu matarolíu að launum fyrir þátttöku í lestrarnámskeiði fyrir konur.

“Þetta er enn eitt dæmið um að  mannréttindaástandið í Afganistan fer versnandi, ekki batnandi,” sagði Pillay. “Virðing fyrir réttindum kvenna – og mannréttindum almennt – er þýðingarmikil fyrir öryggi og framtíðarþróun Afganistans. Þessi lög eru skref afturábak.”

Lögin meina afgönskum Sjía-konum að yfirgefa heimili sín nema af sérstökum ástæðum, banna konum að vinna eða læra án sérstakrar heimildar eiginmannsins, leyfa nauðgun í hjónabandi, skerða forræðisréttindi mæðra við skilnað og koma í veg fyrir að konur erfi eignir eiginmanna sinna. 

“Að sett skuli lög árið 2009 konum til höfuðs er ekki bara óvenjulegt heldur minnir mikið á tilskipanir Talibana í Afganistan á tíunda áratugnum", sagði Pillay.