Sameinuðu þjóðirnar koma bágstöddum til hjálpar á jarðskjálftasvæðum

0
287
Jarðskjálftar
Björgunarsveitir leita að eftirlifendum í rústum húss í Samada í Sýrlandi. © UNOCHA/Ali Haj Suleiman

Jarðskjálftar. Mannúðaraðstoð. Stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa sent starfsfólk og hjálpargögn til jarðskálftasvæðanna í Tyrklandi og Sýrlandi. Degi eftir jarðskjálfta á landamærum ríkjanna tveggja er talið að ekki færri en fimm þúsund hafi týnt lífi.

Jarðskjálfti, sem mældist 7.8 á Richter-kvarða, varð nærri Gaziantep í suðausturhluta Tyrklands nærri sýrlensku landamærunum. Leit stendur enn yfir að eftirlifendum, en margir eru grafnir undir húsarústum.

78 eftirskjálfar urðu og annar jarðskjálfti um 7.5 á Richter varð nokkrum klukkustundum síðar. Fyrri skálftinn er sá öflugasti sem mælst hefur í Tyrklandi frá 1939.

Björgunarstarf - þúsundir eru grafnir undir húsarústum.
Björgunarstarf – þúsundir eru grafnir undir húsarústum. © UNOCHA/Ali Haj Suleiman

„Ég finn til með Tyrkjum og Sýrlendingum á þessari erfiðu stundu,“ sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í yfirlýsingu. „Sameinuðu þjóðirnar eru staðráðnar í að veita aðstoð við björgun. Sveitir okkar eru á vettvangi að meta þarfir og veita aðstoð.“

Tyrkneska stjórnin hefur lýst yfir fjórða stigs neyðarástandi og beðið um alþjóðlega aðstoð.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur virkjað neyðaráætlun og sent sveitir á staðinn til að sinna nauðsynlegri heilsugæslu fyrir slasaða og þá sem um sárast eiga að binda eftir skjálftann.

Innlend yfirvöld einbeita sér að leit og björgun, og undirbúa aðstoð við hina slösuðu.

„Við styðjum fyrst og fremst viðbrögð á staðnum,“ segir Catherine Smallwood samræmandi hamfaraaðstoðar í Tyrklandi fyrir WHO. „Tyrkland býr yfir mjög öflugum úrræðum til að takast á við afleiðingar jarðskjálfta, en eyðileggingin er slík að Tyrkir hafa beðið um alþjóðlega heilbrigðis-aðstoð.“

Slösuðum manni komið til hjálpar.
Slösuðum manni komið til hjálpar. © UNOCHA/Ali Haj Suleiman

„Af öllum náttúruhamförum er jarðskjálftar mannskæðastir“, segir Mami Mizutori yfirmaður náttúruhamfararstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UN Office for Disaster Risk Reduction). „Áhrifin magnast enn meira þegar þeir verða á berskjölduðum svæðum, þar sem mannvirki og aðrir innvirðir eru veikburða og þörf á mannúðaraðstoð mikil.“

Hjálparstarf í Sýrlandi enn erfiðara

Jarðskjálftinn olli einnig miklum skakkaföllum í norðvesturhluta Sýrlands. Á þeim slóðum eru 4.1 milljón manna, sem reiðir sig á mannúðaraðstoð í dag vegna borgarastríðsins í landinu.  Meirihlutinn eru konur og börn.

Flóttamananhjálp Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi  (UNHCR) „vinnur af fullum krafti að því að samræma viðbörgð stofnana Sameinuðu þjóðanna og annara mannúðarsamtaka við að koma aðstoð til skila og styðja þá sem þurfa á aðstoð að halda í Sýrlandi.“

Sýrlendingar á þessum slóðum glíma nú þegar við kólerufaraldur. Vetrarhörkur eru miklar á þessum slóðum og var hellirigning og snjókoma til skiptis um helgina.

Illa hefur gengið að fjármagna aðstoð við fólk á þessum svæðum. Aðeins 48% þess fjár sem þurft hefur safnast fyrir síðasta fjórðung ársins 2022 eða aðeins 371 milljón Bandaríkjadala af alls 802 milljónum.

Vilt þú aðstoða?

Viljir þú hjálpa Sameinuðu þjóðunum að koma til aðstoðar bágstöddum vegna jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi er hægt að koma fé til skila, sjá hér og hér.