Sameinuðu þjóðirnar óska eftir rannsókn á mannfalli í Afganistan

0
430

25. ágúst  2008 – Æðsti maður Sameinuðu þjóðanna í Afganistan hefur óskað eftir því að lát fjölmargra óbreyttra borgara í hernaðaraðgerðum í vesturhluta landsins verði kannað ítarlega.

 Kai Eide, sérstakur fulltrúi framkvæmdastjóri SÞ hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hann segir brýnt að farið verði í saumana á mannfalli meðal óbreyttra borgara í árásum í Shindan í Herat héraði í vesturhluta landsins.
Hann lagði áherslu á að “staðreyndir málsins” yrðu dregnar fram í dagsljósið áður en ályktanir væru dregnar. “Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt áherslu á að mannfall meðal óbreyttra borgara sé óásættanlegt og grafi undan trausti og stuðningi meðal afgönsku þjóðarinnar.” 
Afganska stjórnin segir að rannsókn hafi leitt í ljós að yfir 90 óbreyttir borgarar, flestir þeirra konur og börn, hafi beðið bana í nýlegum loftárásum Bandaríkjahers og bandamanna hans í Herat-héraði.
Hamid Karzai, forseti Afganistans, fyrirskipaði rannsóknina eftir að afganskir embættismenn skýrðu frá því að margir óbreyttir borgarar lægju í valnum eftir loftárásir. Bandaríkjaher kannast aðeins við að þrjátíu vígamenn Talibana hafi látist í árásunum.