Sameinuðu þjóðirnar styrkja Serba

0
503

 Press conference

10. júní 2014. Sameinuðu þjóðunum í Serbíu hefur verið úthlutað 1.8 milljón Bandaríkjadala til að standa straum af aðstoð við landið sem varð fyrir miklum skakkaföllum í flóðum um miðjan síðasta mánuð.

Hamfarasjóður samtakanna (CERF ) veitti fénu til að styðja við bakið á bágstöddum á flóðasvæðunum.

”Allar stofnanir Sameinuðu þjóðanna í Serbíu lögðust á eitt eftir að úttekt sérfræðinga UNDAC lá fyrir og viku síðar hafa höfuðstöðvarnar í New York brugðist við með því að láta þessa upphæð af hendi rakna,” sagði Irena Vojáčková -Sollorano, forystumaður Sameinuðu þjóðanna í Serbíu.

Sameinuðu þjóðirnar munu nota þetta fé í verkefni sem framkvæmd eru í samvinnu við ríkisstjórn landsins og frjáls félagasamtök en þau eru á vegum Þróunarstofnunar SÞ (UNDP), Barnahjálparinnar (UNICEF), Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IMO) og Matvælaáætlunarinnar (WFP).

“Aðstoð Sameinuðu þjóða-liðsins hér i´Serbíu hefur verið einstaklega mikils virði frá því ósköpin dundu yfir. Sérfræðiþekking og stuðningur samtakanna mun enn um sinn hjálpa okkur við að draga úr áhrifum flóðanna,” segir Marko Blagojević, samrænandi aðgerða á vegum serbneskra stjórnvalda.

Í síðustu viku fór stjórn Serbíu fram á að Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið og Alþjóðabankinn hrintu í framkvæmd svokallaðri PDNA (Post Disaster Needs Assessment) úttket sem skuldbindur þess aðila til að vinna saman og fjármagna uppbyggingu.

Flóðin í Serbíu og nágrannaríkjum eru mestu náttúruhamfarir í 120 ár. 34 létust í Serbíu og 30 þúsund urðu að flýja heimili sín. Sameinuðu þjóðirnar brugðust þegar við og veittu mannúðaraðstoð og sendu sérfræðinga á vegum UNDAC (the UN Disaster Assessment Coordination) til að meta ástandið á staðnum.

Sérfæðingarnir skiluðu skýrslu sinni í síðustu viku og vöruðu við hættu af flóðavatni sem ekki hefur sjatnað; sérstaklega vegna stíflaðra klóaka.

”Þegar skolpræsi virka ekki er vitaskuld heilbrigðisvandamál á ferðinni. Þetta þarf að fylgjast betur með,” segir Michael Elmquist, oddviti UNDAC sérfræðingahópsins.

Sérfræðingarnir vara einnig við umhverfisspjöllum og hættu á því að skaðleg efni leki út í umhverfið.

Fyrirtæki hafa orðið að loka vegna flóðanna og hafa tugir þúsunda misst vinnuna, að minnsta kosti tímabundið. ”Serbía stendur frammi fyrir alvarlegum vandamálum,” segir Elmquist. ”Mannvirki hafa verið mikið skemmd, þannig að það eitt að að endurreisa samgöngukerfið verður þungur baggi fjárhagslegsa Að auki hafa margir íbúanna orðið fyrir skakkaföllum; heimili sumra hafa orðið flóðunum að bráð, eða aurskriðum og bændur hafa tapað allri uppskerunni.”

Rauði Krossinn telur að 1.2 milljónir manna eða 22% íbúa Serbíu hafi orðið fyrir skakkaföllum af völdum flóðanna og metur kostnaðinn á 1.2 milljarð dala.

Franska ríkisstjórnin hefur boðist til að halda ráðstefnu til að safna fé fyrir öll þrjú ríkin á Balkansskaga sem urðu fyrir flóðunum en þau eru Bosnía-Hersegóvína og Króatía auk Serbíu.

Mynd: Irena Vojáčková -Sollorano frá Sameinuðu þjóðunum og Marko Blagojević, fulltrúi serbneskra stjórnvalda á blaðamannafundi í Belgrad. Mynd: UNCT Serbia/Djordje Novakovic.