Samþykkt G-8 í loftslagmálum ófullnægjandi

0
384

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að samþykkt leiðtoga 8 helstu iðnríkja heims um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda sé ófullnægjandi. Hann varar við því að meiri niðurskurðar sé þörf ef fullnægjandi samkomulag eigi að nást á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í lok þessa árs. 
Ban sagði í yfirlýsingu í  L’Aquila á Ítalíu þar sem hann sótti fund leiðtoga G8- átta helstu iðnríkjanna, að þótt hann fagnaði yfirlýsingunni, gengi hún ekki nógu langt. 
“Tími frestana og hálfvelgju eru liðnir,” sagði Ban. “Nú þurfum við skýra forystu hvers einasta þjóðarleiðtoga og forystumanna ríkisstjórna í því skyni að vernda jörðina og íbúa hennar fyrir einhverri mestu vá sem nokkru sinni hefur steðjað að mannkyninu.”


Ban (fyrir miðju) ávarpar leiðtoga G8 ríkjanna.

Leiðtogar G8 samþykktu í vikunni að minnka losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2050 en Ban segir að slíkt takmark væri ekki trúverðugt ef ekki fylgdu nánari ákvæði og tímaáætlanir.
“Til þess að ná árangri á heimsvísu ættu þróuð ríki að ganga á undan með góðu fordæmi og skuldbinda sig til að minnka losun um 25-40% fyrir árið 2020 sé miðað við 1990. Þetta er í samræmi við ráðgjöf Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC).”
Framkvæmdastjórinn benti á að þau ríki sem sátu fundinn í L’Aquila beri ábyrgð á losun meir en 80% allrar losunar í heiminum. “Þess vegna bera þau mikla ábyrgð á því að finna leið út úr pólitískri blindgötu. Ef þau ná ekki samkomulagi í ár hefur einstöku sögulegu tækifæri verið glatað sem kannski kemur ekki aftur. Við stöndum á sögulegum krossgötum. Það er ekki hægt að láta sem ekkert sé, það verður að grípa til róttækra aðgerða.”