I. KAFLI

0
524

Samþykktir alþjóðadómstólsins

1.gr.
Milliríkjadómurinn, sem stofnaður er samkvæmt stofnskrá sameinuðu þjóðanna og er aðaldómstóll þeirra, skal vera skipaður og starfa samkvæmt samþykktum þessum.

I. KAFLI

SKIPUN DÓMSTÓLSINS

2. gr.
Dómstóllinn skal vera skipaður óháðum dómendum. Eigi skiptir þjóðerni þeirra máli, enda skulu þeir vera vammlausir menn og búnir þeim kostum, sem heimtaðir eru í landi hvers þeirra um sig til skipunar í æðstu lögfræðiembætti, eða vera viðurkenndir sérfræðingar í þjóðarétti.

3. gr.
1) Dómstóllinn skal vera skipaður fimmtán dómendum, enda mega engir tveir þeirra vera þegnar sama ríkis.

2) Nú kann að mega telja einhvern þeirra, er til greina má koma til kjörs í dómstólinn, þegn tveggja eða fleiri ríkja, og skal þá meta hann þegn þess ríkis, þar sem hann neytir að jafnaði borgaralega og þjóðlegra réttinda.

4. gr.
1) Þing (General Assembly) hinna sameinuðu þjóða og öryggisráð (Secrurity Council) velur dómendur úr mönnum, sem dómaranefndir hvers ríkis í fasta gerðardóminum í Haag hafa tilnefnt, samkvæmt fyrirmælum þeim, sem hér fara á eftir.

2) Nú er félagi í bandalagi sameinuðu þjóðanna ekki aðili um fasta gerðardóminn, og skulu dómaraefni þá tilnefnd af dómaranefndum, er hlutaðeigandi ríkisstjórnir nefna með þeim hætti, sem mælt er um dómendur fasta gerðardómsins í 44. gr. samþykktarinnar í Haag frá 1907, um friðsamlega lausn milliríkjadeilna.

3) Nú er ríki aðili um milliríkjadóminn, en ekki félagi í bandalagi hinna sameinuð þjóða, og skal þá þing þeirra ákveða eftir tillögum öryggisráðsins, með hverjum hætti ríkið megi taka þátt í kjöri dómara í milliríkjadóminn, enda hafi ekki verið samið um það sérstaklega.

5. gr.
1) Framkvæmdastjóri hinna sameinuðu þjóða skal að minnsta kosti þremur mánuðum fyrir dómarakjörið senda aðilum fasta gerðardómsins, sem eru einnig aðilar um milliríkjadóminn, og dómaranefndum. Skipuðum svo sem í 4. gr. 2. tölul. greinir, skrifleg tilmæli um það, að þeir tilnefni innan tiltekins tíma, hver nefnd fyrir sig, hæfa menn til setu í dómstólnum.

2) Enginn dómaranefnd má tilnefna fleiri en fjóra, enda mega ekki fleiri en tveir vera samþegnar hennar. Og aldrei mega tilnefndir dómendur vera meira en tvöfalt fleiri en þau dómarasæti, er í skal skipa.

6. gr.
Mælzt er til þess, að sérhver dómaranefnd ráðfæri sig við æðsta dómstól sinn, lagadeildir sínar og lagaskóla og háskóla sína og deildir alþjóða háskóla, þeir sem laganám er stundað, áður en hún tilnefni dómaraefni.

7. gr.
1) Framkvæmdastjóri (General Secretary) sameinuðu þjóðanna skal gera skrá í stafrófsröð um öll tilnefnd dómaraefni, enda skulu þau ein vera kjörgeng, sbr. þó atkvæði 12. gr. 2. tölul.

2) Framkvæmdastjóri skal leggja skrána fyrir þing sameinuðu þjóðanna og öryggisráðið.

8. gr.
Þing hinna sameinuðu þjóða og öryggisráð skulu hvort öðru óháð vinna að kjöri dómenda.

9. gr.
Þegar velja skal dómendur, þá skulu kjósendur jafnan bæði gæta þess, að dómaraefni séu hvert um sig búin þeim kostum, sem krafizt er, og einnig að tryggt sé, að í dóminum í heild sinni verði málsvarar höfuðmenningartegunda og höfuðlögskipan heimsins.

10. gr.
1) Dómaraefni, sem algeran meiri hluta atkvæða hafa hlotið á þingi sameinuðu þjóðanna og í öryggisráði, skal telja kjörna.

2) Um atkvæðagreiðslu í öryggisráði er svo mælt, að engan mun skal gera á atkvæðum fastra eða lausra félaga þess, hvort sem um er að tefla kjör dómenda eða tilnefningu til samkomu þeirrar, er í 12. gr. segir.

3) Nú fá fleiri en einn þegn sama ríkis algeran meiri hluta atkvæða bæði þings og öryggisráðs, og skal þá einungis hinn eldri eða elzti þeirra teljast kjörinn.

11. gr.
Nú verða eitt eða fleiri sæti laus, eftir að fyrsti kjörfundur hefur verið haldinn, og skal þá halda annan fund eða hinn þriðja, ef nauðsyn ber til.

12. gr.
1) Nú verða eitt eða fleiri sæti auð eftir þriðja fundarhaldið, og má þá eftir kröfu þings eða öryggisráðs hvenær sem er efna til sameiginlegrar samkomu, er skipuð sé 6 mönnum, enda nefni þing og öryggisráð sína þrjá hvort. Á samkoma þessi að tilnefna með algerum meiri hluta atkvæða einn mann í hvert autt sæti, enda skal kjörið langt fyrir þing og ráð til samþykkis þeirra hvors um sig.

2) Nú tilnefnir sameiginlega samkoman með öllum atkvæðum dómara, sem er öllum lögmætum kostum búinn, og getur hún þá sett hann á dómaraskrá, enda þótt hann sé ekki á skrá dómaraefna, þeirri er í 7. gr. getur.

3) Nú hefur sameiginlega samkoman gengið úr skugga um það, að henni muni ekki heppnast að leiða kjörið til lykta, og skulu þá þeir dómendur milliríkjadómsins, sem þegar hafa verið kjörnir, gera gangskör að því að skipa í auðu sætin innan þess tíma, er öryggisráð ákveður, enda skal velja dómendur úr dómaraefnum þeim, sem annaðhvort hafa fengið atkvæði á þingi eða í öryggisráði.

4) Nú verða atkvæði dómenda jafnmörg hvorum megin, og ræður þá atkvæði elzta dómarans.

13. gr.
1) Dómara milliríkjadóms skal velja til 9 ára, enda má endurkjósa þá. Þó er svo mælt, að fimm þeirra dómenda, sem fyrsta sinni voru kjörnir, skuli fara frá að þremur árum liðnum, og að aðrir fimm dómendur skuli fara frá eftir sex ár.

2) Dómendur þeir, er fara skulu frá að liðnum áðurnefndum þremur og sex ára upphafstímabilum, skulu dregnir út með hlutkesti af framkvæmdastjóra þegar eftir lok fyrstu kosningar.

3) Dómendur skulu gegna störfum sínum, þar til er sæti þeirra hafa verið skipuð af nýju. Ljúka skulu þeir þó hverju því máli, er þeir hafa byrjað á, enda þótt annar komi í sæti þeirra.

4) Nú beiðist dómari lausnar, og skal hann þá stíla lausnarbeiðni sína til forseta dómsins, enda sé hún send áfram til framkvæmdastjóra. Verður sætið autt, er hún er þangað komin.

14. gr.
Skipa skal í sæti, er laust verður, með sama hætti og mælt var um kosningu fyrsta sinni, svo sem hér segir: Framkvæmdastjóri skal innan mánaðar, eftir að sæti varð laust, senda tilmæli samkvæmt 5. gr., enda skal öryggisráð ákveða kjördag.

15. gr.
Dómandi, sem kjörinn hefur verið í stað dómara, sem ekki hefur endað kjörtíma sinn, skal gegna stöðunni, þar til er kjörtími fyrirrennara hans er liðinn.

16. gr.
1) Enginn dómari má gegna nokkru starfi í þágu framkvæmdavalds eða stjórnmála, né heldur taka þátt í nokkurri atvinnusýslan.

2) Dómurinn sker úr sérhverjum vafa í þessu efni.

17. gr.
1) Enginn dómari má vera umboðsmaður, ráðunautur eða talsmaður í nokkru máli.

2) Enginn dómari má taka þátt í meðferð máls, þar sem hann hefur áður verið umboðsmaður, ráðunautur eða talsmaður annars hvors aðila eða dómari í dómi einhvers ríkis eða í milliríkjadómi, í rannsóknarnefnd eða starfað að því með nokkrum öðrum hætti.

3) Dómur sker sjálfur úr sérhverjum vafa í þessum efnum.

18. gr.
1) Eigi verður dómanda vikið úr stöðu sinni, nema hann hafi samkvæmt einróma áliti samdómenda sinna misst lögmæt skilyrði til setu í dómi.

2) Þetta skal tilkynnt framkvæmdastjóra í embættisnafni.

3) Dómur sker sjálfur úr sérhverjum vafa í þessu efni.

19. gr.
Dómendur skulu, er þeir gegna störfum í þarfir dómsins, njóta sérréttinda og friðhelgi stjórnmálaerindreka ríkja.

20. gr.
Sérhver dómandi skal gefa hátíðlega yfirlýsingu um það fyrir dómi í heyranda hljóði, áður en hann tekur til starfa, að hann skuli gegna stöðu sinni óhlutdrægt og samvizkusamlega.

21. gr.
1) Dómurinn velur forseta sinn og varaforseta til þriggja ára. Þá má endurkjósa.

2) Dómurinn skipar ritara sinn og sér um skipun annarra starfsmanna eftir þörfum.

22. gr.
1) Dómurinn hefur aðsetur í Haag. Þetta skal þó ekki vera því til fyrirstöðu, að dómurinn heyi dómþing og gegni störfum hvar sem vera skal, hvenær sem hann telur það æskilegt.

2) Forseti dómsins og ritari skulu sitja á aðsetursstað hans.

23. gr.
1) Dómurinn skal stöðugt vera starfskyldur, nema í dómleyfum, enda kveður dómurinn á um það, hvenær leyfi skuli vera og hversu löng.

2) Dómendum eru heimil leyfi um stundarsakir, enda lætur dómur mælt um það, hvenær og hversu löng leyfi skuli vera, og skal þá hafa hliðsjón af fjarlægðinni milli Haag og heimilis dómanda.

3) Dómendum skal skylt að vera stöðugt viðbúnir störfum í dómsins þágu, nema þeir eigi leyfi eða sjúkdómur eða aðrar alvarlegar nauðsynjar banni, enda sé forseta gerð viðeigandi grein fyrir þeim.

24. gr.
1) Nú telur dómandi sérstaka ástæðu til þess, að hann taki ekki þátt í meðferð tiltekins máls, og skal hann þá tjá forseta það.

2) Nú telur forseti sérstaka ástæðu til þess, að dómandi taki ekki þátt í meðferð tiltekins máls, og skal hann þá tjá dómanda hana.

3) Nú kemur hlutaðeigandi dómara og forseta ekki saman, og skal dómurinn þá skera úr.

25. gr.
1) Dómendur skulu allir taka þátt í meðferð máls, nema berum orðum sé öðruvísi mælt í samþykktum þessum.

2) Í reglugerð dómstólsins má kveða svo á, að leysa megi dómanda, einn eða fleiri, undan þátttöku í málsmeðferð eftir kringumstæðum og til skiptis, enda verði þeir dómendur, er dómþing heyja, aldrei færri en ellefu.
Rétt er að setja dómþing með níu dómendum.

26. gr.
1) Dómstólnum er rétt að skipa sér við og við í deildir, eina eða fleiri, skipaðar þremur dómendum eða fleiri eftir ákvörðun sinni, til þess að fara með sérstök mál, svo sem verkamál og samgöngumál.

2) Dómstólnum er rétt hvenær sem er að skipa sér í deildir til meðferðar einstakra mála. Dómurinn ákveður dómendafjölda í slíkri deild með samþykki málsaðila.
3) Deild samkvæmt þessari grein rannsakar og úrskurðar mál, ef aðilar krefjast þess.

27. gr.
Dóm, kveðinn upp af deild samkvæmt 26. og 29. grein, skal meta svo sem dómstóllinn hefði kveðið hann upp.

28. gr.
Deildir samkvæmt 26. og 29. gr. mega, ef aðilar samþykkja, heyja dómþing og fara með störf sín hvar sem er utan Haagborgar.

29. gr.
Dómstóllinn skal árlega skipa deild fimm dómenda, er rannsaka skuli og úrskurða, samkvæmt kröfu aðila, mál með skjótri meðferð, til þess að flýta fyrir afgreiðslu dómstarfanna. Til viðbótar skal velja tvo dómendur til þess að koma í stað dómenda, sem telja sér ómögulegt að taka þátt í meðferð máls.

30. gr.
1) Dómstóllinn skal setja reglugerð um framkvæmd starfa sinna. Sérstaklega skal þar kveða á um meðferð mála.

2) Í reglugerð dómstólsins má setja ákvæði um atkvæðislausa aukamenn, er taki sæti í dómstólnum eða deildum hans.

31. gr.
1) Dómandi sama þjóðernis sem annar hvor málsaðila skal halda rétti sínum til þátttöku í meðferð máls fyrir dómi.

2) Nú situr dómandi sama þjóðernis sem annar aðila í dómi, og má þá hinn aðilinn kjósa sér mann til meðferðar dómstarfa í því máli. Slíkan dómanda skal einkum velja úr þeim, sem hafa verið tilnefndir dómaraefni samkvæmt 4. og 5. gr.

3) Nú situr enginn maður í dómi sama þjóðernis sem aðilar, og er þá hvorum þeirra rétt að velja dómara svo sem mælt er í 2. tölul. þessarar greinar.

4) Ákvæði þessarar greinar skulu og taka til tilvika þeirra, er í 26. og 29. gr. segir. Og skal þá forseti biðja einn eða ef þörf krefur, tvo þeirra dómenda, er deild skipa, að víkja fyrir dómendum sama þjóðernis sem aðilar, og ef enginn er slíkur eða hann getur ekki tekið sæti, þá fyrir dómendum, ef aðilar hafa sérstaklega kjörið.

5) Nú eru aðilar fleiri en einn að sama hagsmunamáli, og skal þá um framangreind ákvæði telja þá einn og sama aðila. Dómurinn sker úr sérhverju slíku vafaatriði.

6) Dómendur, kjörnir samkvæmt 2., 3. og 4. tölulið þessarar greinar, skulu fullnægja skilyrðum þeim, sem krafizt er í 2. gr., 17, gr. (2. tölul.), 20. og 24. gr. samþykkta þessara. Þeir skulu taka þátt í dómsúrlausn með öllum sömu réttindum sem starfsbræður þeirra.

32. gr.
1) Dómari hver skal fá árleg laun.

2) Forseti skal fá sérstakalega árlega viðbót.

3) Varaforseti skal fá sérstaka viðbót fyrir hvern dag, er hann gegnir forsetastörfum.

4) Dómendur kjörnir samkvæmt 31. gr., aðrir en reglulegir dómendur, skulu fá þóknun fyrir hvern dag, er þeir gegna dómstörfum.

5) Laun þessi, launabætur og þóknun skal þingið ákveða.

6) Laun dómritara skal þingið ákveða eftir tillögum dómstólsins.

7) Þingið skal setja ákvæði um skilyrði til greiðslu eftirlauna til dómenda og dómritara og skilyrði til endurgreiðslu ferðakostnaðar til dómenda og dómritara.

8) Framangreind laun, launaviðbætur og þóknun skulu vera undan öllum sköttum þegin.

33. gr.
Hinar sameinuðu þjóðir greiða allan kostnað af dóminum með þeim hætti, er þingið ákveður.

{mospagebreak title=II. KAFLI}

Samþykktir alþjóðadómstólsins
II. KAFLI

VALDASVIÐ DÓMSTÓLSINS

34. gr.
1) Ríki ein mega vera aðilar mála fyrir dómstólum.
2) Dómstóllinn getur, eftir fyrirmælum í reglugerð sinni og samkvæmt þeim, krafizt upplýsinga af opinberum alþjóðastofnunum varðandi mál, sem fyrir honum eru, enda skulu slíkar stofnanir veita dómstólnum þess konar upplýsingar ótilkvaddar.
3) Hvenær sem túlkun á stofnskrá opinberrar alþjóðastofnunar eða á milliríkjasamningi, gerðum í sambandi við hana, ber undir dóminn, þá skal dómritari tilkynna það hlutaðeigandi opinberri alþjóðastofnun og fá henni í hendur eftirrit af öllum málsskjölum.

35. gr.
1) Dómurinn skal heimill öllum ríkjum, sem aðilar eru að samþykktum þessum.
2) Öryggisráðið ákveður skilyrði þess, að dómurinn megi heimill verða öðrum ríkjum, enda sé gætt sérákvæða í gildandi milliríkjasamningum, en aldrei má setja skilyrði, er raski jafnrétti aðila fyrir dómi.
3) Hvenær sem túlkun á stofnskrá opinberrar alþjóðastofnunar eða á milliríkjasamningi, gerðum í sambandi við hana, ber undir dóminn, þá skal dómritari tilkynna það hlutaðeigandi opinberri alþjóðastofnun og fá henni í hendur eftirrit af öllum málsskjölum.

36. gr.
1) Dómurinn hefur lögsögu í öllum málum, sem aðilar að samþykktum þessum leggja til hans, og í málum þeim öllum, sem sérstaklega greinir í stofnskrá hinna sameinuðu þjóða eða í gildandi milliríkjasamningum.
2) Ríki, sem aðilar eru að samþykktum þessum, geta hvenær sem er lýst yfir því, að þau skuldbindi sig ipso facto án sérstaks samkomulags gagnvart hverju öðru ríki, er gengst undir sömu skuldbindingu, til þess að hlíta lögsögu dómstólsins um allan lagalegan ágreining varðandi:

a. túlkun samninga;
b. hvert vafamál um milliríkjarétt;
c. hvort staðreynd hafi gerzt, sem, ef sönnuð væri, mundi fela í sér brot á skyldu í skiptum ríkja;
d. hvers konar og hve miklar bætur gjalda skuli fyrir brot á skyldu í skiptum ríkja.

3) Yfirlýsingar þær, er hér að ofan greinir, má gefa skilorðslaust eða gegn því, að nokkur ríki eða tiltekin ríki gangist undir sömu skuldbindingar, eða um tiltekinn tíma.
4) Yfirlýsingar þessar skal leggja til geymslu hjá framkvæmdastjóra hinna sameinuðu þjóða, sem skal senda aðilum að samþykktum þessum og ritara dómstólsins eftirrit af þeim.
5) Yfirlýsingar, gefnar samkvæmt 36. gr. samþykkta fasta milliríkjadómsins og enn þá í gildi, skal í skiptum aðila að samþykktum þessum meta samþykki á lögskyldu til að hlíta lögsögu milliríkjadómsins þann tíma, sem þeim var ætlað að gilda í samræmi við ákvæði þeirra.
6) Dómstóllinn sker úr ágreiningi um það, hvort hann hafi lögsögu í máli.

37. gr.
Nú er svo mælt í gildandi milliríkjasamningi, að mál skuli leggja til dómstóls, er þjóðabandalagið skyldi hafa sett á stofn, eða fasta milliríkjadómsins, og skal þá ef aðilar að samþykktum þessu eiga hlut að mál, leggja það til milliríkjadómsins.

38. gr.
1) Þá er leysa skal úr ágreiningsmálum, er til dómstólsins eru lögð, skal hann fara eftir:

  • a. milliríkjasamningum, hvort sem þeir eru almenns eða sérstaks eðlis, enda geymi þeir fyrirmæli berum orðum viðurkennd af sakaraðilum;
  • b. milliríkjavenjum, sem vegna almennrar og sannaðrar notkunar eru viðurkenndar eins og lög;
  • c. almennum grundvallarreglum laga, viðurkenndum af siðuðum þjóðum;
  • d. dómsúrlausnum, enda sé gætt fyriræla 59. gr., og kennisetningum beztu sérfræðinga ýmissa þjóða, er veita mega, er annað þrýtur, leiðbeiningar um tilvist og efni réttarreglna.

2) Þessi ákvæði skulu ekki skerða heimild dómstólsins til þess að úrskurða mál ex aequo et bono, ef aðilar eru því samþykktir.

{mospagebreak title=III. KAFLI}

Samþykktir alþjóðadómstólsins
III. KAFLI

MEÐFERÐ MÁLA

39. gr.
1) Franska og enska eru þingmál dómsins. Ef aðilar koma sér saman um það, að málsferð skuli fara fram á frönsku, þá skal kveða dóm upp á frönsku. Ef aðilar koma sér saman um það að málsmeðferð skuli fara fram á ensku, skal kveða dóm upp á ensku.
2) Nú er ekki samið um það, hvaða tungu nota skuli, og má þá hvor aðila flytja málið á þeirri tungunni, er hann vill heldur, en dómsúrlausn skal vera á ensku og frönsku, enda skal dómstóllinn þá samtímis ákveða, hvorn textanna tveggja skuli telja frumtexta.
3) Dómstóllinn skal, ef aðili krefst þess, löggilda tungu aðra en ensku eða frönsku, er aðili megi nota.

40. gr.
1) Mál er þingfest eftir atvikum annaðhvort með því að tilkynna sérsamning um það eða með skriflegri umsókn stílaðri til dómsritara. Greina skal deiluefni og aðila, hvor leiðin sem farin er.
2) Dómritari skal þegar í stað skýra öllum hlutaðeigendum frá umsókninni.
3) Hann skal og tilkynna þetta félögum bandalags hinna sameinuðu þjóða fyrir milligöngu framkvæmdastjóra þess, og einnig öðrum ríkjum, sem heimilt er að koma fyrir dómstólinn.

41. gr.
1) Dómstóllinn hefur vald til þess að ákveða, ef hann telur atvik heimta það, hverja þá bráðabirgðaráðstöfun, er hann telur þrufa að gera til hagsmunagæzlu hvors aðila.
2) Meðan á fullnaðarákvörðun stendur, skal þegar í stað skýra aðilum og öryggisráði frá þessum ráðstöfunum.

42. gr.
1) Aðilar láta umboðsmenn gæta hagsmuna sinna.
2) Rétt er þeim að hafa sér til aðstoðar ráðunauta eða málflutningsmenn fyrir dómi.
3) Umboðsmenn, ráðunautar og málflutningsmenn aðila fyrir dómi njóta þeirra sérréttinda og friðhelgi, sem nauðsynleg er til óháðrar rækslu skyldna sinna.

43. gr.
1) Málsmeðferð er bæði skrifleg og munnleg.
2) Skriflega málsmeðferðin felur í sér framlagning sóknar fyrir dómstól og aðila, framlagning varnar og andvör við þeim, er þörf þykir, svo og framlagning allra skjala og skilríkja þeim til stuðnings.
3) Dómritari er meðalgangari aðila og dómstólsins um skjöl þessi, enda skal leggja þau fram í þeirri röð og innan þess tíma, er dómstóllinn mælir.
4) Fá skal aðila staðfest eftirrit af hverju skjali, sem gagnaðili leggur fram.
5) Munnlega málsmeðferðin er fólgin í munnlegum greinargerðum vitna, sérfræðinga, umboðsmanna, ráðunauta og málflutningsmanna.

44. gr.
1) Nú þarf dómur að koma boðum til annarra manna en umboðsmanna, ráðunauta og málflutningsmanna, og snýr hann sér þá beint til stjórnar þess ríkis, er boð skal berast á landsvæði þess.
2) Sama skal gilda, hvenær sem afla skal sönnunargagna á staðnum.

45. gr.
Forseti stjórnar munnlegu málsmeðferðinni eða varaforseti, ef hann getur ekki stýrt dómi. Ef hvorugur þeirra getur stýrt dómi, skal elzti dómarinn gera það.

46. gr.
Munnlega málsmeðferðin skal fara fram í heyranda hljóði fyrir dómstólnum, nema hann mæli öðruvísi eða aðilar krefjist þess, að almenningi sé bannaður aðgangur.

47. gr.
1) Skrá skal skýrslu í þingbók um hvert dómþing, og skulu dómritari og forseti undirrita hana.
2) Dómskýrslur þessar einar skulu hafa opinbert sönnunargildi.

48. gr.
Dómstóllinn setur reglur um málsmeðferð, ákveður ræðuform og innan hvers tíma hvor aðili skuli ljúka ræðum sínum, og gerir allar ráðstafanir í sambandi við öflun sönnunargagna.

49. gr.
Dómstóllinn getur, jafnvel áður en munnleg málsmeðferð hefst, skorað á umboðsmenn að leggja fram skjöl eða láta í té skýringar. Nú er þessu ekki sinnt, og skal þess þá getið í þingbók.

50. gr.
Dómstóllinn getur, hvenær sem er, falið einstökum manni, félagi, skrifstofu, nefnd eða annarri stofnun, er hann kann að kjósa þar til, að framkvæma rannsókn eða gefa sérfræðiálit.

51. gr.
Í munnlegu málsmeðferðinni á að leggja fyrir vitni og sérfræðinga hverja þá spurningu, er máli skiptir, með þeim hætti, er dómstóllinn ákveður í reglum þeim um málsmeðferð, er í 30. gr. getur.

52. gr.
Eftir að dómstóllinn hefur tekið við sönnunargögnum og vitnaskýrslum innan þess tíma, er þar til var mæltur, getur hann neitað að taka við nokkrum frekari gögnum, munnlegum eða skriflegum, sem aðili kann að óska að koma að, nema gagnaðili samþykki.

53. gr.
1) Nú sækir annar aðila ekki dómþing eða lætur farast fyrir að flytja mál sitt, og getur gagnaðili þá krafizt þess, að dómur dæmi málið honum í vil eftir kröfu hans.
2) Áður en dómur gerir þetta, ber honum að ganga úr skugga eigi aðeins um það, að hann eigi lögsögu í málinum samkvæmt 36. og 37. gr., heldur og um það, að krafan sé vel rökum studd bæði um staðreyndir og réttarreglur.

54. gr.
1) Eftir að umboðsmenn, ráðunautar og málflutningsmenn hafa með eftirliti dómsins lokið flutningi máls, þá skal forseti lýsa málflutningi lokið.
2) Dómendur ganga þá afsíðis til ráðagerða um dómsúrlausn.
3) Ráðagerðir dómenda fara fram í kyrrþey, enda skal halda þeim leyndum.

55. gr.
1) Öllum atriðum skal ráða til lykta með meiri hluta atkvæða viðstaddra dómenda.
2) Nú verða atkvæði jafnmörg báðum megin, og ræður þá atkvæði forseta, eða þess dómara, er sæti hans skipar.

56. gr.
1) Í dómi skal greina ástæður þær, sem hann er byggður á.
2) Greina skal í dómi nöfn dómenda þeirra, sem tekið hafa þátt í dómsúrlausn.

57. gr.
Nú greinir dómsúrlausn að öllu eða einhverju leyti ekki einróma álit dómenda, og er þá hverjum dómanda sem er rétt að gera ágreiningsatkvæði.

58. gr.
Forseti og dómritari skulu undirrita dóm. Kveða skal hann upp á dómþingi í heyranda hljóði, enda hafi umboðsmönnum verið gert tilhlýðilega viðvart.

59. gr.
Dómsúrlausn bindur einungis aðila og einungis um það mál.

60. gr.
Úrlausn dómstólsins er úrslitadómur og verður ekki áfrýjað. Nú verður ágreiningur um efni dóms eða yfirgrip, og er dómstólnum þá rétt að skýra hann, ef aðili krefst þess.

61. gr.
1) Beiðni um endurskoðun dóms má einungis bera upp, þegar hún helgast af því, að komið hefur í ljós staðreynd þess eðlis, að hún hafi úrslitaþýðinu, enda hafi hún verið dómstólnum ókunnug, er dómur var upp kveðinn, og einnig þeim aðila, er endurskoðunar beiddist, og megi þó ekki telja honum ókunnugleika hans til vanrækslu.
2) Meðferð máls til endurskoðunar skal hefjast á úrskurðir dómstólsins þar um, enda skal þar greinilega getið þess, að ný staðreynd hafi komið í ljós, það viðurkennt, að henni sé svo háttað, að taka beri málið upp af nýju, því lýst yfir, að beiðnina verði að taka til greina af þessum ástæðum.
3) Dómstóllinn getur krafizt fyrir fram framkvæmdar aðila á ákvæðum úrskurðarins, áður en hann leyfir flutning endurupptökumálsins.
4) Beiðni um endurskoðun verður að bera upp eigi síðar en sex mánuðum eftir að hin nýja staðreynd varð kunn.
5) Aldrei má beiðni um endurskoðun bera upp, eftir að 10 ár eru liðin frá dómsuppsögudegi.

62. gr.
1) Nú telur ríki sig eiga lögmæta hagsmuni, sem raskað kunni að verða fyrir úrlausn sakar, og getur það þá leitað leyfis dómstólsins til þess að ganga inn í mál.
2) Dómurinn úrskurðar beiðnina.

63. gr.
1) Hvenær sem skýra skal milliríkjasamning, þar sem önnur ríki en þau, er að dómsmáli standa, eru aðilar, þá skal dómritari þegar í stað tilkynna það slíkum ríkjum.
2) Hverju því ríki, er slíka tilkynningu hefur fengið, er rétt að ganga inn í mál, en skýring sú, er dómstóll gefur, bindur það þá eins og hina aðilana, ef það neytir þessa réttar.

64. gr.
Hvor aðili skal bera sinn kostnað af máli, nema dómur mæli öðruvísi.

{mospagebreak title=IV. KAFLI}

Samþykktir alþjóðadómstólsins
IV. KAFLI

ÁLITSGERÐIR

65.gr.
1) Dómurinn getur látið í té álit sitt um sérhvert réttaratriði eftir beiðni hvaða samfélags sem vera skal, er hefur verið heimilað af sameinuðu þjóðunum eða samkvæmt stofnskrá þeirra að bera fram slíka beiðni.
2) Málefni, sem álits dómstólsins er leitað um, skal leggja fyrir hann í skriflegri beiðni, þar sem sakarefni sé nákvæmlega lýst, enda fylgi öll þau skjöl sem líkleg eru til þess að varpa ljósi á málið.

66. gr.
1) Dómritari skal þegar í stað senda öllum þeim ríkjum, sem heimild hafa til þess að koma fyrir dómstólinn, tilkynningu um beiðni um álitsgerð.
2) Þar að auki skal dómritari sérstaklega og beinleiðis tilkynna hverju því ríki, sem heimilt er að koma fyrir dómstólinn, og hverri þeirri alþjóðastofnun, sem dómstóllinn eða, ef hann er þá ekki starfandi, forseti telur líklega til þess að geta veitt upplýsingar varðandi málefnið, það, að dómstóllinn sé við því búinn að taka við innan tímamarka, er forseti setur, skriflegri greinargerð eða munnlegri um málið á opinberu dómþingi, er háð verði í því skyni.
3) Ef eitthvert ríki, sem heimilt er að koma fyrir dómsstólinn og ekki skyldi hafa fengið hina sérstöku vitneskju, sem í 2. tölul. greinar þessarar segir, lætur uppi ósk um að gefa skriflega greinargerð eða munnlega fyrir dómi, þá tekur dómstóllinn ákvörðun þar um.
4) Ríki og stofnanir, sem látið hafa af hendi skriflegar eða munnlegar greinargerðir eða hvort tveggja, skulu fá leyfi til þess að láta uppi álit sitt um greinargerðir, sem önnur ríki eða stofnanir hafa sent, í því formi og með því yfirgripi og innan þeirra tímamarka, sem dómstóllinn eða, ef hann er ekki starfandi, forseti ákveður hverju sinni. Samkvæmt þessu skal dómritari láta þeim ríkjum og stofnunum, sem sent hafa greinargerð, í té innan hæfilegs tíma vitneskju um slíkar greinargerðir.

67. gr.
Dómstóllinn skal birta álitsgerðir sínar á opinberu dómþingi, enda hafi framkvæmdastjóra og umboðsmönnum félaga bandalags hinna sameinuðu þjóða, annarra ríkja og alþjóðastofnana, sem málið beinlínis varðar, verið gert viðvart.

68. gr.
Þegar dómstóllinn starfar að álitsgerðum, skal hann einnig hafa til leiðbeiningar þau ákvæði í samþykktum þessum, sem varða dómsmál, að því leyti sem hann telur þau nothæf.

{mospagebreak title= V. KAFLI}

Samþykktir alþjóðadómstólsins
V. KAFLI

BREYTINGAR Á SAMÞYKKTUM ÞESSUM

69. gr.
Breytingar á samþykktum þessum skal gera með sama hætti sem mælt er í stofnskrá hinna sameinuðu þjóða um breytingar á henni, enda sé gætt sérhverra þeirra ákvæða, sem þingið kann að gera eftir tillögum öryggisráðsins varðandi þátttöku ríkja, sem eru aðilar að samþykktum þessum, en ekki eru félagar í bandalagi hinna sameinuðu þjóða.

70. gr.
Dómstóllinn hefur vald til þess að stinga upp á breytingum á samþykktum þessum, er hann telur nauðsynlegar, enda láti hann framkvæmdastjóra í té skriflegar tillögur þar um, er athugaðar verði samkvæmt ákvæðum 69. gr.