Sandrafhlöður hita upp finnsku heimskautanóttina

0
428
Heimskautanóttinn (Polar Night Energy) hefur haslað sér völl í Kankaanpää í ves
Heimskautanóttinn (Polar Night Energy) hefur haslað sér völl í Kankaanpää í vestur-Finnlandi.

Um hundrað finnsk heimili, nokkrar skrifstofur og sundlaug finnsks sveitarfélag eru hituð upp þökk sé nýrri uppfinningu: sandrafhlöðum.  Í Kankaanpää í vesturhluta Finnlands, er það venjulegur sandur sem tryggir upphitun á kaldasta og dimmasta hluta ársins.  Í Vatajankoski orkuverinu er búið að hanna fyrstu sandrafhlöðu heims.

„Hugmyndin snýst um að framleiða varma með hreinum orkugjöfum á borð við sól og vind. Hitinn er síðan varðveittur í sandi. Sandur er ódýr og nóg til af honum,“ segir Markku Ylönen hjá fyrirtækinu Polar Night Energy sem stendur að baki hugmyndinni í viðtali við vefsíðu UNRIC.

Markku Ylönen, ásamt samstarfsmanni sínum og meðstofnanda Tommi Eronen
Markku Ylönen, ásamt samstarfsmanni sínum og meðstofnanda Tommi Eronen. Mynd: PNE.

Með sandrafhlöðu er átt við að hundruð tonna af sandi eru hituð upp í um 500 gráður í stáltanki. Þetta þjónar síðan sem hitagjafi. Orkan, sem kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum eins og vindi og vatnsafli, er geymd til að hægt sé að nota hitann á dimmari og kaldari dögum þegar orkubirgðir eru af skornum skammti. Frá því að hugmynd fyrirtækisins var hrint í framkvæmd hefur hún vakið athygli, ekki síst þökk sé Youtube rásinni „Now you know“ og frétt BBC. Endurnýjanleg orka er svo sannarlega í brennidepli þessa dagana.

Eitt af Heimsmarkmiðunum

„Hita- og orkugjafar eru vaxandi markaður,“ segir Markku Ylönen. „Við höfum að mestu fengið jákvæð viðbrögð en vissulega hafa einnig heyrst efasemdaraddir. . Það er alveg rétt að fólk sé gagnrýnið, þannig á það að vera. Á sama tíma er kynning mjög gott tæki.“

Heimsmarkmið um Sjálfbæra þróun
Heimsmarkmið um Sjálfbæra þróun

Endurnýjanleg orka er einnig eitt af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þannig segir í markmiði númer sjö að „tryggja aðgang að hagkvæmri, áreiðanlegri, sjálfbærri og nútímalegri orku fyrir alla“. Stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda okkar kemur frá brennslu jarðefnaeldsneytis. Á sama tíma verður endurnýjanleg orka ódýrari, áreiðanlegri og skilvirkari með hverjum deginum.

Þeir Markku Ylönen, frá Tampere, og samstarfsmaður hans og meðstofnandi Tommi Eronen, eru verkfræðingar með traustan bakgrunn í orkuframleiðslu. Þeir hafa nú haslað sér völl sem skapandi frumkvöðlar með fyrstu sandrafhlöðunni sem notuð er í atvinnuskyni. Uppfinning þeirra gæti verið lausnin á einni stærstu áskorun orkuframleiðslunnar, þ.e. að tryggja stöðugt orkuframboð árið um kring.

Sólarorka geymd í sandi

Sólarorka sem geymd er í sandi getur varðveitt hita svo mánuðum skiptir. Það þýðir að hiti sem myndast á sólríkum sumardögum getur hleypt Finnum yfir þann hjalla sem dimmir og langir vetrardagar eru. Annað sem skiptir sífellt meira máli og það er að ekki er lengur hægt að treysta á gas- og rafmagn frá Rússlandi.

Skýringarmynd.
Mynd: PNE

Finnska efnahags- og atvinnumálaráðuneytið hyggst hefja orkusparnaðarátak í ágúst. Svipaðar herferðir eru þegar í gangi í mörgum ESB-löndum eins og Þýskalandi, Ítalíu og Frakklandi og eru að frumkvæði framkvæmdastjórnar ESB.

Finnska sndarafhlaðan er rétt uppfinning á réttum tíma: græn, hrein orka geymd í sandi sem sótt er til nærumhverfisins.

„Við viljum ekki að sandurinn sé fluttur langt að,“ útskýrir Markku um verksmiðjuna, sem var flutt á staðinn í janúar á þessu ári, sett upp í vor og tekin í notkun í maí.

Í 4×7 metra stáltankinum í Kankaanpää á Vatajankoski virkjunarsvæðinu, eru hundruð tonna af sandi sem hægt er að hita upp í 500-600 gráðu hita. Sandurinn getur haldið á sér hita mánuðum saman og hefur 100 kW af varmagetu og 8 MWst af orkugetu sem dreift er um hitaveitukerfi.  Virðing fyrir umhverfinu er lykilatriði.

Vindurinn beislaður fyrir lygna daga

„Til dæmis er vindasamur dagur í dag. Við beislum rokið og notum orkuna þegar vindinn lægir,” útskýrir Ylönen.

Víða er gnótt af sandi, enda ódýrt hráefni.
Víða er gnótt af sandi, enda ódýrt hráefni. Mynd: PNE

Orka og nýting hennar hefur löngum verið sérsvið Markku Ylönen og Tommi Eronen. Þeir kynntust á háskólaárum sínum þegar þeir stunduðu nám í orkuframleiðslu við Tampereen Yliopisto. Hugmyndin um að stofna eigið fyrirtæki fæddist fyrir um það bil tíu árum síðan. Rætt var um aðra orkugjafa, m.a. vatn og sól, en eftir trausta undirbúningsvinnu hófst vinna við að byggja upp stóra sílóið í félagi við  Vatajankoski orkuverið.  Markku segir Vatajankoski  opinn samstarfsaðila, sem hafi þegar stutt við nýsköpunarverkefni og nýjar hugmyndir.

„Við skipulögðum reksturinn í kringum sandinn sem orkugjafa af mörgum ástæðum. Sandur kostar nánast ekkert og framboðið er mikið,“ útskýrir Markku og bætir við að jafnvel stærð sandkornanna skipti ekki afgerandi máli. Nota megi aukaafurðir iðnfyrirtækja hvort heldur sem er fín- eða grófkornóttan sand.

Þegar ekki sést til sólar

Fyrirtækjaheitið Polar Night Energy er dregið af hugmyndinni um heimskautanóttina, þegar ekki sést til sólar á norðurslóðum. Meðalhiti í Kankaanpää yfir vetrarmánuðina frá desember til mars er fyrir neðan frostmark og kuldinn getur farið niður í 23 frostgráður.

„Nafninu er ætlað að sýna að ef hægt sé að útvega orku hér í Finnlandi yfir myrkustu mánuðina, sé það líka hægt annars staðar,” segir Markku Ylönen.

Hjá fyrirtækinu starfa sex manns í dag og telur Markku að pláss sé fyrir fleiri starfsmenn innan tíðar. Þrátt fyrir athygli fjölmiðla, fara forsprakkarnir sér að engu óðslega og sníða sér stakk eftir vexti.  Framtíðaráformin fela í sér bæði að þróa og betrumbæta núverandi starfsemi en einnig að stækka síðarmeir.

„Stóra markmiðið okkar til lengri tíma litið er að geta haft áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu,“ segir Markku Ylönen.