Sendiherrann sem fór sínar eigin leiðir

0
747
Thor Thors og Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára
Thor Thors sendiherra.

Ísland hjá Sameinuðu þjóðunum. Thor Thors. Ekki er hægt að tala um þátttöku Íslands í Sameinuðu þjóðunum án þess að nafn Thors Thors beri á góma. Hann var sendiherra Íslands i Bandaríkjunum og jafnframt fyrsti fastafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum fra 1947 til dauðadags 1965. Þór Whitehead fer yfir merkilegan ferl Thors í viðtali sem birtist í fréttabréfi UNRIC í gær (24.október 2015).

Þór Whitehead, prófessor emeritus í sagnfræði, hefur haft einstakan aðgang að gögnum Thors Thors og rannsakað og ritað um aðdragandann að inngöngu Íslands í Sameinuðu þjóðirnar. Eins og fram kemur í annari grein í fréttabréfinu, vildi ríkisstjórn Íslands ekki lýsa yfir stríði á hendur Möndulveldunum til að geta slegist í hóp stofnenda Sameinuðu þjóðanna 1945.

Í ítarlegu viðtali við Norræna fréttabréf UNRIC, um feril Thors Thors hjá Sameinuðu þjóðunum bendir Þór á að hann hafi allt frá 1941 verið fylgjandi því að Ísland gengi formlega til liðs við Bandamenn í síðari heimsstyrjöldinni. Á árunum 1941-1945 hafi Íslendingar þurft að gera það upp við sig hvort þeir vildu hverfa frá yfirlýsingu sinni um ævarandi hlutleysi og gerast opinberlega þátttakendur í styrjöldinni að hálfu eða öllu leyti. Þetta hafi vafist fyrir mönnum og niðurstaðan verið blendin, svo sem hafi komið skýrt fram að lokum, þegar bandamannastórveldin kröfðust þess að þeir segðu Þjóðverjum stríð á hendur til að fá að ganga í SÞ. Aðdragandi að þessari kröfu hafi verið býsna langur og sögulegur. 

Thor Thors
Thor Thors og Dr. Tiburcio Carias, Jr., fastafulltrúi Hondúras hjá SÞ


Málið komst fyrst á dagskrá eftir innrás Þjóðverja í Sovétríkin í júní 1941 og þátttöku Bandaríkjanna í styrjöldinni í Evrópu um veturinn, en Bandaríkjamenn höfðu að nafninu til talist hlutlausir í ófriðnum þegar Roosevelt forseti gerði herverndarsamning við Ísland um sumarið.  Vesturveldin höfðu tekið höndum saman við Sovétríkin og nú boðuðu þessi ríki til fundar í Washington í desember 1941 til að stofna bandalag gegn Þýskalandi Hitlers undir heitinu Sameinuðu þjóðirnar. Yfirlýsing „hinna Sameinuðu þjóða“ í Washinton varð grundvöllurinn að stofnun samnefndra alþjóðasamtaka rúmum fjórum árum síðar. Á þessum tíma var Thor Thors sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. 

Við hefjum frásögnina í Washington í desember 1941 og gefum Þór orðið:

Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti
Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti

Roosevelt forseti hafði mikinn áhuga á því að Íslendingar tækju þátt í bandalaginu gegn Þriðja ríkinu þýska og létu þannig af hlutleysi í stríðinu.  Hann varð þess vegna fyrir vonbrigðum þegar fram kom að ekki væri hægt að bjóða Íslendingum að undirrita yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna vegna þess að þeir hefðu ekki lýst yfir styrjöld við Þjóðverja. Eitt af því sem Roosevelt hafði í huga var að hann hafði  tekið að sér varnir Íslands í nafni hlutleysis 1941 en nú var staðan breytt, Bandaríkjaher sat í landinu sem stríðsaðili en ríkisstjórn Íslands taldist eftir sem áður hlutlaus. Þetta var einkennileg og óþægileg staða fyrir Roosevelt. 

 Thor Thors, sem hafði hvatt til þess allt frá 1940 að Íslendingar leituðu eftir vernd Bandaríkjanna til að tryggja öryggi sitt og utanríkisviðskipti, var eindregið á því að Ísland ætti ganga til liðs við nýja bandalagið gegn Hitler. Ríkisstjórn Íslands þyrfti hins vegar að setja þann fyrirvara við undirritun undir yfirlýsingu SÞ að landið tæki ekki þátt í neins konar hernaðaraðgerðum.  Það væru okkar hagsmunir að öllu leyti hvort sem litið væri til varna eða viðskipta að einangrast ekki frá þeim ríkjum sem stæðu Íslendingum næst. Thor var líka einarður andstæðingur þýskra nasista, eins og bróðir hans Ólafur, og hafði pirrað pótintáta í Berlín með  vinsamlegum ummælum í  dagblöðum um Breta og hersetu þeirra á Íslandi. 

Camp Pershing á Íslandi.
Camp Pershing á Íslandi 1942. Wikimedia Commons.

Á þessum tíma var Þjóðstjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við völd í landinu undir forsæti framsóknarmannsins Hermanns Jónassonar en Stefán Jóhann Stefánsson formaður Alþýðuflokksins fór með utanríkismálin. Hvorki Stefán né Ólafur Thors atvinnumálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins og bróðir Thors, virðast hafa treyst sér til að styðja tillögu hans um að Ísland gerðist með fyrirvara aðili að bandalaginu gegn Þýskalandi. Þó voru þessir ráðherrar engu minni andstæðingar nasista en Thor. Þeir vildi hins vegar greinilega halda í hlutleysið að nafninu til, en eiga þó fullt samstarf við vesturveldin í kyrrþey. 

En vildi þá enginn stjórnmálaflokkur fara að ráðum Thors?

Einar Olgeirsson formaður Sósíalistaflokksins. Wikipedia


Jú, reyndar einn flokkur. Þótt furðulegt sé eftir á að hyggja var það Sósíalistaflokkurinn. Aðeins nokkrir mánuðir voru liðnir frá því að flokkurinn hafði fordæmt Þjóðstjórnina fyrir ,,landráð“ vegna samstarfs hennar við Breta og áhuga sumra ráðherra á að semja um vernd Bandaríkjanna, áður en Roosevelt tók frumkvæðið. Kommúnistar, sem réðu lögum og lofum í Sósíalistaflokknum, höfðu í raun snúist í afstöðu sinni til hlutleysis á einni nóttu, þ.e. aðfaranótt 22. Júní 1941, þegar Hitler rauf griðasamning sinn við Stalín með innrás í Sovétríkin. 

Var málið þá úr sögunni eftir að Þjóðstjórnin neitaði að falla opinberlega frá hlutleysi 1941?

Nei, því að Bandaríkjastjórn hafði eftir sem áður áhuga á því að Íslendingar tækju þátt í bandalaginu gegn Hitler með einhverjum hætti. Í árslok 1942 kom þetta mál aftur upp, því að þá sendi Bandaríkjastjórn nokkrar spurningar til ríkisstjórnar Íslands um afstöðu hennar til stríðsins.   Á þessum tíma hafði utanþingsstjórnin nýlega sest að völdum á Íslandi og utanríkisráðherra var framsóknarmaðurinn Vilhjálmur Þór, sem var mikill áhrifamaður í Sambandi íslenskra samvinnufélaga (hryggjarstykkinu í Framsóknarflokknum) og forveri Thors Thors í embætti ræðismanns í New York. Hann var ekki síður en Thor áhugasamur um efla samstarf við Bandaríkjamenn, sem töldu hann besta vin sinn á Íslandi. Þeir Thor voru hins vegar litlir vinir og samstarf þeirra dálítið brösótt, en það er önnur saga. 

Camp SNAFU á Íslandi 1942.
Camp SNAFU á Íslandi 1942. Wikimedia Commons

Alla vega treysti Vilhjálmur sér ekki til að ganga neitt lengra en fyrirrennarinn, Stefán Jóhann, og svara spurningum Bandaríkjastjórnar á þann veg að Ísland hefði látið af hlutleysi. Hann fór frekar eins konar milliveg,  svaraði á þá leið að Íslendingar hefðu lýst yfir ævarandi hlutleysi árið 1918  og mótmælt hernámi Breta. Hins vegar hefðu þeir verið frumkvöðlar í því að standa gegn yfirráðastefnu Hitlers með því að neita Þjóðverjum um flugaðstöðu í landinu 1939! Auk þess hefðu Íslendingar veitt Bandaríkjamönnum hernaðaraðstöðu og unnið með þeim. Af þessu svari mátti ráða að,  hlutleysisyfirlýsingin frá 1918 væri grundvallarreglan í íslenskri utanríispólitík, en landið hefði  í raun veitt bandamönnum stuðning í stríðinu. Þetta var einmitt inntakið í því, sem Thor Thors hvatti Vilhjálm til að koma á framfæri í Washington og var í sama anda og tillaga hans um að undirrita Sameinuðu þjóða yfirlýsinguna með fyrirvara 1941. 

Og það sem meira var, svör Vilhjálms Þórs virðast hafa dugað til þess að Bandaríkjastjórn  beitti sér fyrir því að Íslendingar væru skráðir ein af svokölluðum samstarfsþjóðum Sameinuðu þjóðanna (associated nation) án þess að leita fyrir því samþykkis utanþingsstjórnarinnar. Þessi skráning var mjög mikilvægt frá sjónarmiði Thors því að nú voru Íslendingar komnir með eins konar boðskort að ráðstefnum og væntanlegum stofnunum Sameinuðu þjóðanna. 

Gekk það eftir?

Já, því að vorið 1943 leitaði Bandaríkjastjórn eftir því að Íslendingar tækju þátt í væntanlegri matmælaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og gengjust þar með við því að vera ein af samstarfsþjóðunum. Ráðstefnan átti m.a. að undirbúa stofnun Matvælastofnunar SÞ. Á þessum tíma var byrjuð  umræða um það í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar að efnahagskerfi heimsins yrði endurskipulagt að styrjöld lokinni og þar með milliríkjaverslun, sem Ísland átti allt sitt undir. Það yrði komið á

Thor Thor ásamt Kristjáni Albertssyni stjórnarerindreka.
Thor Thor ásamt Kristjáni Albertssyni stjórnarerindreka. Mynd: UN Photo


einhvers konar verkaskiptingu á milli ríkja til að forðast nýja heimskreppu. Íslendingar sáu náttúrlega fyrir að þeir væru sjálfkjörnir til að sjá heiminum fyrir fiski, svo framarlega sem þeir fengju að höndla með hann í friði fyrir höftum og tollmúrum.  Þeir höfðu loksins brotist út úr kreppunni miklu með hjálp setuliðsvinnu og fiskútflutnings til Englands, höfðu safnað digrum sjóðum í  pundum og dollurum en óttuðust að stríðslok gætu kippt fótunum undan góðærinu í landinu með því að markaðir lokuðust á nýjan leik. 

Samt reyndist utanþingsstjórnin nú  treg til að skrifa upp á það hjá Bandaríkjastjórn að Ísland væri orðinn eins konar aukaaðili að bandalaginu við Hitler og hefði þar með kastað hlutleysinu. Líklega hefur ráðherrana grunað að þingflokkarnir að undanteknum sósíalistum snerust gegn stjórninni í málinu af tryggð við yfirlýsinguna um ævarandi hlutleysi, sem þjóðin liti á sem næsta óaðskiljanlegan hluta af fullveldinu. En Thor gaf sig ekki í þetta sinn og hann virðist hafa sannfært Vilhjálm og utanþingsstjórnina um að hún yrði að þiggja boðið. Það væri í þágu sjávarútvegs og landbúnaður og gæti opnað Íslandi aðgang að friðarráðstefnu eftir styrjaldarlok. 

Nýsköpunarstjórnin var við völd þegar Ísland gekk í Sameinuðu þjóðirnar.


Þetta var geysimikilvægt í augum Thors og ýmissa annarra áhrifamanna. Hættan var sú að Ísland yrði það sem kallað var ,,rekald á friðarfundi“. Stórveldin færu að véla um framtíð landsins án þess að það kæmi nærri. Þarna höfðu menn meðal annars í huga að ekki væri búið að losa okkur fyllilega úr tengslum við Danakóng og stofna lýðveldi. Þjóðréttarleg staða okkar gæti talist óljós og það ýtt undir eitthvað ófyrirsjáanlegt. Menn höfðu það náttúrlega líka í huga hvernig smáríki, lönd og héruð höfðu oft verið notuð sem skiptimynt í samningum stórvelda eftir Evrópustyrjaldir. Þeir bræður Ólafur og Thor voru harðákveðnir í því að þjóðin ætti að stofna lýðveldi strax og sambandslagasamningurinn leyfði 1944. Frá sjónarmiði Thors var það hluti af því að treysta fullveldi landsins og sjálfstæði landsins að það tæki fullan þátt í Sameinuðu þjóðunum, sem hann sá fyrir sér sem heimssamtök til verndar friði, mannréttindum og eflingar frjálsra heimsviðskipta. Allt frá því á fjórða áratugnum hafði hann verið mikill aðdáandi Roosevelts Bandaríkjaforseta og aðhyllst stefnu hans um eins konar félagslegan markaðsbúskap og alþjóðlegt samstarf ríkja, sem kæmu á vísi að alheimsstjórn öllu mannkyni til hagsbóta. 

En hvernig gekk Vilhjálmi Þór að fá þingmenn og fyrrverandi ráðherra, sem höfðu neitað allri þátttöku Íslands í Sameinuðu þjóðunum 1941 til að leyfa ríkisstjórninni að taka þátt í  matvælaráðstefnu sem ,,samstarfsríki“ SÞ 1943? 

Þetta er satt að segja einkennileg saga. Hvorki Vilhjálmur né Björn Þórðarson forsætisráðherra virðast hafa skýrt fyllilega fyrir utanríkismálanefnd Alþingis að Ísland gerðist aukaaðili að hernaðarbandalaginu gegn Þýskalandi Hitlers með því að taka þátt í ráðstefnunni. Málið var í raun kynnt þannig  að það snerist um það eitt að tryggja að Íslendingar fengju að selja fisk og kjöt á heimsmarkaði að stríði loknu. Og  þá var náttúrlega ekki að sökum að spyrja, nefndarmenn samþykktu með öllum greiddum atkvæðum að þiggja boðið á matvælaráðstefnuna. Á meðal þeirra sem mæltu fyrir þessu var Jóhann Þ. Jósefsson sjálfstæðisþingmaður og kjörræðismaður Þjóðverja í Vestmannaeyjum. Ég leyfi mér að efast um að það væri hægt að finna mörg dæmi þess að ríki hafi þannig gerst óaðvitandi þátttakandi í heimsstyrjöld. Umboð utanþingsstjórnarinnar til að skuldbinda landið út á við var takmarkað eins og Vilhjálmur og guðfaðir stjórnarinnar, Sveinn Björnsson ríkisstjóri vissu mæta vel.   


Litu Þjóðverjar þá svo á að Ísland væri komið í stríð við þá?

Nei, reyndar ekki. Þeir kusu hreinlega að líta framhjá þátttöku Íslendinga í SÞ, því að hún stangaðist á  áróður þeirra um að Bandaríkin, veldi júða og negra, hefðu hernumið þessa litlu og kynhreinu norrænu þjóð! 

Oddvitar Bandamanna Winston Churchill, Franklin D. Roosevelt og Jósef Stalín á Jalta-ráðstefnunni.

En hvernig tóku Íslendingar þá skilyrði hinna ,,þriggja stóru“ á Jalta-ráðstefnunni 1945 um að þeir yrðu að lýsa yfir stríði á hendur Þjóðverjum, til að geta tekið þátt í stofnun nýju heimssamtakanna, Sameinuðu þjóðanna?

 Á þessum tíma var það orðið stefnumál nýrrar ríkissstjórnar,  Nýsköpunarstjórnar Alþýðuflokks, Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks, að taka þátt í væntanlegu alþjóðasamstarfi á vegum Sameinuðu þjóðanna. Hlutleysið taldist tæplega lengur þrándur í götu fyrir þessu eftir að styrjöld lyki, því að hugmyndin á bak við SÞ var sú að öll ríki heims, undir forystu stórveldanna, sameinuðust um tryggja frið og mannréttindi í heiminum. Ekki yrði lengur um það að ræða að ríki skiptust upp í stríðandi bandalög eða valdablokkir, en með því hlaut hlutleysið að missa allt inntak. Vonast var til að austrið mætti vestrinu og ljónin léku við lömbin.   

Á fundi utanríkismálanefndar Alþingis reyndust hins vegar fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna andvígir því að kosta því til að lýsa beinlínis yfir stríði á hendur Þjóðverjum. Eins og  Ólafur Thors, forsætis- og utanríkisráðherra, skýrði fyrir vesturveldunum þá töldu Íslendingar að þeir gætu ekki sem vopnlaus þjóð háð stríð. Auk þess væru þeir bundnir af yfirlýsingu sinni um ævarandi hlutleysi og teldu það bæði lúalegt og hlægilegt, ef þeir tækju upp á því að lýsa yfir styrjöld á hendur þjóð, sem væri að þrotum komin. 

Breskir hermenn á Íslandi.


Nú voru Bretar, sem höfðu milligöngu í þessu máli við Íslendinga, forviða yfir því að Íslendingar skyldu vísa til hlutleysisyfirlýsingarinnar frá 1918, þar sem þeir hefðu átt náið samstarf við bandamenn og lýst sambandslagasamninginn ógildan með stofnun lýðveldis 1944. En ég tel að þarna hafi einmitt sannast, að utanríkismálanefnd Alþingis vissi ekki hvað hún var að gera, þegar hún þáði boðið á matvælaráðstefnuna 1943 og staðfesti með því óaðvitandi að Íslendingar væru ein af samstarfsþjóðum Sameinuðu þjóðanna. 

En það var annað, sem Ólafur trúði vesturveldunum ekki fyrir, en það var ótti við að Hitler gæti í dauðateygjum sínum, gert okkur ægilegan skaða. Það höfðu Þjóðverjar reyndar þegar gert með árásum kafbáta og flugvéla á íslenska skipaflotann. Menn þóttust að vísu sjá að Þjóðverjar hefðu ekki haldið uppi hernaði gegn okkur af fullum þunga. En með því að ögra þeim með fáránlegri stríðsyfirlýsingu væri full ástæða til að óttast að Hitler trylltist og léti refsivönd sinn dynja á okkur. Mönnum var þá bæði hugsað til Íslendinga, sem enn dvöldust á yfirráðasvæði Þjóðverja, og skipaflotans. Reyndar sökkti þýskur kafbátur Dettifossi, stærsta farþegaskipi Íslendinga á þessum tíma og allt fram til stríðsloka herjuðu kafbátar í Faxaflóa og nágrenni. Ótti við blóðuga hefnd Þjóðverja var því alls ekki ástæðulaus og síðasta skipið sem þýski kafbátaflotinn grandaði í styrjöldinni var vopnaður breskur togari út af Garðskaga rétt fyrir uppgjöf Þýskalands. Það var engin furða þótt upp gysi orðrómur um yfirvofandi loftárás Þjóðverja á Reykjavík, þegar þar fréttist um skilyrðið um stríðsyfirlýsingu. 

Ísland 75 ár í SÞ
Fánar Svíþjóðar, Íslands (í miðju) og Afganistans dregnir að húni við bráðabirgðahöfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Flushing Meadows, New York, 19.nóvember 1946.

En var samt ekki erfitt fyrir Nýsköpunarstjórnina að neita sér um að taka þátt í stofnun SÞ?

Jú, svo sannarlega. Nú sáu allir fram á stríðið væri að enda og þá fylltust ráðherrar og þingmenn enn meiri áhyggjum yfir því að landið gæti einangrast, orðið að rekaldi í valdatafli stórveldanna og misst af stórkostlegum tækifærum í viðskiptum. Annað sem nú sótti á menn var óvissa um hvað yrði um flugvellina miklu, sem vesturveldin höfðu lagt  í Reykjavík og Keflavík, svo og flotastöðina í Hvalfirði. Það var á dagskrá hjá Sameinuðu þjóðunum að koma upp alþjóðlegu öryggiskerfi undir stjórn öryggisráðsins og lengi hafði verið rætt um að nýta herflugvellli um víða veröld í þessum tilgangi. Spurningin nú var því sú, hvernig bækistöðvum hér yrði ráðstafað, hvaða stórveldi sæktist hér hugsanlega eftir aðstöðu með eða án samþykkis þjóðar og þings. Þótt það sýnist ekkert stórmál nú á dögum að Íslendingar gætu ekki tekið þátt í stofnun Sameinuðu þjóðanna í San Francisco í apríl 1945, þá horfði þetta allt öðru vísi við ráðamönnum okkar í stríðslok. 

En hvernig brást Thor Thors nú við?

Ég held að hann hafi verið vonsviknastur allra, þetta var honum þvílíkt hjartans mál fyrir utan sannfæringuna um að mikið gæti verið í húfi fyrir þjóðina í öryggismálum og viðskiptum. En nú endurtók sagan frá 1941 sig, Thor reyndi að miðla málum og taldi sig fá vilyrði hjá Bandaríkjastjórn fyrir því að Íslendingum nægði að lýsa yfir því að stríðsástand hefði í raun ríkt á milli Íslands og Þýskalands frá því að Hitler sagði Bandaríkjunum (verndarríki Íslands)  stríð á hendur. Það var Roosevelt forseti sem hafði lagt til að Íslandi yrði boðið á San Francisco-ráðstefnuna, svo að stuðnings var að vænta úr Hvíta húsinu. En eins og fyrr vildi einungis Sósíalistaflokkurinn samþykkja málamiðlun Thors, hinir stjórnmálaflokkarnir vildu aðeins koma því á framfæri að Íslendingar ættu sanngirniskröfu á því að sækja ráðstefnuna vegna ,,afnota Bandamanna af Íslandi“ 1940-1945. Þetta hnykkir enn á því að stjórnmálaflokkarnir, að undanteknum sósíalistum, vildu ekki falla frá yfirlýsingunni um ævarandi hlutleysi í heimsstyrjöldinni, þótt þeir hefðu verið knúnir til að laga hlutleysið að aðstæðum með því að starfa leynt og ljóst með bandamönnum. Þarna sýndi sig enn að hlutleysi er mjög teygjanlegt hugtak og það er vafasamt hvort nokkurt hlutlaust ríki komst hjá því að brjóta alþjóðalög um skyldur og réttindi  slíkra ríkja á stríðsárunum. Hvernig átti það líka að geta verið þegar sum stríðsveldin hirtu ekkert um slík lög lögðu undir sig og innlimuðu jafnvel hlutlaus ríki?  

Thor Thors og Guiseppe Pella utanríkisráðherra Ítalíu.
Thor Thors og Guiseppe Pella utanríkisráðherra Ítalíu. Mynd: UN Photo

 Thor Thors er fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum frá 1947 til dauðadags og enn lengur sendiherra í Bandaríkjunum eða frá 1941 til 1965. Þetta er ekki bara langur tími fyrir íslenskan diplómat, heldur fáheyrt á alþjóðlegum vettvangi; hann hlýtur að hafa öðlast nokkur áhrif í krafti langrar reynslu sinnar? 


Dean Rusk, utanríkisráðherra John F. Kennedys forseta, sagði eitt sinn í blaðaviðtali að  Ísland hefði verið stórveldi á meðan Thor Thors var sendiherra í Bandaríkjunum. Þetta lýsir að vissu leyti hans stöðu, Thor hafði eins mikil áhrif og fulltrúi nokkurs smáríkis getur haft en þau eru auðvitað takmörkuð.  Öllum ber saman um að hann hafi notið einstakrar virðingar bæði í Washington og hjá Sameinuðu þjóðunum.  Helsti heimildarmaður minn um störf hans hjá SÞ var Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri Tímans.  Þórarinn var í sendinefnd Íslands á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um árabil og vann náið með Thor. 

Enginn vafi er á því að Thor öðlaðist áhrif út á sína löngu reynslu sem diplómat og fastafulltrúi hjá SÞ, hann var heimsmaður og aristókrat, oftast hlýr í viðmóti, hjálpsamur og góðviljaður.  En það sem meira máli skipti fyrir feril hans voru skarpar gáfur, persónutöfrar, einstök elja og málafylgja. Þessir eiginleikar settu mark á öll störf hans, hvort sem litið er til stjórnmálaferils hans á Íslandi eða sendiherraáranna. Ekki spillti það fyrir honum, að hann þótti lengi með myndarlegustu mönnum, hvar sem hann kom. Hann hafði auðvitað sína galla og bresti eins og allir og átti við ýmsa erfiðleika að glíma í sínu einkalífi. En að upplagi og sannfæringu var hann frjálslyndur hugsjónamaður sem vildi bæta samfélag sitt og helst allan heiminn. 

Áhrif hans á stefnu Sjálfstæðisflokksins eru kapítuli út af fyrir sig. Hann var eins konar hugmyndafræðingur flokksins og átti mikinn þátt í því að flokkurinn sneri inn á braut félagslegs markaðsbúskapar í formannstíð bróður hans, Ólafs. Stjórnmálaafskipti hans byrjuðu með því að hann myndaði eins konar ,,sósíalistasellu“ með félögum sínum í Menntaskólanum, Einari Olgeirssyni og Stefáni Péturssyni, sem síðar urðu leiðtogar kommúnista. Sellan fundaði í höll föður hans, helsta kapítalista landsins,  á Fríkirkjuvegi 11!  

Thor Thors í hópi annarra fastafulltrúa á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Thor Thors í hópi annarra fastafulltrúa á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Mynd: UN Photo

Af því að þú nefndir óvenjulangan starfsaldur Thors í Bandaríkjunum, þá ætti ég að
nefna það að sjálfur hafði hann alls ekki hugsað sér að dveljast þar að eilífu. Þvert á móti hafði hann áhuga á því að verða fluttur til London eða jafnvel Moskvu að stríðinu loknu, en síðan skipuðust mál þannig, að allir utanríkisráðherrar, hvort sem þeir sátu í hægri eða vinstri stjórn, töldu Thor ómissandi mann í Washington. Hvert stórmálið rak annað í samskiptum við Bandaríkin á þessu tímabili og alltaf var viðkvæðið það að enginn gæti rekið erindi landsins gagnvart stjórnarherrunum vestra eins og Thor. Þannig liðu árin fram til þess að hann andaðist á starfsvettvangi sínum. 

Hvað telur þú að einkenni öðru fremur feril Thors hjá SÞ?

Ég býst nú við að Thor hafi haft frjálsari hendur í þessu starfi en flestir eftirmenn hans.  Þórarinn Þórarinsson orðaði það svo  að hann hefði ,,átt meginþátt í að marka stefnu Íslands á vettvangi SÞ.” Þetta leiddi auðvitað beint af yfirburða reynslu hans og þekkingu á viðfangsefnum samtakanna, utanríkisráðherrar komu og fóru á tímabilinu, á meðan hann sat um kyrrt í sínu embætti. Síðan naut hann lengst af mikils trausts utanríkisráðherra á starfstímabili sínu hjá SÞ og bjó þar að einhverju leyti að nánu sambandi við bróður sinn Ólaf, en þó enn frekar að ómetanlegum árangri sem hann hafði náð með  störfum sínum í Washington. Hann naut almennrar viðurkenningar sem fremsti diplomat íslensku utanríkþjónustunnar, þó að þar hafi verið mikið og gott mannval á hans dögum.  Ýmsir af færustu og árangsríkustu stjórnerindrekum okkar störfuðu reyndar um eitthvert skeið með Thor vestra og báru honum allir sömu söguna.  

Thor Thors og Guiseppe Pella utanríkisráðherra Ítalíu.
Thor Thors og Guiseppe Pella utanríkisráðherra Ítalíu. Mynd: UN Photo

Hvaða málefnum sinnti Thor aðallega  hjá SÞ?

Það má segja að hann hafi verið þarna í eldlínu alþjóðamála frá því að Ísland gekk í samtökin 1946. Hann var fljótt kjörinn fulltrúi í svokallaða fyrstu nefnd SÞ, þ.e. stjórnmála- og öryggismálanefndina, sem var vettvangur allra mikilvægustu alþjóðamála á mesta átakaskeiði kalda stríðsins. Hann naut lengi þess trúnaðar að vera valinn framsögumaður nefndarinnar, enda talinn afar snjall og virðulegur ræðumaður allt frá æskuárunum. Eitt af því sem þótti greina Thor frá fulltrúum ýmissa annarra vestrænna ríkja var einörð andstaða hans og óbeit á nýlendustefnu. Valdimar Unnar Valdimarsson stjórnmálafræðingur lýsti nokkuð framgöngu Thors í nýlendumálum í bók sinni Ísland í eldlínu alþjóðmála. Hann nefnir þar m.a. harðar deilur Thors við Breta 1954 vegna hreyfingar og síðar skæruhernaðar grískra eyjarskeggja á Kýpur gegn breskum yfirráðum. Bretar reyndu að fá öll Norðurlöndin, og sérstaklega Íslendinga, sem áttu sæti í viðkomandi þingnefnd, til að synja óskum Grikkja og Kýpumanna um að taka málið á dagskrá SÞ. En Thor vísaði til eindregins stuðnings Íslendinga við sjálfsákvörðunarrétt þjóða, gagnrýndi yfirdrottnun Breta víða um heim og beitti sér fyrir því að Kýpurmálið væri tekið á dagskrá. Landhelgismál blönduðust síðan í þessar deilur eftir útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar 1958, en Thor sótti fyrr og síðar mjög hart að Bretum fyrir að grípa til hervalds gegn bandalagsríki sínu, Íslandi. Ræður hans þóttu áhrifamiklar, vöktu athygli heimsblaða og styrktu þannig stöðu Íslands í landhelgisdeilunum. 

 Í umræðum um nýlendumál, vísaði Thor oft til þess að Ísland hefði búið við aldlangt nýlenduok og skoðanir ríkisstjórnar landsins og alls almennings væru mótaðar af því. Íslendingar væru ,,dyggir  stuðningsmenn sjálfsákvörðunarréttar” og hlytu að vera það ,,sögu okkar vegna”.  Ræður hans voru þannig litaðar af heitri þjóðerniskennd og ættjarðarást, sem hann hafði drukkið í sig frá barnæsku eins og Ólafur bróðir hans.  Eins og danskur þingmaður hafði orð á, voru ekki til eindregnari þjóðernissinnar og andstæðingar dansks konungsvalds á Íslandi, en menn, sem áttu ættir að rekja til Danmerkur. 

Thor hélt sig í raun að mestu til hlés í deilum austurs og vesturs. Hann leit á það sem
hlutverk sitt sem fulltrúi vopnlauss smáríkis að mælast til sátta og afvopnunar og gerði það við hvert tækifæri í ræðu og riti. Hann óttaðist iðulega að þriðja heimsstyrjöldin kynni að brjótast út og varaði við því á áhrifaríkan hjá Sameinuðu þjóðunum  að hún gæti aðeins leitt til tortímingar mannkynsins. Hann reyndi að halda uppi vinsamlegum samskiptum við sendiherra sem flestra ríkja bæði í Washington og hjá Sameinuðu þjóðunum, þar á meðal við sendinefndir Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra. Hann hafði þann eiginleika að geta deilt geði við ólíkasta fólk og laðað það að sér.  Jafnvel á köldustu dögum kalda stríðsins virðist hann hafa getað spjallað í vinsemd við þann erkiskálk og orðhák Andrey Y. Vyshinsky, sem sá um illræmdustu sýndarréttarhöld Stalíns og þjónaði einvaldinum síðar sem fastafulltrúi Sovétríkjanna hjá SÞ. Samband Thors við Indverja var annars sérstaklega náið en þeir reyndu að fara bil beggja í kalda stríðinu. 

 Tók Thor ekki  þátt í deilum um yfirráð Frakka yfir Norður-Afríku?

Jú, vissulega. Alsírmenn höfðu risið upp gegn frönskum yfirráðum og deilt var um það hjá SÞ 1954, hvort taka ætti málið til umræðu. Thor sagði þá að vegna gamallar vináttu og virðingar við frönsku þjóðina ætluðu Íslendingar að sitja hjá að þessu sinni, þó að það væri ekki samræmi við þá afstöðu sem þeir hefðu tekið í slíkum málum.  Samt olli þetta mikilli ólgu í hópi NATO ríkja hjá SÞ og 1955 voru Íslendingar jafnvel sakaðir um það að hafa brotið Atlantshafssáttmálann með því að styðja ekki Frakka. Thor, sem var mikill stuðningsmaður bandalagsins, furðaði sig á því, hvernig hægt væri að snúa sáttmála um að verjast árás upp í skuldbindingu um styðja kúgun á þjóð, sem svipt væri sjálfsákvörðunarrétti. Hugmyndin um að ,,Nato sé eins konar framvörður nýlendustefnu er þjóð minni með öllu fjarlæg og fráleit“, sagði hann í umræðu um þessi mál. 


Bandaríski sendiherrann lagði mjög hart að Thor að breyta afstöðu sinni, en hann synjaði því með öllu með þeim rökum að það gæti skaðað samskipti Bandaríkjanna við Ísland. Ef stjórnin söðlaði um í málinu vegna þrýstings frá Bandaríkjastjórn, líkt og sum Suður-Ameríkuríki, liti íslenskur almenningur á það sem ,,óeðlilega eftirgjöf”, sem gæti síðan spillt fyrir viðleitni ríkisstjórnar Íslands til að bæta samband ríkjanna! Þetta er eitt dæmi um það, hve ótrúlega fimur diplómatinn og gamli þingmaðurinn gat verið í hvers kyns rökræðum. Bandaríski sendiherrann átti ekkert  frambærilegt svar við orðum Thors – hann var að forða Bandaríkjunum frá því að vinna sér skaða á Íslandi um sama leyti og staða þeirra til að halda lífsnauðsynlegri hernaðaraðstöðu sinni í landinu var augljóslega að veikjast.  

Vinur er sá er til vamms segir. Sama má segja um gagnrýni Thors á breska nýlendustefnu. Þeir bræður Ólafur virtu Bretaveldi mikils á sinn hátt og var mjög hlýtt til Breta, eins og fram hafði komið á stríðsárunum. En þeir sögðu bresku ríkisstjórninni líka óhikað til syndanna, þegar því var að skipta. 

Palestínskir flóttamenn nærri Khan Yunus 1948 eða skömmu síðar
Palestínskir flóttamenn nærri Khan Yunus 1948 eða skömmu síðar. Mynd: UN Photo

 Sumir segja að stærsta stund Thors í SÞ hafi verið 29. nóvember 1947. Þá var hann framsögumaður undirnefndar, sem stjórnmálanefndin hafði skipað til að kanna möguleika á samkomulagi á milli Araba og Gyðinga um skiptingu Palestínu og stofnun tveggja ríkja þar. Hafði Thor afgerandi áhrif á niðurstöðuna og þar með á stofnun Ísraelsríkis, eins og sumir hafa ályktað af minningum Abba Ebans, fastafulltrúa Ísraels, síðar utanríkisráðherra? 

Það er alveg ljóst að Gyðingar voru áhyggjufullir yfir því að nefndin mælti með því að
haldið yrði áfram að leita samkomulags um málið. Óvíst væri hvort skipting Palestínu nyti  nauðsynlegs stuðnings á allsherjarþinginu, og frekari dráttur málsins eftir áralangt þóf gæti spillt fyrir því að þessi meirihluti næðist.  

Abba Eban segist hafa farið í  heimsókn á hótel til Thors að morgni 29. nóvember til að hvetja hann til láta gera út um málið án tafar. Hann óttaðist að tæki Thor upp á því að tala eindregið fyrir frestun sem framsögumaður undirnefndarinnar gæti það haft áhrif á fundi allsherjarþingsins, sem boðaður hafði verið um málið þennan sama dag. Eban segist hafa beitt öllum sannfæringarkrafti sínum til að lýsa fyrir Thor aldalöngum draumum og vonum ótal kynslóða gyðinga um að stofna Ísraelsríki. Thor hafi hiklaust svarað á þá leið að það væri meiri skilningur á Íslandi á örlögum Gyðinga, eins og þeim væri lýst í Biblíunni, en Eban grunaði. Þessar frásagnir væru hluti íslenskrar menningar og Gyðingar gætu treyst því, að íslenska þjóðin, sem varðveitt hefði tungmál sitt og bókmenntir við erfiðustu náttúruskilyrði um aldur, hlyti að sýna skilning á viðleitni þeirra til að varðveita þjóðareinkenni sín og stofnun eigin ríkis. Hann væri sammála Eban um að nú væri komið að ákvörðun í málinu og frekari dráttur tilgangslaus. 

Geysimikil spenna ríkti þegar allsherjarþingið kom saman síðar um daginn. Allt fylltist af fjölmiðlamönnum frá hinum ýmsu ríkjum með tæki sín og tól og áheyrendapallar voru yfirfullir. Aldrei hafði sést önnur eins mannmergð á þinginu. Fundurinn hófst með magnaðri ræðu Thors, sem taldi að allar leiðir til að ná samkomulagi á milli Gyðinga og Araba hefðu verið þrautkannaðar án árangurs. Eina von um sættir lægi í því að taka af skarið með dómgreind og festu. ,,Thor var stórkostlegur“, skrifaði Abba Eban. 

Palestínumálið var í brennidepli á öðru Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 16.september 1947. Fundurinn var haldinn í Flushing
Palestínumálið var í brennidepli á öðru Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 16.september 1947. Fundurinn var haldinn í Flushing Meadows. Mynd: UN photo

Síðan hófu þingfulltrúar umræðu, sem mótaðist mjög af ræðu Thors að mati Ebans. Atkvæðagreiðslan fór að vonum Gyðinga, 33 fulltrúar greiddu atkvæði með skiptingu Palestínu í tvö ríki, sem ættu að mynda efnahagssamband. Þrettán fulltrúar greiddu atkvæði á móti tillögunni, tíu sátu hjá og einn var fjarverandi. 

Þótt vafalaust hafi ræða Thors greitt fyrir því að allsherjarþingið tók þarna af skarið, held ég að það væri mikið ofmat að ætla að hún hafi ráðið úrslitum um málið. Væntanlega hefði það eitthvað dregist á langinn, ef undirnefndin hefði hvatt til frekari samningaumleitana, en það sem skiptir höfuðmáli er að risaveldin, Bandaríkin og Sovétríki Stalíns, höfðu afráðið að styðja skiptingu Palestínu í tvö ríki. 

Ég hef tekið eftir því að sumir íslenskir Palestínuvinir hafa lýst Thor sem einhvers konar handbendi síonista. Þeir hafa jafnvel gengið svo langt að segja að Ísland sé með einhverjum hætti ábyrgt fyrir stefnu Ísraels gagnvart Palestínumönnum og nágrannaríkjum sínum eftir sex daga stríðið 1967 vegna framgöngu Thors í þessu máli. Þetta nær engri átt, samþykkt allsherjarþingsins um skiptingu Palestínu er einn grundvöllurinn undir kröfu Palestínumanna um sjálfstætt ríki og Jerúsalem var ætlað að vera undir alþjóðastjórn.

Sendinefnd Bandaríkjamanna á öðru Allsherjarþinginu 1947. John Foster Dulles utanríkisráðherra, Elenour D. Roosevelt, ; Herschel V. Johnson, fastafulltrúi, Warren R. Austin fastafulltrúi og George C. Marshall varafastafulltrúi.

Það voru hins vegar Arabaríkin, sem komu öðrum fremur í veg fyrir að samþykkt SÞ næði fram að ganga, með því að ráðast á Ísrael eftir að Gyðingar lýstu yfir stofnun eigin ríkis 1948. Enginn, sem hefur kynnt sér málflutning Thors Thors um Palestínumálið, nýlendumál, mannréttindi, stríð og frið, gæti velkst í vafa um hvaða afstöðu hann hefði tekið til stefnu hægrimanna í Likud-bandalaginu og heittrúarflokka í Ísrael gagnvart Palestínumönnum á síðustu áratugum, ef honum hefði enst til þess ævin. Reyndar barðist kjarninn í þessari ystu hægri fylkingu í Ísrael hatrammlega gegn samþykkt allsherjarþingsins um skiptingu Palestínu, stefndi að því að leggja allt landsvæðið undir Ísraelsríki og beitti til þess hryðjuverkum.  Flest þeirra 33 ríkja, sem greiddu atkvæði um málið á sama hátt og Íslendingar 1947, hafa hins vegar lengi verið afar gagnrýnin á stefnu hægrimanna í Ísrael gagnvart Palestínumönnum og nágrannaríkjum Ísraels, og sum eins og Sovétríkin og fylgiríki þeirra tóku fljótlega upp fullan fjandskap við Gyðinga. 

Dwight D. Eisenhower, forseti Bandaríkjanna ávarpar Allsherjarþingið 1960.
Dwight D. Eisenhower, forseti Bandaríkjanna ávarpar Allsherjarþingið 1960. Mynd: UN Photo.


Thor bauð sig fram til forseta Allsherjarþings SÞ 1960 en hlaut ekki brautargengi. Hvers vegna fór það svo? 

Á Íslandi var litið á þetta framboð Thors sem merkisatburð, mesta átak sem gert hefði verið í því að koma Íslendingi í meiriháttar virðingarstöðu á alþjóðavettvangi. Íslendingar tóku þennnan þráð ekki upp aftur, fyrr en tæpri hálfri öld síðar með misráðnu framboði til öryggisráðsins um það leyti sem bankarnir hrundu, þótt ólíku sé saman að jafna. 

Tveir aðrir menn buðu sig fram til forseta 1960:

, þaulreyndur diplómat og vel látinn fastafulltrúi Írlands og Jiri Nosek fastafulltrúi og fyrrum utanríkisráðherra Tékkóslóvakíu. Boland varð fyrri til en Thor að bjóða sig fram og tókst að tryggja sér stuðning Bandaríkjanna og Bretlands, þótt Írar fylgdu hlutleysisstefnu. Það hjálpaði Boland hins vegar í þessu tilviki að í stjórnmálaskoðunum var hann talinn eindreginn fylgismaður vestræns lýðræðis. Sumir hafa leitt líkur að því að stuðningur Bandaríkjastjórnar hafi verið þáttur í baráttu repúblíkana fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum. Nixon varaforseti, frambjóðandi þeirra, hafi verið að reyna viðra sig upp við milljónir kjósenda af írskum ættum í keppni sinn við ,,Írann“ Kennedy. Með því að fá stuðning tveggja helstu forysturíkja Vesturlanda virðist  Boland hins vegar hafa tryggt sér næsta sjálfkrafa atkvæði flestra Vestur-Evrópuríkjanna nema Norðurlandanna fjögurra sem ákváðu að styðja Thor.  Nú var því spáð í Bandaríkjunum að Thor myndi njóta framgöngu sinnar í nýlendumálum og laða að sér fylgi nýfrjálsra ríkja í Afríku og Asíu. En Boland var í raun í enn betri aðstöðu til að höfða til þessara ríkja, því að hann hafði verið formaður í nýlendunefnd SÞ og Írland stutt þessi ríki til sjálfstæðis ekki síður en Íslendingar. Þó hafði hann trúlega ekki lent í jafnhörðum deilum við Breta hjá SÞ og Thor, og sem sendiherra í London á fyrri tíð hafði hann tekið mildari afstöðu til þessara gömlu drottnara Írlands en yfirboðarar hans í Dublin. Ekki spillti það fyrir. 

Frederick Henry Boland ásamt Dag Hammarskjöld aðalframkvæmdastjóra.
Frederick Henry Boland ásamt Dag Hammarskjöld aðalframkvæmdastjóra. Mynd: UN Photo

Thor hafði lengi átt góð samskipti við ýmis ríki rómönsku Ameríku, talaði spænsku reiprennandi frá því að hann stundaði fisksölu á Spáni fyrir stríð og verið sendiherra í nokkrum stærstu ríkjunum og gert sig þar heimakominn. En þessi tengsl máttu sín auðvitað heldur lítils, þegar Bandaríkin tóku að beita sér fyrir framboði Bolands hjá nábúunum í suðri í nafni samstöðu Ameríkuríkja. 

Tékkinn Nosek gat aflað sér allnokkurra atkvæða utan austurblokkarinnar, svo sem frá
Arabaríkjum og nýfrjálsum ríkjum, sem töldu sig eiga Sovétríkjunum skuld að gjalda fyrir hernaðarlegan og efnahagslegan stuðning við sig. 

Þótt Thor legði sig allan fram við afla sér fylgis, var leikurinn í raun tapaður, þegar Bandaríkin og Bretland höfðu lagst á sveif með Boland. Sumir töldu líka að þessi mikilsvirti og hæfileikaríki Íri hefði náð forskoti á Thor með því einu að verða fyrri til að gefa kost á sér, en ekki virðist það ýkja sennilegt. Af kalda stríðinu leiddi nokkuð rígbundin hópaskipting í Sameinuðu þjóðunum og eftir að forysturíki stríðandi fylkinga og hlutlausra höfðu tekið afstöðu í samræmi við mismunandi hagsmuni sína og þarfir voru úrslit ráðin. Atkvæði féllu svo, að Boland var kjörinn forseti með 46 atkvæðum, Nosek hlaut 25 atkvæði, og Thor 9. Auk Íslands og Norðurlandanna fjögurra greiddu fulltrúar Argentínu, Brasilíu og Mexíkó atkvæði með Thor. Níunda atkvæðið var frá fulltrúa Ísraels, enda eru Gyðingar taldir þjóða langminnugastir  á velgjörðir við sig ekki síður en misgjörðir.

Thor Thors lengst til hægri, Kristján Albertson; Sigurður Bjarnason; Stefán Pétursson; Þóraarinn Þórarinsson og Hannes Kjartansson. Mynd: UN Photo

Auðvitað voru þessi úrslit mikil vonbrigði fyrir Thor og sérstaklega sárnaði honum við Bandaríkjastjórn eftir að hafa unnið dyggilega að því að efla samband Íslands og Bandaríkjanna í tæpan aldarfjórðung á miklum örlagatímum, þegar hernaðaraðstaða á Íslandi gat skipt sköpum um yfirráð á Atlantshafi. Það var honum þó nokkur sárabót að þrjú af öflugustu ríkjum rómönsku Ameríku hefðu staðist allan þrýsting stóra bróður í norðri og kosið hann vegna mannkosta hans og áralangra samskipta innan sem utan Sameinuðu þjóðanna. Hvað sem úrslitunum leið, efaðist heldur enginn um að Thor Thors nyti ,,óskoraðra vinsælda og tiltrúar“ í samtökunum, eins og kunnur danskur blaðamaður úr hópi jafnaðarmanna orðaði það í fréttaskýringu í Tímanum.