Sendiherrar Sjálfbærrar þróunar skipaðir

0
479
SDG sendiherrar

SDG sendiherrar

20. janúar2016. Knattspyrnuhetjan Lionel Messi og Victoria, krónprinsessa Svía eru í hópi valinkunnra einstaklinga sem hafa verið skipaðir sérstakir sendiherrar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Verkefni þeirra er að nota „stöðu sína og einstaka leiðtogahæfileika“ til að kynna málefnið og hafa áhrif á hvort heldur sem er ríkisstjórnir, fyrirtæki eða samfélagið.

Leiðtogar ríkja heims samþykktu 17 Sjálfbær þróunarmarkmið á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York í september á síðasta ári. Í þeim felst að ríki heims taka höndum saman um að uppræta fátækt og varðveita plánetuna fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

„Markmiðin sautján eru sameiginleg sýn okkar fyrir mannkynið og samfélagssátmáli á milli veraldarleiðtoga og jarðarbúa,“ segir aðalframkvæmdastjórinn Ban Ki Moon. „Þetta er aðgerðalisti fyrir plánetuna og vegísir til framtíðar.“

„Það er mér mikill heiður að vera í hópi sendiherranna og vinna að framgangi málefnisins. Þau málefni sem sett eru á oddinn í Sjálfbæru þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna skipta sköpum fyrir heiminn. Ég vonast til að geta lagt mitt á vogarskálarnar,“ segir Victoria, krónprinsessa. 

Formenn hópsins verða í sameiningu Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs og John Dramani Mahama, forseti Gana. Auk krónprinsessunnar og Lionel Messi, sem nýlega tók á móti gullhnettinum sem besti knattspyrnumaður heims, voru eftirfarandi skipaðir sendiherrar:

 • Matthildur, drottning Belgíu,
 • Shakira Mebarak, söngkona
 • Forest Whitaker, leikari
 • Richard Curtis, kvikmyndaleikstjóri
 • Dho Young-Shim, sendiherra hjá Ferðamálastofnun SÞ
 • Leymah Gbowee, forstjóri Gbowee friðarstofnunarinnar
 • Jack Ma, stofnandi Alibaba Group
 • Graça Machel, ekkja Nelsons Mandela, baráttukona fyrir mannréttindum
 • Sheikha Moza bint Nasser, eiginkona fyrrverandi emirs Katar
 • Alaa Murabit, kanadísk-líbýsk baráttukona fyrir réttindum kvennna
 • Paul Polman, forstjóri Unilever
 • Jeffrey Sachs, forstjóri, Earth Institute við Colombia háskólann
 • Muhammad Yunus, stofnandi Grameen bankans

Sjá nánar: http://www.un.org/sustainabledevelopment/sdgadvocates/