Sendinefnd Mannréttindaráðsins skýrir frá alvarlegum mannréttindabrotum í Darfur í nýrri skýrslu

0
467
19. mars 2007 –Jafnt súdanski stjórnarherinn, Janjaweed-vígasveitirnar sem og uppreisnarmenn eru sekir um alvarleg mannréttindabrot og brot á alþjóðalögum í Darfur.

Morð, nauðganir, pyntingar og geðþótta handtökur eru nær daglegt brauð, að því er formaður háttsettrar sendinefndar Sameinuðu þjóðanna segir í skýrslu sem hún skilaði Mannréttindaráði samtakanna í dag.
Jody Williams, friðarverðlaunahafi Nóbels sagði í ávarpi til Mannréttindaráðsins á föstudag að réttarríkið hefði nánast horfið í Darfur vegna óskilvirkni réttarkerfisins, stanslauss straums vopna og andrúmslofts refsileysis
Hún sagði að óbreyttir borgarar væru aðalskotmarkið í átökunum sem hafa einnig aukið á félagslega og efnahagslega örbirgð í Darfur.
Í skýrslu háttsettu nefndarinnar sem birt var í dag í Genf er súdanska stjórnin hvött til að fallast á tillögu um sameiginlega friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins án tafar og hefja undanbragðalausa samvinnu við Alþjóðaglæpadómstólinn (ICC) sem kann að halda réttarhöld yfir stríðsglæpamönnum.
Nefndin hvetur líka alþjóðasamfélagið til að þrýsta á einstök aðildarrríki Sameinuðu þjóðanna og beita tækjum á borð við Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna til að binda enda á átök, vernda óbreytta borgara og draga hina seku fyrir rétt.
Fimm manna sendinefndin komst ekki til Darfur því henni var meinað um vegabréfsáritun. Hins vegar ræddu nefndarmenn við hundruð hlutaðeigandi á einum mánuði og fóru yfir óteljandi skjöl um málefnið. Nefndin starfaði í Genf og heimsótti Addis Ababa og ýmsar borgir og flóttamannabúðir í Tsjad.
Múhameð Ali Emardi, fulltrúi Súdans svaraði Jody Williams eftir að hún ávarpaði fyrir Manntréttindaráðið á föstudag og sagði skýrsluna  hlutdræga og hluta af samsæri gegn Súdan.  
Sjá nánar: http://www.un.org/apps/news/story.asp?NewsID=21904&Cr=sudan&Cr1=