Senegal: Rappið sigraði ebóluna

0
473

Canabasse-Ebola

22. október 2014. Rapp-tónlistarmenn hafa leikið stórt hlutverk í því að breiða út þekkingu á ebóla-veirunni í Senegal en það er eina landið í Vestur-Afríku ásamt Nígeríu sem náð hefur að stemma stigu við útbreiðslu hennar.

Aðeins 21 sjúkdómstilfelli kom upp í þessum ríkjum en í báðum tilfellum voru sýktir einangraðir hið fyrsta og rakið hverja þeir kynnu að hafa smitað. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur nú lýst yfir að Nígería og Senegal séu laus við ebóluna.

Í Senegal voru það ekki aðeins opinberir aðilar og heilbrigðisyfirvöld sem gripu í taumana. Listamenn og bloggarar tóku höndum saman jafnt í sjónvarpi sem á samskiptamiðlum, svo sem twitter (#SenStopEbola) og Facebook auk þess sem auðvelt var að hlaða niður app á snjallsíma með upplýsingum um sjúkdóminn á wolof, helsta tungumáli landsins.

En tónlist og tónlistarmyndbönd léku jafnvel stærra hlutverk í að efla vitund því rapparar og hipphopparar lýstu yfir stríði á hendur ebólunni. Í Teranga héraði tók pólitíska rapp- og hipphopphreyfingin Y´en a marre (Höfum fengið nóg) baráttuna gegn ebólu upp á sína arma. Rapp-hljómsveitin KeurGi  gerði tónlistarmyndband um ebóla-smit þar sem aðrar þekktar rapphljómsveitir á borð við Fou Malada, Canabasse og PPS komu við sögu, ásamt Aida Samb og Ousmane Gange (mbalax-tónlistarmenn), auk barna sem slegið höfðu í gegn í senegalska „barna-Idólinu“) Sen P´tit Galle.

Söngvarinn El Hadji Ndiaye endurgerði svo vinsælt lag Bonjour frá árinu 1999 og skipti út mýrarköldu fyrir ebólu. Í nýja tónlistarmyndbandinu sjást aðrir þekktir senegalskir tónlistarmenn halda skiltum á lofti með vígorðinu „berjumst gegn ebólu.“

Tónlistarfólkið hikaði ekki við að nota sterkt myndmál til að koma skilaboðunum á framfæri og átti rapparinn Kilifeu ekki síst þátt í að velja sláandi myndir af ebóla-sjúklingum. Hann sagði í viðtali við blaðið Jeune Afrique: „Við verðum að kalla hlutina réttum nöfnum og hætta að stinga hausnum í sandinn. Með því að sýna þessar myndir vildum við vekja fólk af værum blundi.“

Svo virðist sem það hafi tekist.