Sjálfbær þróun: Brýnasta mál 21. aldar

0
406

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði veraldarleiðtogum sem saman eru komnir á leiðtogafundi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York að þeir stæðu frammi fyrir brýnum ákvörðunum sem hafa myndi áhrif á velferð komandi kynslóða.

“Við stöndum andspænis ákvörðunum í fimm mikilvægum málaflokkum – fimm tækifæri sem þessari kynslóð gefst til að taka ákvarðanir í dag sem hafa munu áhrif á heim morgundagsins, “ sagði Ban í opnunarræðu sinni þar sem hann gaf skýrslu um starf samtakanna.

Ban nefndi sérstaklega sjálfbæra þróun, að hindra og milda áhrif styrjalda, mannréttindabrot og afleiðingar náttúruhamfara, að byggja tryggari og öruggari heim, styðja lönd í stjórnarfarisbreytingum og að leysa úr læðingi hæfileika kvenna og ungs fólks.

“Fyrsta og stærsta úrlausnarefnið er sjálfbær þróun – brýnasta mál tuttugustu og fyrstu aldarinnar,” sagði framkvæmdastjórinn. “Við verðum að tengja saman loftslagsbreytingar, vatnsskort, orkuskort, heilsufar, fæðuskort og valdeflingu kvenna. Lausn á einum vanda verður lausn allra.”

Ban hvatti leiðtogana sérstaklega til að ná bindandi samkomulagi um að stemma stigu við loftslagsbreytingum með því að setja metnaðarfyllri markmið í minnkun losunar koltvíserings.