Skátastúlkan sem fylgdi í fótspor forseta og kóngafólks

0
1010

Svana Friðriksdóttir var 19 ára gömul árið 1971 þegar hún fékk Nansen-verðlaunin fyrir þátttöku í vel heppnaðri norrænni fjársöfnun í þágu flóttamanna í heiminum. Þessi verðlaun Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna voru í sérstaklega miklum metum á þessum tíma. Þau eru enn þann dag í dag ein eftirsóttasta alþjóðaviðurkenningin fyrir mannúðarstarf á eftir friðarverðlaunum Nóbels.

Fyrsti Nansen-verðlaunahafinn árið 1954 var hin gagnmerka baráttukona Eleanor Roosevelt ekkja Franklins D. Roosevelt Bandaríkjaforseta. Síðan voru verðlaunin nánast farandbikar konungsfjölskyldna Evrópu, þótt vissulega hefðu merk mannúðarsamtök, fræðimenn og baráttufólk fyrir réttindum flóttamanna fengið verðlaunin.

Herbergisþerna um helgar

Svana Friðriksdóttir var ekki fædd með silfurskeið í munni við konungshirð í Evrópu. Hún er fædd í Hólmavík 1951 þar sem hún ólst upp til þrettán ára aldurs, en þá flutti hún í Kópavog. Hún hafði alist upp hjá afa sínum og ömmu en þau voru látin þegar hér var komið við sögu. Hún varð því að sjá sér farborða í enn ríkari mæli en ella. Hún vann fyrir sér á kvöldin og um helgar sem herbergisþerna á Hótel Sögu meðfram námi sínu í Kennaraskólanum.

Auk þess gaf hún sér tíma til að taka þátt í skátastarfi í heimabæ sínum. Hún og skátasystur hennar í Skátafélaginu Kópar brugðust við af krafti þegar ýmis íslensk félagasamtök fylktu liði um sam-norrænt átak til stuðnings flóttamönnum í Afríku.

Í kjölfar Bíafrastríðsins í Nígeríu (1967-1970) varð vitundarvakning um málefni Aríku í hinum vestræna heimi. Árið 1971 hleyptu mannúðarsamtök af stokkunum átaki og fjársöfnun til stuðnings flóttamönnum í Afríku. Hér á landi var átakið kallað „Flóttafólk 71″.

Gengið í hvert hús

„Það var gengið í nánast hvert einasta hús hér á landi,” rifjar Svana upp. Skátarnir í Kópavoginum voru engin undantekning en ýmis félagasamtök lögðu lóð sín á vogarskálarnar og munaði ekki minnst um Rauða kross-félögin. „Ég gaf mér góðan tíma í þetta en við vorum nokkrar skátasystur sem vorum mjög virkar við undirbúning þessarar landssöfnunar.“

Mikið fé safnaðist á Norðurlöndunum eða alls 520 milljónir króna (á Norðurlöndum). Ákveðið var að hvert Norðurlandanna skyldi tilnefna fimm úr hópi ungs fólks sem tók þátt í söfnuninni til verðlaunanna. Ekki er fyllilega ljóst hvers vegna Svana varð fyrir valinu til að taka við verðlaununum fyrir hönd unga fólksins. „Mér fannst þetta svolítið einkennilegt því ég gerði ekkert meira en aðrir,“ segir Svana.

Svo mikið er víst að árangur Íslendinga í söfnuninni skipti máli. Sadruddin Aga Khan forstjóri UNHCR, Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, benti sérstaklega á þegar hann tilkynnti um verðlaunin að Íslendingar hefðu verið einstaklega örlátir og að meðaltali hefði hvert mannsbarn látið 40 krónur af hendi rakna. „Þetta er athyglisvert fyrir þær sakir hve Ísland er fjarri Afríku og Asíu þar sem flóttamannaástandið er hvað alvarlegast.“

Fulltrúi sjálfboðaliða

Svana hélt til Genfar ásamt Davíð Scheving Thorsteinsson formanni Flóttamannaráðs til að taka við verðlaunum úr hendi Aga Khan 4. október 1971.

Nansen verðlaunin
Svana í fundarsal Palais des Nations – sama stað og hún veitt Nansen-verðlaunum viðtöku tæpri hálfri öld fyrr.

„Svana Friðriksdóttir er fulltrúi allra þeirra sjálfboðaliða sem söfnuðu fé af svo miklum krafti að nærri lætur að þeir hafi heimsótt hvert heimili í löndunum fimm,“ sagði Aga Khan.

„Ég tek við þesum verðlaun með mikilli ángæju fyrir hönd þúsunda sjálfboðaliða á Norðurlöndum sem í raun ættu að vera hér í minn stað“ sagði Svana í ræðu sem hún flutti þegar hun tók við verðlaununum. „Ég er viss um að við höfum öll látið til okkar taka í því skyni að deila með þeim sem minna mega sín. Jafnframt til að vinna á raunhæfan hátt í þágu betri heims.“

Í fréttum hér á landi kom fram að auk þess að stunda nám starfaði Svana sem herbergisþerna á hóteli, en af einhverjum ástæðum þótti ekki við hæfi að geta þess ytra.

Jákvæðni og gleði

En stúdínan og herbergisþernan fékk verðlaunin sem kóngar og prinsessur höfðu fengið á undan henni í Þjóðahöllinni – Palais des nations – í Genf. Saumaður var síðkjóll á Svönu svo hún væri sómasamlega til fara við athöfnina og í veislum sem haldnar voru verðlaunahafanum til heiðurs í Genf.


„Það var mikil jákvæðni og gleði ríkjandi þarna,“ segir Svana.

Fljótlega eftir að Svana kláraði kennarapróf hélt hún ásamt eiginmanni sínum Jóhanni P. Malmquist prófessor emeritus til Pennsylvaníu í Bandaríkjunum þar sem hann stundaði doktorsnám í tölvunarfræði. Síðar lagði hún stund á nám í listfræði og arkitektúr og hefur stundað kennslu um árabil. Nú hyllir undir starfslok því hún verður sjötug á gamlaársdag.

Þann 4. október 2011 þegar fjörutíu ár voru liðin frá því að Svana fékk Nansen-verðlaunin bauð hún samstarfsfólki upp á veitingar og sagði aðeins frá Nansen-verðlaununum, en annars hefur hún lítt flíkað þessari upphefð. „Ég var annars ekki mikið að segja frá þessu,“ segir hún.

Börnin léku með medalíurnar

Börnunum hennar þremur var vissulega kunnugt um Nansen-verðlaunin og höfðu stundum leikið sér með medalíuna sem fylgdi verðlaununum. Svana segir ekki loku fyrir það skotið að hún ætli að segja barnabörnum frá þessu, nú hálfri öld síðar.

Svana segist ekki hafa unnið mikið við góðgerðamál eða í sjálfboðaliðastarfi á þessum tíma sem liðinn er. „Kannski er ekki alveg laust við að ég hafi haft hálfgert samviskubit yfir því.“

Nansen-verðlaunin heita í höfuðið á Friðþjófi Nansen. Hann varð fyrst frægur fyrir að fara þvert yfir Grænlandsjökul á skíðum, en eftir fyrri heimsstyrjöldina varð hann yfirmaður flóttamannahjálpar Þjóðabandalagsins, undanfara Sameinuðu þjóðanna.

Auk fyrirrennara Svönu sem verðlaunahafa, sem þegar er getið um, má nefna Richard von Weizsäcker forseta Þýskalands, Valéry Giscard d´Estaing forseta Frakklands, Sonju krónprinsessu Noregs, bandaríska þingmanninn Edward Kennedy, Luciano Pavarotti óperusöngvara, Graça Machel forsetafrúa Suður-Afríku og  samtökin Lækna án landamæra og Handicap International.

Núverandi Nansen verðlaunahafi er Mayerlín Vergara Pérez frá Kólombíu sem hlaut þau fyrir fórnfúst starf í þágu flóttamanna frá Venesúela.