Skorað á Norðurlönd að flytja konur og börn heim frá Sýrlandi

0
706
Mannréttindasérfræðingar
UNICEF/Bakr Alkasem Börn í Ar-Raqqa

Mannréttindasérfræðingar Sameinuðu þjóðanna skora á ríkisstjórnir fjögurra Norðurlanda að fallast á að flytja konur og börn heim frá búðum í Sýrlandi.

Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð eru á meðal 57 ríkja sem eiga þegna sem eru þar í haldi. Þau eru í Al Ho log Roj búðunum í norðaustur Sýrlandi og komast hvorki lönd né strönd. Ástandið í búðunum er talið mjög alvarlegt út frá mannúðarsjónarmiðum.

 Fionnuala Ní Aoláin sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um vernd mannréttinda í baráttunni gegn hryðjuverkum er efst á lista tuttugu sérfræðinga á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem skrifað hafa ríkisstjórnum ríkjanna 57 opinbert bréf. 

Aðbúnaði líkt við pyntingar

Mannréttindasérfræðingar
UNICEF/Omar Albam

64 þúsund manns, aðallega konur og börn eru í búðunum í Sýrlandi. Næstum 10 þúsund þeirra eru útlendingar, þar á meðal Danir, Finnar, Norðmenn og Svíar.

„Ríkjum ber skylda til að vernda varnarlausa einstaklinga af kostgæfni og taka jákvæð skref og grípa til skilvirkra ráða. Hér er aðallega um konum og börn að ræða sem eru utan heimalands síns á svæði. Hætta er á mannréttindabrotum og afbrotum,“ segja sérfræðingarnir í bréfi sínu.

Fréttir hafa borist af auknu ofbeldi í búðunum frá byrjun þessa árs.

„Tugir þúsunda sem eru í haldi í búðunum eiga á hættu að sæta ofbeldi, misþyrmingum, misnotkun og líða skort. Aðstæður þeirra eru svo slæmar að líkja má við pyntingar eða aðra grimmilega, ómannúðlega eða lítillækkandi meðferð eða refsingu samkvæmt alþjóðalögum. Þeim standa engin úrræði til boða. Óþekktur fjöldi hefur þegar látist vegna aðbúnaðar í fangavistinni,“ segja sérfræðingarnir.

Þeir minna ríkisstjórnir einnig á að heimflutninga-ferli beri að vera í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög. Þannig beri ríkjum að forðast hvers kyns aðgerðir sem myndu stuðla að brotum á mannréttindum einstaklinga við komu til heimalands síns. Þá beri að veita fólkinu fullnægjandi félagslegan-, sálfræðilegan-, og menntunarstuðning við heimkomuna. Sérstaklega ber að hafa í huga kynbundin sálræn áföll sem konur og stúlkur hafi orðið fyrir.