Skuldir þróunarríkja eftir Panitchpakdi Supachai, framkvæmdastjóra UNCTAD

0
500

 Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun (UN Conference on Trade and Development (UNCTAD)) þingar á fjögurra ára fresti og heldur tólfta fund sinn 20. til 25. apríl í Accra í Gana.  Panitchpakdi Supachai er framkvæmdastjóri UNCTAD og skrifaði þessa grein í tilefni fundarins:

Þróunarríkin fylgjast uggandi með fjármálakreppunni í Bandaríkjunum en telja sig enn sem komið er vera í vari fyrir afleiðingunum. Ástand efnahagsmála í heiminum er hins vegar viðkvæmt ekki síst ef tap fjármálageirans í Bandaríkjunum og Evrópu teygir anga sína um víða veröld. 
Það er ekki útilokað að slíkt gerist enda eru fjármálamarkaði í sífellt ríkari mæli tengdir og háðir hverjir öðrum.Ef það gerist er hætta á að sá árangur sem þróunarríki hafa náð í að vinna á skuldum sínum tapist, bæði hvað varðar getu til að standa undir afborgunum og samsetningu skuldanna. Fátækustu ríkin gætu farið verst út úr því.

Af þessum sökum er viðfangsefni næsta þings Ráðstefnu um viðskipti og þróun UNCTAD XII í Accra í Gana, sérstaklega brýnt. Þar verður til umræðu ný stefnumótun um erlendar skuldir sem er mikilvægur liður í bættri uppbyggingu efnahagsmála heimsins. 

Góðu fréttirnar eru þær að ef litið er til þróunarríkjanna í heild eru nettó erlendar skuldir þeirra ekki lengur vandamál að því leyti að metaukning varð í gjaldeyrisforða þeirra 2007 en hann var álíka mikill og erlendu skuldirnar árið 2006.  Sum þeirra njóta verulegs hagvaxtar auk þess sem erlendar eignir eru meiri en skuldir. 

Athyglisverðast er að hlutfall innlendra og erlendra skulda þróunarríkja sem hlutfall af landsframleiðslu hefur minnkað um nærri fimm prósent á síðustu sex árum. Hlutfall opinberra skulda ríkisstjórna við erlenda lánadrottna hefur einnig minnkað en mjög mismunandi eftir heimshlutum. Þannig nema erlendar skuldir minna en 30% af opinberum skuldum í austur og suður Asíu en meir en 55 % í Austur-Evrópu.

Þetta er merkilegt að því leyti að þetta bendir til aukinnar lántöku innanlands og sýnir að aðgangur að erlendu lánsfé er ekki öllum ríkjum nauðsynlegur, að minnsta kosti ekki alltaf. Sumar rannsóknir benda til að það auki frekar en minnki hagvöxt ef ríki hafa minni aðgang að erlendu fjármagni hvort heldur sem er hlutafé eða lánsfé. Þetta brýtur í bága við þá skoðun sem áður var ríkjandi að aðgangur að utanaðkomandi fjármagni væri skilyrði fyrir hagvexti í fátækum ríkjum. 

Það hafa orðið verulegar breytingar á samsetningu lántakenda og lánadrottna. Þannig minnkuðu langtímaskuldir opinbera geirans við opinbera lánadrottna, hvort heldur sem er tvíhliða eða fjölþjóðlega,  úr 50% árið 2000 í 42% árið 2006. Á sama tíma minnkaði hlutfall langtímaskulda við einkageirann úr 71% í 59%. 

Á heildina litið sýnir tölfræði um skuldir þróunarríkja minni halla á viðsktipum við útlönd, lægra hlutfall erlendra skulda og aukinn gjaldeyrisforða. En þessum gæðum er misskipt. Mörg lítil þróunarríki búa enn við miklar erlendar skuldir og ekki hefur verið staðið við loforð um að skuldauppgjöf verði ekki dregin frá þróunaraðstoð. Mikill munur er á milli heimshluta. Hlutfall erlendra skulda sumra Asíuríkja er lágt á meðan Austur-Evrópu og Mið-Asíuríki glíma við hátt og vaxandi hlutfall.  

Ný stefnumótun um erlendar skuldir ætti að greina á milli þess að það er eitt að geta ekki borgað af skuldum og annað að hafa lítinn aðgang að erlendu fjármagni. Oft er ekki um greiðsluþrot að ræða heldur skort á erlendu reiðufé. Stórskuldug ríki eiga erfiðara með að fá lán, þótt þau hafi mesta þörf fyrir arðvænlegar fjárfestingar til að að greiða lánadrottnum sínum. Af þessum sökum þyrfti að styðja við bakið á þróunarríkjum til að koma sér upp nýjum úrræðum í fjármálum og stofnunum sem henta þörfum þeirra. 

Önnur ríki hafa efni á því að taka meiri lán en það kann að hafa slæm áhrif á efnahagslega- og félagslega þróun. Ekki ber að refsa ríkjum fyrir lágar skuldir og betri efnahagsstjórn með því að neita þeim um þáttöku í skuldauppgjafaráætlunum. Afborganir af lánum geta verið jafnt ríkjum með lágar og meðaltekjur, þungar í skauti. 

Lágtekjuríki eiga oftast í höggi við opinbera lánadrottna á meðan meðaltekjuríki hafa meiri skuldir við einkageirann. Báðar tegundir ríkja þurfa á hjálp að halda þegar lánakreppa skellur á. Grípa þarf til aðskilinna en tengdra úrræða fryrir þessa ríkjahópa. Til að hindra lánakreppu er þörf á nánari og skjótari upplýsingum um heildar opinberar skuldir en ekki eingöngu um erlendar skuldir.  

UNCTAD XII þingið er kjörinn vettvangur til að fara í saumana á nýjum og jákvæðum fréttum af skuldastöðu þróunarríkja eftir heimshlutum og þróunarstigi. Það er líka tækifæri til að fitja upp á úrræðum sem gera öllum þátttakendum í efnahagslífi heimsins kleift að þokast áfram. Það er öllum til hagsbóta.