Skyldan til að ná árangri, eftir Ban Ki-moon

0
421

Síðasta ár var okkur öllum erfitt. Ég hef kallað það “ár hinna mörgu kreppa.” Útlit er fyrir að næsta ár verði ekki betra.  

Þær áskoranir sem blasa við árið 2009; frá loftlagsbreytingum til efnahagskreppu, munu reyna sem aldrei fyrr á staðfestu okkar og góðan vilja. 

Í mannréttindamálum er talað um skylduna til að vernda. Í  víðari skilningi mætti tala um skylduna til að ná árangri.  Ef við lítum um öxl, þá myndi ég segja í fyllstu hreinskilni að árangur okkar á árinu 2008 væri misgóður. 

Ég er ánægður með hvernig ríki heims hafa þjappað sér saman andspænis efnahagssamdrætti. Engu að síður óttast ég að það sem blasi við sé aðeins byrjunin. Kreppan mun reyna mjög á þá alþjóðlegu samstöðu sem er lykill að sérhveri lausn.

Ég er ánægður hvernig við brugðumst við náttúruhamförum frá Myanmar til Haítí. Þó er ég óánægður með að ríkisstjórn Myanmar hafi ekki staðið við loforð um lýðræðislegar samræður og lausn pólitískra fanga.

Ban Ki-moon, fer yfir árið á starfsmannafundi hjá Sameinuðu þjóðunum í New York 5. janúar 2009.

Sveitir Sameinuðu þjóðanna hafa haldið sínu striki í Lýðveldinu Kongó og sýnt hetjuskap við erfiðar aðstæður. En okkur hefur þó ekki tekist að vernda saklausa borgara gegn ofbeldisverkum. Við göngumst undir prófraun í mannréttindamálum á mörgum stöðum og ólíkan hátt. Við verðum að halda fast í þau grundvallaratriði sem felast í Mannréttindayfirlýsingunni. 

Matvælakreppan

Ég held að okkur hafi tekist vel upp í einu af stærstu málum síðasta árs. Matvælakreppan tröllríður ekki lengur fréttum en hún hefur þó ekki horfið. Sameinuðu þjóða kerfið, hefur tekist á við alla þætti þessa margslungna vandamáls sem snertir næringu, landbúnaðarframleiðslu, viðskipti og félagslega vernd. Við erum komin vel áleiðis í því að breyta áratugagömlum áherslum í landbúnaðarmálum og opinberri heilsugæslu, sem eru lykilatriði í viðleitni okkar við að ryðja brautina fyrir Þúsaldarmarkmiðunum um þróun og vernda þá sem eiga um sárast að binda vegna loftslagsbreytinga, fátæktar og efnahagskreppu.

Stærsta málið loftslagsbreytingar
.  
Af öllum þessum áskorunum er engin eins mikilvæg og loftslagsbreytingar. Fyrir nokkrum vikum, sótti ég ráðstefnu með leiðtogum margra ríkja heims í Poznan í Póllandi. Þar var staðfest að ekki er hægt að bíða með að takast á við loftslagsbreytingar þar til efnahagskreppunni lýkur. Flestir tóku undir með mér að þörf er á “nýrri grænni lausn.” Fjárfestingar í vistvænni tækni ætti að vera hluti af hvers kyns alþjóðlegu átaki til að efla efnahagslífið.  

Allir voru sammála um að það mætti engan tíma missa. Það eru aðeins 12 mánuðir til leiðtogafundarins í Kaupmannahöfn. Við verðum að ljuka nýjum loftslagssáttmála fyrir árslok 2009. Samkomulagið verður að vera heildstætt, einkennast af jafnvægi og vera ásættanlegt fyrir allar þjóðir.  

Árangur krefst einstakrar forystu. Ég mun sjálfur halda áfram að ýta á eftir árangri og reyna að fylkja liði til að efla pólitískan vilja. Ég stefni að því að boða til leiðtogafundar um loftslagsmál í byrjun 64. Allsherjarþingsins. Ég býst þó við að nauðsynlegt reynist að leiðtogar heimsins hittist fyrir þann tíma ef við ætlum að hrósa sigri í árslok 2009. Með því að starfa saman getum við staðið við skyldur okkar við jörðina og jarðarbúa: okkur ber skylda til að ná árangri.

Nýr tími fjölþjóðlegra lausna

Við ættum að líta á áskoranir ársins 2009, sem tækifæri til sameiginlegra alþjóðlegra aðgerða. Við stöndum frammi fyrir nýju tímabili fjölþjóðlegra lausna. 

Við stöndum frammi fyrir því verkefni að stöðva ofbeldi á Gasa-svæðinu og í suðurhluta Ísraels. Stigmögnun átaka og þjáningar óbreyttra borgara eru mikið áhyggjuefni. Koma verður á vopnahléi án tafar.

Alþjóðlegir aðilar og nágrannaríki verða að beita áhrifum sínum til að endurvekja viðræður sem voru farnar að skila nokkrum árangri þegar upp úr sauð. Það er brýnt að Ísraelar og Palestínumenn taki upp þráðinn aftur og leiti leiða til friðar.

Öryggi hefur batnað verulega í Írak. Stefnt er að staðbundnum kosningum nú í janúar. Ég hvet íraska leiðtoga til að starfa saman í endrægni, nú þegar þeir öðlast full yfirráð yfir eigin málum. Allt þetta krefst öflugs stuðnings Sameinuðu þjóðanna sem við munum sannarlega láta í té. 

Mannúðarástandið í Simbabwe versnar dag frá degi. Þjóðin stendur á barmi, efnahagslegs-,  félagslegs- og pólitísks hruns.Ég dró ekki dul á þetta þegar ég hitti Robert Mugabe, forseta að máli á leiðtogafundinum í Doha. Hann lofaði að leyfa sendimanni mínum að koma til Simbabwe í því skyni að greiða fyrir pólitískri lausn. Í kjölfarið var okkur hins vegar tjáð að tíminn væri ekki réttur. Ef rétti tíminn er ekki núna, hvenær er hann þá? 

Í Sómalíu er mikil og raunveruleg hætta á stjórnleysi. Það er brýn þörf á að grípa til aðgerða. Í síðustu viku lagði ég til við Öryggisráðið að stigin yrðu ákveðin skref til að efla friðarferlið sem kennt er við Djibouti. Til að svo megi verða þarf að takast á við sjórán og tryggja að hægt sé að veita mannúðaraðstoð með því að efla núverandi starf Afríkusambandsins í Sómalíu og hefja undirbúning fyrir hugsanlega friðargæslu Sameinuðu þjóðanna.  

Ég hef líka áhyggjur af versnandi mannúðar- og öryggisástandi í Afganistan. Þörf er á pólitísku átaki og nýrri, skýrri stefnumótun. Við höfum gefið íbúum þessa stríðshrjáða lands mörg loforð. Það er skylda okkar að standa við þau. 

Auknar kröfur til SÞ

Kröfurnar sem gerðar eru til Sameinuðu þjóðanna eru sífellt að aukast. Þær áskoranir sem við er að glíma, eru í sívaxandi mæli þess eðlis að þau krefjast samvinnu ríkja. Vandamálin krefjast þess að við leggjumst öll á eitt, ríkar þjóðir og fátækar, norður og suður, þróuð ríki og þróunarríki.  

Á síðasta ári sat ég meir en 700 fundi við einstaka ráðamenn; þar á meðal 350 fundi með forsetum, forsætisráðherrum og utanríkisráðherrum. Ég var 103 daga á ferðalögum, heimsótti 35 ríki og flaug meir en 400 þúsund kílómetra. 

Fjöldi tryggir ekki alltaf árangur en þetta er þó til marks um viðleitni okkar. Heimurinn krefst þess. Það er skylda okkar að ná árangri.

Höfundur er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.