Spánardrottning afhendir SÞ-verðlaun

0
417

Grafíski hönnuðurinn Trine Sejthen frá Danmörku sigraði í keppni Sameinuðu þjóðanna í Evrópu um bestu auglýsinguna til höfuðs ofbeldi gegn konum. Sofía Spánardrottningin afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Caixa Forum í Madríd að viðstöddum háttsettum embættismönnum Sameinuðu þjóðanna og spænskum ráðamönnum.

Fyrstu verðlaun voru 5.000 Evrur en skipuleggjandi keppninnar var UNRIC, Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Vestur-Evrópu með stuðningi UN Women.
Í sigur-auglýsingunni “Ofbeldi er ekki alltaf sýnilegt”, er áherslan lögð á hversu hulið ofbeldi gegn konum oft er. Trine Sejthen sagði þegar hún tók við verðlaununum að auglýsing hennar væri einfaldlega ljósmynd af vinkonu hennar; venjulegri konu. “Þótt Heidi vinkona mín sé falleg kona, er hún ekki dæmigerð forsíðustúlka. Hún er raunveruleg…Ég vildi að hún gæti verið systir þín, besti vinur eða konan við hliðina á þér í strætó.”

Meir en 2.700 auglýsingar bárust í keppnina frá 40 Evrópuríkjum. Íslendingur sigraði í sams konar keppni á síðata ári, en að þessu sinni komst ein íslensk auglýsing í úrslit en höfundurinn er Elsa Nielsen, grafískur hönnuður.

 

 

Formaður dómnefndar var hinn þekkti franski auglýsingamaður Jacques Séguela. Hann sagði þegar hann afhenti verðlaunin að móðir sín hefði ungum kennt sér að beita konur aldrei ofbeldi ef hann vildi vera sonur hennar. “Maður á aldrei að leggja hendur á konur, þær má ekki einu sinni berja með blómi.”

 Afsané Bassir-Pour, forstjóri UNRIC, sagði að það hefði komið skipuleggjendum á óvart hversu mikið ofbeldi hefði verið sýnt í auglýsingunum. “Ofbeldi, snertir, því miður alltof margar konur. Það verður að rjúfa þagnarmúrinn sem umlykur þetta ofbeldi.”  

Mörg dagblöð hafa birt sigur auglýsinguna, þar á meðal Fréttablaðið sem tilheyrir fjölmiðlabandalagi Sameinuðu þjóðanna um þetta málefni í Evrópu. Úrval auglýsinganna hefur einnig birst í Nýju lífi.
Markmiö keppninnar er að auka vitund um þetta vandamál sem talið er að snerti þriðju hverja konu í heiminum.

Auk sigurvegara sem dómnefnd valdi, kaus almenningur sína uppáhalds auglýsingu á netinu og greiddu 120 þúsund atkvæði. Sigurvegari í þeirri kosningu var Gjioke Gojani frá Kosovo. Besta auglýsing frá hönnuði yngri en 25 ára var valin “Orð” eftir Raphaelle Moreau frá Frakklandi.

Þrjátíu bestu auglýsingarnar, þar á meðal auglýsing Elsu Nielsen verða sýndar á sýningum í stórborgum í Evrópu og má nefna Brussel, Moskvu, Prag, París, Róm, Kænugarð og Kaupmannahöfn.