Spilling: Ekki bara peningar undir borðið

0
476

 

corruption

7. desember 2012. Spilling tekur á sig fleiri myndir en maður ímyndar sér í fyrstu. En spilling er heldur ekki jafn óumflýjanleg og hún virðist vera við fyrstu sýn.

Þetta segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi á Alþjóðlega deginum til höfuðs spillingu, 9. desember.    

En hvað er eiginlega spilling? Og hversu algeng er hún? Erfiðara er að fást við spillingu en marga aðra glæpi sökum þess hversu leynt hún fer og því uppgötvast hún sjaldan.
 
Að þessu sinni er kastljósinu beint að afleiðingum spllingar á alþjóðlega degi baráttunnar gegn henni. Eða eins og Ban Ki-moon orðar það: ”Kostnaðurinn við spillingu mælist ekki aðeins í þeim milljörðum dala sem fara til spillis af almannafé, þegar greipar eru látnar sópa um eignir ríkisins. Kostnaðurinn nær einnig til skólanna, sjúkrahúsanna, veganna og brúna sem ekki sjá dagsins ljós og hreina vatnsins sem almenningur nýtur ekki sökum spillingar.”
 
Spilling getur verið allt frá því að borga fé undir borðið, til frændhygli og klíkuskapar. Transparency International skilgreinir spillingu sem “misnotkun valds sem einhverjum er falið í þágu eigin hagsmuna.“ Samkvæmt nýrri skýrslu stofnunarinnar 2012 corruption perceptions index teljast Norður-Kórea, Afganistan og Sómalía til spilltustu landa heims en ekkert Norðurlandanna er ofarlega á þeim lista.
 
Þar með er ekki sagt að spilling þrífist ekki á Norðurlöndum. Mikil umræða var í Finnlandi árið 1999 um hvort dómarar sem eru frímúrar mættu dæma í málum sem reglubræður þeirra ættu hlut að. Málið endaði í Mannréttindadómstólnum í Strassborg en ekki þótti sannað að tjltekinn dómari hefði verið hlutdrægur.

Í kjölfarið (2002) voru settar reglur um að dómarar skyldu skýra frá því hvort þeir væru frímúrar í því skyni að auka gagnsæi hjá dómstólum.

Hneykslismál um meinta frændhygli menningarráðherrans danska lauk með afsögn hans nú 5. desember. Honum var gefið að sök að hafa látið sex milljónir danskra (130 milljónir ísl. króna) renna til nýrrar menntabrautar í tengslum við fjölleikahús. Þetta væri ekki í frásögur færandi ef ráðherrann hefði ekki áður verið stjórnandi hjá AFUK, sem býður upp á þessa menntun, auk þess sem sambýlingur hans starfar þar. Að auki hefur Menningarráðuneytið haldið samkomur á sama stað fyrir 180 þúsund danskar krónur eða 4 milljónir íslenskra króna.

Evrópuþingið er heldur ekki alveg laust við spillingu. Á síðasta ári voru þrír Evrópuþingmenn sakaðir um að hafa þegið mútur í skiptum fyrir að leggja fram frumvörp. Sumir telja að það sé barnaskapur að halda að þetta séu einangruð tilfelli og hvetja til aukins gagnsæis í lagasetningarferlinu.

Spilling grefur undan þróun, lýðræði og hinu opna samfélagi. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir: ”Spilling er ekki óumflýjanleg. Ég hvet alla, alls staðar til þess að vinna að því að hlúa að sjálfbærri framtíð þar sem spilling á sér engan griðastað, komið er upp um hana og henni hafnað.”

Mynd: UNODC South Eastern Europe