SÞ 70 ára: heimurinn baðaður í bláu

0
460
Blueun701

 Blueun701
(New York, Brussel. 21.október 2015) Harpa, forsætisráðuneytið, Ráðhúsið í Reykjavík og Friðarsúlan í Viðey eru á meðal meir en tvö hundruð þekktra minnismerkja um allan heim sem verða baðaðar í hinum bláa opinbera lit Sameinuðu þjóðanna til að minnast sjötugsafmælis samtakanna á degi Sameinuðu þjóðanna 24.október 2015.

Heimsþekkt minnismerki og byggingar um víða veröld allt frá Óperuhúsinu í Sidney til Píramídanna í Egyptalandi, Kristsstyttunni í Rio til Kínamúrsins, og Litlu hafmeyjunnar til Empire State Building í New York verða flóðlýst í bláum lit.

Bláum ljósum verður einnig beint að Hermitage safninu í Rússlandi, fornleifasvæðinu í Petra í Jórdaníu, Skakka turninum í Pisa, Edinborgar kastala í Skotlandi og Alhambra á Spáni.

Sama verður upp á teningnum í höfuðborgum Norðurlandanna þar sem Litla hafmeyjan og Tivolí í Kaupmannahöfn, Ráðhús Oslóar, Globen í Stokkhólmi og Dómkirkjan í Helsinki verða umlukin blárri birtu, auk fyrrnefndu bygginganna fjögurra í Reykjavík.

,,70 árum eftir stofnun Sameinuðu þjóðanna er nær óhugsandi að ímynda sér heiminn án þessara merku samtaka,” segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. ,,Þau eru ekki aðeins áhrifamesti pólítíski vettvangur veraldar, heldur treystum við því að mannúðarstofnanir Sameinuðu þjóðanna séu í fararbroddi þegar mest ríður á; Flóttamannastofnun. Barnahjálp og Matvælaaðstoð svo dæmi séu nefnd. Barátta samtakanna fyrir mannréttindum og jafnrétti hefur skilað miklum árangri og er hvatning fyrir allar aðildarþjóðirnar. Það er okkur á Íslandi sönn ánægja að taka þátt í þessu verkefni, enda er heimurinn betri fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna en annars væri.“

Imagine peace1Dagur B.Eggertsson, borgarstjóri tekur í sama streng. „Reykjavíkurborg sendir Sameinuðu þjóðunum afmæliskveðjur á þessum merka degi með því að lýsa upp ráðhúsið í bláum lit til heiðurs stofnuninni sem hefur frá upphafi – verið leiðandi afl í mannréttinda- og friðarmálum í heiminum.“

Alheimsherferðin hefst á Nýja Sjálandi og síðan tekur Ástralía við þegar kveikt verður á bláu ljósunum við Óperu húsið í Sidney við sólarlag og svo koll af kolli um allan heim.

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna munu ljóma blábjartar í tvö kvöld og verður kveikt á bláu flóðljósunum 23.október þegar árlegir tónleikar í tilefni dags Sameinuðu þjóðanna er haldinn og svo haldið áfram kvöldið eftir.

„Ég er þakklátur aðildarríkjunum fyrir að sýna þennan áþreifanlega stuðning við 70 ára starf Sameinuðu þjóðanna við að koma á friði, efla þróun og vernda mannréttindi,” segir Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. „Með því lýsa upp heiminn í bláum lit Sameinuðu þjóðanna í einn dag, lýsum við upp leiðina til bjartari morgundags.”

Fjallað verður um þennan heimsatburð á samskiptamiðlum og verður notað myllumerkið
#UNBlue auk #UN70 og myndum og umfjöllun deilt með þeim milljónum manna sem fylgjast með starfi Sameinuðu þjóðanna á Instagram, Facebook, Twitter, Weibo, Flickr og víðar. Hægt verður að nálgast myndir og myndbönd í hágæða upplausn á UNIFEED og Flickr.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um þessa heimsherferð og sjötugs afmæli Sameinuðu þjóðanna um allan heim hér: www.un.org/UN70.

(Fréttatilkynning frá UNRIC)
________________________________________________________________________
Nánari upplýsingar gefa:
Andi Gitow, á Frétta og fjölmiðlasviði Upplýsingadeildar SÞ [email protected], Jeffrey Brez, yfirmaður tengsla við almannasamtök hjá Upplýsingadeild SÞ [email protected] og Árni Snævarr,upplýsingafulltrúi SÞ í Brussel [email protected] + 32 497 458 088