SÞ: Einmana sænskur hermaður

0
446

 peacekeeping

Aðeins einn sænskur hermaður tók þátt í friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna um mitt síðasta ár. Sænska ríkisstjórnin liggur undir ámæli fyrir að hafa aldrei tekið jafn lítinn þátt í friðargæslu samtakanna og nú.

Ef allt er talið þá eru 52 Svíar í friðargæslu á vegum SÞ, ef hernaðarráðgjafar og lögreglumenn og konur eru taldar með og við árslok var tala hermanna raunar komin í sjö.
Félag Sameinuðu þjóðanna í Svíþjóð bendir á að innan við 30 hafi verið sendir í friðargæslu SÞ að meðaltali undanfarin sex ár, ef allt er talið. “Þetta samræmist illa þeirri hugmynd að þátttaka í Sameinuðu þjóðunum sé hornsteinn sænskrar utanríkisstefnu,” skrifa þau Aleksander Gabelic og Linda Nordin, annars vegar formaður og hins vegar framkvæmdastjóri félagsins í grein sem birtist 5. Janúar 2014.

Svíar ætluðu raunar að senda eina C-130 Hercules flutningavél og sjötíu manna lið með henni til að taka þátt í friðargæslu á vegum SÞ í Malí á síðasta ári, en hætta varð við af tæknilegum orsökum og aðeins 5 Svíar taka nú þátt í friðargæsluverkefni MINUMSA í landinu. Þá segir sænski herinn í síðustu ársskýrslu sinni að áætlað sé að taka aukinn þátt í friðargæslu á vegum SÞ.

Mið-hægri ríkisstjórn Fredriks Reinfeldt hefur undanfarin ár, að því er virðist, kosið fremur að taka þátt í verkefnum Evrópusambandsins og NATO en að senda hermenn til friðargæslu Sameinuðu þjóðanna. Svíþjóð er hins vegar í sjötta sæti þegar kemur að fjármögnun SÞ og styður friðargæslu samtakanna rausnarlega.

“Staðreyndin er sú að þátttaka Svíþjóðar í verkefnum ESB og NATO er ekki í andstöðu við starf okkar í Sameinuðu þjóðunum,” skrifuðu Sofia Arkelsten og Cecilila Widegren, formenn utanríkis- og varnarmálanefnda sænska þingsins í blaðagrein. „Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur gefið staðbundnum öryggissamtökum umboð og beðið þau um að taka að sér forystuhlutverk í sumum verkefnum.“

En þátttaka í verkefnum ESB og NATO nægir ekki til að útskýra litla þátttöku Svíþjóðar undir fána SÞ, að sögn fræðimannanna Michael Karlsson og Nujin Tasci við Södertörns högskola. Þau segja að öfugt við Svíþjóð hafi önnur Norðurlönd haldið áfram að taka myndarlega þátt í verkefnum undir fána Sameinuðu auk ESB og NATO verkefna. 

Heildarfjöldi Svía í hernaðarverkefnum erlendis var 468 í lok ágúst 2013 og hafði ekki verið minni í fjóra áratugi. Á hinn bóginn var aðeins einn sænskur hermaður, 30.júní síðastliðnn, að störfum á vegum Sameinuðu þjóðanna, í Suður-Súdan. Þetta er ekki einsdæmi að sögn fræðimannanna Karlsson og Tascfi því á bilinu einn til fjórir hermenn hafa verið á vegum SÞ síðastliðin fimm ár.

Fyrir 20 árum, 30.júní 1993 voru 1041 hermaður að störfum á vegum friðargæslu SÞ. Fræðimennirnir benda einnig á að starfsmenn og enn færri heremm séu við friðargæslustörf en á vegum annara hlutlausra ríkja í Evrópu, svo sem Austurríki, Finnlands og Írlands.
.

Noræn þáttaka í Friðargæslu SÞ, 30.nóvember 2013.

Finnland 364 (þar af 334 hermenn)
Denmörk 31 (14 hermenn)
Noregur 68 (16 hermenn)
Svíþjóð 52 (7 hermenn)
Ísland 0

Svíinn Hans Corell fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri SÞ segir í viðtali við Norræna Fréttabréf UNRIC að það sé mikilvægt að taka þátt í friðargæslu jafnt með fjárframlögum sem herliði. “Á sama tíma eru friðargæsluverkefnin orðin margslungnari . Það er því einnig mikilvægt að sinna hinum borgaralega hluta með því að efla dómskerfið, lýðræðið og réttarríkið. Þetta þýðir að þátttaka í friðargæslu getur einngi falið í sér að senda út af örkinni lögreglumenn, dómara og svo framvegis.” 

Undanfarin ár hefur Íslandi og Finnlandi báðum mistekist að ná kjöri sem frambjóðanda Norðurlanda til Öryggisráðsins og sama máli gegnir um framboð Svía til Mannréttindaráðsins. Ein niðurstaðnanna í úttekt the International Peace Institute á þessum hrakförum var minnkandi þátttaka Norðurlandanna í Friðargæslu SÞ.

Gabelic og Nordin hjá sænska félagi Sameinuðu þjóðanna telja að aukin þátttaka sænsks herliðs myndi verða Svíþjóð lyftistöng í framboði til Öryggisráðsins að því ógleymdu að slíkt myndi “draga úr hættu á þjóðarmorði í Mið-Afríkulýðveldinu“ ef sænskir hermenn yrðu sendir þangað.

„Sænskir hermenn hafa hlutverki að gegna á alþjóðlegum vettvangi vegna góðrar þjálfunar, fullkomins búnaðar og þekkingar á mannréttinda og kynjasjónarmiðum. Af þessum sökum myndi þátttaka Svíþjóðar efla viðleitni Sameinuðu þjóðanna.“