SÞ kannar kynjamisrétti á Íslandi

0
521

HR Council

15. maí 2013. Vinnuhópur Sameinuðu þjóðanna um kynjamisrétti er væntanlegur til Íslands.

Vinnuhópurinn sem fjallar um mismunun gegn konum í lagasetningu og í framkvæmd heimsækir Ísland dagana 16. til 23. maí meðal annars til að kanna áhrif efnahagshrunsins á efnahagsleg- og félagsleg réttindi kvenna.

 

“Vinnuhópurinn hefur sérstaklega áhuga á að meta lög og umbætur á lögum og stefnumálum sem ríkisstjórn Íslands hefur beitt sér fyrir til þess að efla réttindi kvenna og stuðla að jafnrétti kynjanna,“ segir Kamala Chandrakirana, sem stýrir sérfræðingahópnum. „Við munum sérstaklega huga að félagslegu- og efnahagslegu lífi kvenna, einkum á tímum efnahagskreppu.“

Chandrakirana og Frances Raday, eru í vinnuhópnum sem mun fara í saumana á áhrifum hrunsins á réttindi kvenna og á aðgerðum sem hefur verið gripið til í því skyni að milda áhrifin. Vinnuhópurinn mun hitta embættismenn ríkis og sveitarfélaga, fulltrúa almannasamtaka auk sérfræðinga og fræðimanna í Reykjavík, Akureyri og Dalvík.

Vinnuhópurinn mun taka saman skýrslu og kynna niðurstöður sínar og ráðleggingar á vettvangi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í júní 2014.

Vinnuhópur um mismunun gegn konum í lögum og í reynd er skipaður fimm sjálfstæðum sérfræðingum frá öllum heimshlutum. Þeir eru: Kamala Chandrakirana, formaður (Indónesíu) Emna Aouij (Túnis); Patricia Olamendi Torres (Mexíkó); Frances Raday (Ísrael/Bretlandi) og Eleonora Zielinska (Póllandi). Nánari upplýsingar: http://www.ohchr.org/EN/Issues/Women/WGWomen/Pages/WGWomenIndex.aspx

Mynd: Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í Genf. SÞ-mynd/JM Ferré.