SÞ: Parísarfundur „gerir ekki kraftaverk“

0
419
Figueres 09 2015 58

Figueres 09 2015 58

16.september 2015. Æðsti yfirmaður loftslagsmála hjá Sameinuðu þjóðunum segir að nýr loftslagssáttmáli muni ekki koma í veg fyrir að hitastig á jörðu hækki um minna en 2 gráður.

Christiana Figueres, forstjóri Rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (UNFCCC) sagði á blaðamannafundi í Brussel að fyrirheit einstakra ríkja, sem skilað hefði verið inn til stofnunarinnar sem hún veitir forstöðu, nægi ekki til að draga svo mikið úr losun gastegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum, að það dugi til að ná þessu marki.

Vísindamenn telja að þolmörk jarðar liggi við tveggja gráðu markið, meiri hlýnun muni hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Meir en 60 ríki hafa skilað áætlunum sínum inn til UNFCCC og bera þau ábyrgð á meir en 70% losunar koltvýserings.

„Það er staðreynd að með því að leggja saman niðurstöður þessara áætlana, næst tveggja gráðu markið ekki,“ sagði Figueres á blaðamannafundinum. „Ég vil að þetta sé alveg skýrt, því það er ekki sanngjarnt að almenningur haldi að það finnist töfralausn í París. Staðan eins og hún er nú, bendir frekar til þess að hlýnun jarðar verði 3 gráður, en yrði á bilinu 4 til 5 stig, án samkomulags.“

Figueres sagði að leiðtogafundurinn í París muni taka fyrstu skrefin í langri þróun.

„Þrjár gráður eru mun betra en fjórar til fimm gráður, en þetta er samt ekki ásættanlegt,“ bætti hún við.
Hún sagði að hins vegar þýddi nýtt samkomulag verulega breytingu frá því sem yrði, ef ekkert væri að gert.

Mynd: UNRIC. Christiana Figueres til hægri, Afsané Bassir-Pour, forstjóri UNRIC til vinstri.