Staðreyndir um jarðsprengjur

0
646
  • Talið er, að meira en 110 milljónir virkra jarðsprengja séu dreifðar um 70 lönd, og að álíka fjöldi sé geymdur í birgðageymslum víða um heim, tilbúnar til afnota.
  • Á hverjum mánuði deyja meira en 2.000 manns eða hljóta líkamsáverka við sprengjur af völdum jarðsprengja. Flest fórnarlömbin eru óbreyttir borgarar, sem stíga á eða aka yfir jarðsprengju, eftir að óeirðum er lokið
  • Í stað sérhverrar jarðsprengu sem fjarlægð er, er 20 nýjum komið fyrir. Árið 1994 voru um það bil 100.000 jarðsprengjur fjarlægðar – en um 2 milljónum komið fyrir.
  • Kostnaðurinn við að fjarlægja allar 110 milljónirnar af virkum jarðsprengjum er talinn nema um 33 milljörðum bandaríkjadollara. Margir sérfræðingar halda því fram, að miðað við núverandi ástand muni það taka meira en 1.100 ár að fjarlægja allar jarðsprengjur í heiminum – svo framarlega sem engum nýjum verði komð fyrir.
  • Notkun jarðsprengja hefur aukist gífurlega á síðustu 20 árum. Tilgangurinn er að hafa í frammi ógnir við almenna borgara. Jarðsprengjur eru meðal annars notaðar til að hindra aðgengi að landbúnaðarjörðum, áveituskurðum, vegum, fljótum og opinberum þjónustuleiðum.
  • mines.jpg

  • Fórnarlömb jarðsprengja þurfa tvöfalt fleiri blóðgjafir en fólk sem hlýtur skotsár eða særist af sprengjubrotum. Fjöldi nauðsynlegra blóðeininga við uppskurði í sambandi við jarðsprengjuslys eru á bilinu 2 til 6 sinnum fleiri en við aðrar tegundir stríðsuppskurða.
  • Jarðsprengjur hindra eða seinka útsendri neyðarhjálp og dreifingu neyðargagna. Þær herða sultinn meðal hinna einangruðu íbúa.
  • Aðeins tæplega fjórðungur sjúklinga sem orðið hafa fyrir jarðsprengjum komast undir læknishendur innan sex tíma. Töluvert fleiri innan sólarhrings, en allt of margir eru lengur á leiðinni, sumir eiga fyrir höndum allt að 3 sólarhringa ferð til meðferðarstaðarins
  • Handhreinsun jarðsprengja er afar hættuleg. Fyrir hverjar 1000-2000 jarðsprengjur sem gerðar eru óvirkar verða slys.
  • Niðurgrafnar jarðsprengjur geta haldið áfram að vera virkar í meira en 50 ár. Ógnin sem stafar af þeim vofir því áfram yfir í langan tíma eftir að ófriði lýkur. Jarðsprengjur limlesta og drepa tugi þúsunda manna á hverju ári, flest fórnarlömbin eru konur og börn.

{mospagebreak title=Gaumur gefinn að vandamálinu}

Gaumur gefinn að vandamálinu

Um er að ræða tvær tegundir jarðsprengja: skriðdrekajarðsprengjur (AT) og hermanna-jarðsprengjur (AP). Skriðdrekajarðsprengjur er sérstaklega gerðar til að eyðileggja brynvarða stríðsvagna og önnur ökutæki. Þær eru frekar stórar (yfirleitt stærri en karlmannaskór) og þungar (vega yfir 5 kg). Þessar jarðsprengjur hafa að geyma nægilegt sprengjuefni til að eyðileggja það ökutæki sem rekst á jarðsprengjuna, og oft með þeim afleiðingum að þeir sem eru í ökutækinu og í nágrenninu láta lífið. Skriðdrekajarðsprengjum er komið fyrir þar sem gert er ráð fyrir að ökutæki óvinarins fari um, á vegum, brúm og stígum og einnig beggja vegna við þessar umferðaræðar.

Hermannajarðsprengjur hafa þann tilgang að særa fólk. Þær hafa minna sprengjuafl og eru miklu minni og léttari en skriðdrekajarðsprengjur. Þær geta verið á stærð við sígarettupakka og vega ekki meria en 50 gr – en þær geta líka verið miklu stærri og þyngri. Hermannajarðsprengjur eru til í mörgum gerðum og litum og eru framleiddar úr margskonar efnum.

Þrátt fyrir það að hermannajarðsprengjur geta valdið dauða fólks, er aðaltilgangurinn með þeim að valda alvarlegum limlestingum. Særðri manneskju þarf að hjálpa og það tekur drjúgan tíma og mannafla frá óvinunum. Hermannajarðsprengjum er komið fyrir á öllum hugsanlegum stöðum – á stígum, vegum, í eyðimörkum, á ökrum eða í og umhverfis byggingar.

Hermannajarðsprengjur springa á ýmsan hátt. Þrýstingur ofan á jarðsprengjuna (til dæmis ef stigið er ofan á hana), snerting á þræði eða einungis hristingur, getur komið af stað sprengingu. Þessar jarðsprengjur geta einnig sprungið, ef hlutur sem liggur ofan á þeim er fjarlægður. Auk þessa er hægt að sprengja þær með fjarstýringu.

{mospagebreak title=Jarðsprengjum komið fyrir}

Jarðsprengjum komið fyrir

Hægt er að koma jarðsprengjunum fyrir með handafli. En einnig er hægt að gera það frá flugvélum eða með aðstoð stórskotaliðs. Þegar búið er að gera jarðsprengjurnar virkar eru þær mjög hættulegar. Þar að auki er auðveldara að koma jarðsprengjunum fyrir en að fjarlægja þær aftur. Jarðsprengjur eru oft grafnar niður eða faldar svo erfitt sé að finna þær.

Hermannajarðsprengjum er yfirleitt komið fyrir á eftirtöldum stöðum:

  • umhverfis bæi
  • við götur
  • á brúm
  • við tré sem standa ein og sér
  • meðfram árbökkum

Þessum jarðsprengjum er einnig komið fyrir af handahófi og veðurfar getur haft áhrif á hvort þær færast smám saman til. Margar jarðsprengjur eru svo léttar að þær geta flotið á vatni. Eftir mikið regn getur því verið að þær séu komnar á allt annan og óvæntan stað en áður. Jarðsprengjur geta að sjálfsögðu komið upp á yfirborðið ef sandurinn sem þakti þær er fokinn í burtu eða hefur verið skolað í burtu. En hins vegar getur líka verið að þær grafist lengra niður. Eftir margra ára átök er ekki með vissu hægt að vita hvaða svæði í stríðsherjuðu landi eru laus við jarðsprengjur.

Jarðsprengjur halda áfram að vera hættulegar, jafnvel þótt þær hafi legið í jörðu í mörg ár og hafa hugsanlega færst úr stað. Eftir því sem tíminn líður geta þær líka orðið ennþá hættulegri og springa af minna tilefni í loft upp þegar þær tærast upp eða ryðga og verða viðkvæmari.

{mospagebreak title=Öryggisreglur}

Öryggisreglur

Í kennslu um jarðsprengjuhættu mun kennarinn kenna þátttakendunum í verkefninu að gefa gaum að eftirfarandi reglum:

  • Gætið ykkar á grunsamlegum hlutum;
  • Snertið aldrei eða stigið á sprengiefni eða grunsamlega huti;
  • Ef þið finnið eitthvað sem þið haldið að geti sprungið í loft upp skuluð þið koma fyrir aðvörunarskilti svo hægt sé að finna staðinn aftur og sem aðvörun fyrir aðra;
  • Aðvarið fólk og útskýrið að það má ekki koma nálægt þessum hættulega stað;
  • Látið yfirvöld vita nákvæmlega hvað þið hafið fundið;
  • Ef slys á sér stað þurfið þið að muna hvað þið hafið lært og gera nauðsynlegar ráðstafanir

Þegar búið er að slá því föstu að svæði er lagt jarðsprengjum setja yfirvöld upp stór, áberandi aðvörunarskilti. En þar sem það tekur langan tíma að finna landsvæðin þar sem jarðsprengjum hefur verið komið fyrir þurfa íbúar staðarins ávallt að vera varkárir vegna hugsanlegra jarðsprengja og ganga út frá því að engin svæði eru örugg.

Fólk sem dvelur áfram á svæðum þar sem átök hafa átt sér stað, getur hugsanlega haft vitneskju um hvar jarðsprengjunum hefur verið komið fyrir. Þetta fólk þarf að hvetja til að setja upp aðvörunarskilti.

Á fyrrverandi og núverandi styrjaldarsvæðum er jarðsprengjuhættan dagleg ógnun sem ávallt þarf að hafa í huga. Sérhver sem dvelur í löndum þar sem jarðsprengjur eru í jörðu ætti að hafa samband við staðaryfirvöld til að fá nánari upplýsingar um "örugga hegðun".

{mospagebreak title=Verndun barna}

Verndun barna

Jarðsprengjur hafa oft verið notaðar án eftirlits, til dæmis í borgararstyrjöldum, sem er augljóslega brot á alþjóðlegum mannréttindalögum og samningum um réttindi barna. Í nokkrum tilvikum hafa stríðsaðilar beinlínis haft börn í huga þegar jarðsprengjum var verið komið fyrir. Börn í Rúanda sem eftir síðustu átök þar eru komin aftur til baka til Kigali, uppgötvuðu að herlið sem nú höfðu yfirgefið svæðið höfðu komið fyrir jarðsprengjum á mörgum heimilim og í skólum.

Þrátt fyrir það, að jarðsprengjur séu notaðar í samræmi við gildandi mannréttindalög eru þær mikil áhætta fyrir börn. Það er meðal annars vegna þess að jarðsprengjurnar halda áfram að vera virkar í marga áratugi. Hermannajarðsprengja sem komið er fyrir í dag getur enn verið hættuleg um miðja næstu öld. Á áratugnum 1980-1990 létu venjulegir borgarar í Póllandi lífið í jarðsprengjuslysum sem stöfuðu af jarðsprengjum sem komið hafði verið fyrir í seinni heimstyrjöldinni.

Auk þess að drepa og limlesta fjölda barna, eru jarðsprengjur einnig ógnun fyrr landsvæðin og félagslegt líf í kringum þær. Í Angóla hafa jarðsprengjur til dæmis leitt til þess að stór landbúnaðarsvæði eru því sem næst ónothæf og afleiðingin af því er útbreiddur næringarskortur og beinlínis hungur á mörgum stöðum. Í Kambódíu þar sem eru tvöfalt fleiri jarðsprengjur en börn, var endurkoma flóttamanna frá flóttamannabúðum í Tælandi mjög erfið vegna jarðsprengja. Jarðsprengjur hindra vöruflutninga og hreyfingu vinnuaflsins. Það hefur í för með sér að löndin sem eiga við þessi vandamál að stríða eiga ennþá erfiðara með að losna út úr fátæktinni.

{mospagebreak title=Sérstaklega viðkvæm}

Sérstaklega viðkvæm

Börn eru í sérstökum áhættuhópi hvað snertir slys af völdum jarðsprengja vegna forvitni þeirra og leik. Hin ýmsu form, litir og stærðir vekja athygli barnsins. Það er meira að segja til ein tegund jarðsprengja sem er formuð eins og leikfang. Líkamlega eru börn ekki vel á sig komin til að þola hina hræðilegu áverka og hinn mikla blóðmissi sem fylgir áverkum eftir jarðsprengjur. Þau sem lifa sprenginguna af, geta búist við því að aflima verði fót eða handlegg. Einnig blindast fórnarlömbin oft. Þau eru limlest til æviloka, en aðeins lítill hluti þessara barna fá nægilega endurhæfingu.

Sameinuð þjóðirnar hafa gegnum Barnahjálpina UNICEF og þjóðarnefndir hennar unnið markvisst að því að efla viðleitni til samvinnnu milli frjálsra samtaka (NGO) meðal annars til að hvetja til algjörs banns við jarðsprengjum. UNICEF hefur einnig samvinnu við miðstöð S.þ. um mannréttindi og sérfræðinga S.þ. til að fá upplýsingar um aðstæður barna á svæðum þar sem vopnuð átök hafa brotist út, ekki síst með það fyrir augum að vernda þau gegn hemannajarðsprengjum.

{mospagebreak title=Athygli sem vernd}

Athygli sem vernd

Auk tilrauna til að innleiða bann við jarðsprengjum vinna Sameinuðu þjóðirnar virkt og markvisst að því að hindra að börn verði fyrir slysum af völdum jarðsprengja. Sameinuðu þjóðirnar standa að kynningarverkefni um vandamálin meðal annars í Afganistan, Angóla, Bosníu og Hersegóvínu, El Salvador, Guatemala, Kambódíu, Króatíu og Rúanda. Í fyrrum Júgóslavíu hefur UNICEF haft samvinnu við króatíska kennslumálaráðuneytið um gerð leiðbeininga fyrir kennara og myndbanda sem ætluð eru skólum og sjónvarpsstöðvum. Kynningarefnið hafði þegar á síðasta ári náð til um það bil 400.000 barna í Bosníu og Hersegóvinu og í Króatíu. Áður en þetta kynningarátak var sett í gang höfðu mörg börn orðið fyrir slysum án þess að þekkja þá hættu sem stafar af jarðsprengjum.

Samsvarandi kynningarefni frá S.þ. hefur náð til 720.00 barna á aldrinum 7-14 ára í Rúanda.

Svipað átak er í gangi í El Salvador, þar sem eins og annars staðar, er unnið í samvinnu við staðaryfirvöld og samtök til að ná til íbúanna í sveitum landsins með mikilvægar upplýsingar.

Það er samt ljóst, að þörf barna fyrir ráðgjöf og leiðbeiningar um jarðsprengjur er miklu meiri en þeir möguleikar sem fyrir hendi eru til að koma til móts við þarfirnar í nægilegu umfangi.

{mospagebreak title=Gömul og ný tækni}

Gömul og ný tækni

Þótt ný tækni sé afar mikilvæg til að bæta aðferðir til að fjarlægja jarðsprengur, hafa ekki átt sér stað miklar rannsóknir á þessu sviði og það hafa ekki orðið miklar framfarir síðan 1942. Enginn sérstakur áróður hefur átt sér stað til að vinna að nauðsynlegum rannsóknum, vegna þess að jarðsprengjuslys vekja ekki mikla opinbera athygli og eiga sér sjaldan stað í iðnþróuðu löndunum. Í augnablikinu er leitað að einstökum jarðsprengjum með beittum stöngum, málmleitartækjum eða með aðstoð sérþjálfaðra hunda. Notkun beittra stanga er seinleg, ónákvæm og hættuleg, sérstaklega þegar jarðsprengjunum hefur verið komið fyrir í harðgerðri jörð eða milli steina, eða ef þær eru útbúnar með kveikjuþráðum sem kvikna við minnstu hreyfingu. Málmleitartækin gefa góða raun þegar jarðsprengjurnar eru pakkaðar inn í málm. En í nýjum jarðsprengjum hefur málminum verið skipt út í staðinn fyrir plast. Málmleitartæki verða brátt einskis nýt í leit að nýjum tegundum jarðsprengja.

Hundar geta fundið lykt og gufur sem stafa frá sprengjuefni jarðsprengjanna en hundarnir eru skapmiklir og þarfnast langrar þjálfunar og verða fljótt þreyttir. Það tekur langan tíma að finna hverja jarðsprengju og beita verður mikilli varúð. Það er stefna S.þ. að eyðileggja jarðsprengjur með því að sprengja þær. Notkun sprengjuefnis er örugg og áreiðanleg aðferð, en hún er dýr, bæði hvað snertir sprengjuefni og tíma.

{mospagebreak title=Tilraunir og kenningar}

Tilraunir og kenningar

Þrátt fyrir það að litlar rannsóknir hafa átt sér stað, hafa fyrirtæki sem taka að sér að fjarlægja jarðsprengjur framkvæmt hagnýtar tilraunir á hefðbundnum og óhefðbundnum aðferðum til að eyðileggja jarðsprengjur. Flestir hafa fylgt einni af þremur eftirfarandi aðferðum: eyða þeim með því að gera jarðsprengjuna óvirka og láta hana rotna upp; fjarlægja jarðsprengjuna og eyðileggja seinna meir; sprengja með þrýstingi, hita eða á annan hátt.

Eyðing hefur það takmark að gera jarðsprengjurnar fullkomlega óvirkar með lífrænum áhrifum eða með því að rjúfa tengingar í jarðsprengjunum. Lífræn áhrif skapa lífverur sem nærast á vissum efnum í sprengjuefnum, sem þar með verða óvirk. Með tæknilegri aftengingu eru jarðsprengjur eyðilagðar með því að opna þær án þess að þær springi – aðferð sem reynslan hefur sýnt að ekki er nothæf við jarðsprengjur í stálboxum. Aðeins reynslan getur sýnt okkur hvort jarðsprengjan eyðileggst í raun og veru án þess að springa. Sumar hoppandi og stökkvandi jarðsprengjur er hægt að gera óvirkar með því að "minnka" eða snúa upp á ytra boxið svo innri sprengjuhleðslan geti ekki skotist út.

Í Kúvæt hefur verið notuð vél sem var hönnuð til að sigta strandsand á sumarleyfisstöðum landsins á þann hátt að efsta lag sandsins var sigtað. En vélin dugði ekki af því að steinar og gróður komu í veg fyrir að vélin gæti virkað. Jarðsprengjurnar eyðilögðust því ekki. Nú er þessi aðferð aðeins notuð á fínan strandsand.

Jarðsprengjuplógar hafa reynst óhagkvæmir, þegar um er að ræða verndun almennra borgara. Jarðsprengjurnar eyðileggjast ekki heldur dreifast þær á stærra svæði, og ekki er vitað nákvæmlega hvar þær lenda. Þetta þýðir að það fólk sem á að fjarlægja jarðsprengjurnar er í meiri hættu en það ella mundi vera.

Loftárásir og sprengingar í vatni geta eyðilagt jarðsprengjur eða gert þær sýnilegar með því að fjarlægja jarðveg umhverfis þær. Loftárásirnar hafa reynst áhrifamiklar þegar um er að ræða að fjarlægja kveikjuþræði sem faldir eru í strandsandi. Sprengingar í vatni eru hins vegar ekki áhrifamiklar þótt margar jarðsprengjur séu mjög hreyfanlegar og færast úr stað í leðjunni án þess að þær springi. Aðferðin er enn fremur erfið viðureignar vegna hins mikla magns vatns sem þarf að vera tiltækt áður en hægt er að hefja sprengingarnar.

{mospagebreak title=Hreinsunaraðferðir}

Hreinsunaraðferðir

Margar aðferðir til hreinsa jarðsprengjusvæði með vélbúnum tækjum eru í því fólgnar að láta jarðsprengjurnar springa á staðnum. Í raun og veru er erfitt að mynda jafnan þrýsting yfir stór svæði og jarðsprengjur sem hafa verðið grafnar niður í langan tíma springa ef til vill fyrst eftir að þær hafa orðið fyrir þýstingi mörgum sinnum. Ef til vill springa þær alls ekki og þá er ekki vitað hvort jarðsprengjusvæðið er almennilega hreinsað eða ekki.

Valtrarar, brynvædd ökutæki, sérstakar þreskivélar og sprengiefni er notað til að skapa þrýsting á jarðsprengjusvæði. Oft er því haldið fram, þótt ekki reynist rétt, að hægt sé að láta jarðsprengjur springa með því að skjóta á þær með byssukúlum. Svo framarlega sem kveikjubúnaðurinn er ekki skotinn í sundur heldur jarðsprengjan áfram að vera virk. Byssukúlur eru því ekki áhrifamiklar til að eyða niðurgröfnum jarðsprengjum.

Valtrarar voru fyrst notaðir til að sprengja jarðsprengjur árið 1942 og er sú aðferð enn notuð af mörgum herliðum til að komast yfir jarðsprengjusvæði. Þessi sovéska aðferð hefur verið tekin upp í mörgum löndum. Því miður geta fæstir valtrarar þolað endurteknar sprengingar á skriðdrekajarðsprengjum. Einnig á það sér stað að jarðsprengja veltist yfir á hina hlið valtrarans án þess að springa, sérstaklega ef valtrarinn er skemmdur. Yfirleitt er ekki hægt að gera ráð fyrir að notkun valtrara við hreinsun gefi meira en 70% árangur.

Þreskivélar með þreskistöfum voru fyrst notaðar einhvern tíma á áratugnum 1940-50. Aðferðin var þróuð áfram árið 1982 en enn sem komið er er aðferðin bæði dýr og óörugg – minna en 80% af jarðsprengjunum eyðileggjast. Hér gildir einnig það að fæstar þessara stóru véla eru svo sterkbyggðar að þær geti þolað endutreknar sprengingar

{mospagebreak title=Nægilega heitt til að sprengja}

Nægilega heitt til að sprengja

Oft er mælt með notkun hita til að sprengja jarðsprengjur eða einfaldlega til að brenna hluta þeirra upp. Ýmsir hitagjafar hafa verið reyndir og bent hefur verið á aðra sem enn hafa ekki verið reyndir.

Í Afganistan og Kambódíu var eldur af og til notaður til að fjarlægja hið þurra gras og annan gróður til að afhjúpa faldar jarðsprengjur og ef til vill að kveikja í þeim. Því miður eru niðurgrafnar jarðsprengjur oft alls ekki næmar fyrir hita og aðrar aðferðir við að fjarlægja jarðsprengjur verður því að taka í notkun á eftir. Eldur getur þó fjarlægt lágvaxinn gróður og það er yfirleitt til hagræðingar.

Uppástungur hafa komið um að nota leysigeisla og stuttbylgjur til að eyða jarðsprengjum en það hefur ekki verið reynt. Upphitun jarðarinnar með míkróbylgjum mundi í raun geta orðið til þess að boxið utan um jarðsprengjuna yrði afmyndað þannig að kveikjubúnaðurinn yrði óvirkur – eða að sprengjuefnisinnihald jarðsprengjunar myndaði sjálfsíkveikju (við 200-300 °C). Mikla orku þarf fyrir þessa aðferð og þar að auki munu jarðsprengjur í stálboxum og niðurgrafnar jarðsprengjur yfirleitt ekki verða fyrir áhrifum.

Leysigeislun krefst einnig töluverðrar orku og ökutæki verður að vera til staðar til að hægt sé að nota aðferðina. Slíka aðferð er hugsanlega hægt að nota á áhrifamikinn hátt við að fjarlægja jarðsprengjur af yfirborði jarðarinnar, það er hægt að beina leysigeislanum að hluta af sprengiefnunum í jarðsprengjunni.

{mospagebreak title=Afleiðingar fyrir samfélagið}

Afleiðingar fyrir samfélagið

Jarðsprengjur eru ekki eingöngu kostnaðarsamar fyrir þau lönd sem þær finnast í, heldur einnig fyrir hið alþjóðlega samfélag.

Jarðsprengja sem kostar 3 dollara í framleiðslu, kostar hið alþjóðlega samfélag 300 til 1000 bandaríkjadollara að fjarðlægja. Lágmarkskostnaður við að fjarlægja hinar rúmlega 110 milljónir jarðsprengja sem nú liggja í jörðu um allan heim er 33 milljarðar bandaríkjadollara. Árið 1994 voru um það bil 100.000 jarðsprengjur gerðar óvirkar. En á sama tíma var 2 milljónum nýrra jarðsprengja komið fyrir. Þannig er árlegt tap á "jarðsprengjueyðingarreikningnum" sem nemur 1,9 milljónum jarðsprengja sem hafa frekari kostnað í för með sér, þar sem það mun kosta aðra 1,4 milljarða bandaríkjadollara að eyða þeim

Til viðbótar við þessi útgjöld kemur sá kostnaður sem er samfara meðhöndlun fórnarlamba jarðsprengjuslysa. Talið er að hvert það fórnarlamb sem lifir af, muni til dauðadags kosta samfélagið allt að 3.000 bandaríkjadollara vegna skurðaðgerða og viðhalds gervilima. Gert er ráð fyrir að nú séu í heiminum um það bil 250.000 sjúklingar sem hafa misst útlimi og sem þarfnast umhyggju – fjöldinn eykst um u.þ.b. 2.000 á hverjum mánuði. Það hefur í för með sér aukaútgjöld fyrir hið alþjóðlega samfélag vegna skurðlækningaaðstoðar og styrktamálefna sem nemur 750 milljónum bandaríkjadollara.

{mospagebreak title=Læknisfræðileg vandamál}

Læknisfræðileg vandamál

Fórnarlömb jarðsprengjuslysa eru oft mikil byrði fyrir stríðsherjuð samfélög. Samfélögin sem hafa mest vandamál með jarðsprengjur eru venjulega þau samfélög sem hafa minnst tök á að ráða fram úr afleiðingunum. Skipulag lækningastarfs er oft frumstætt og skortur er á læknastarfsliði og aðstöðu.

Meiðsli sem orsakast af jarðsprengjuslysum krefjast yfirleitt gervilima og mikillar líkamlegrar þjálfunar til þess að sjúklingarnir geti snúið aftur heim til eðlilegs lífs. Þessi þjálfun og umhyggja er yfirleitt ekki fyrir hendi í samfélagi fórnarlambanna. Yfirleitt er skortur á menntuðu starfsliði, aðstöðu, búnaði og lyfjum. Mikill fjöldi fórnarlamba jarðsprengjuslysa krefst fjölda læknaliðs og starfsfólks og vegna skorts á læknislærðu starfsfólki raskast algjörlega öll skipulagning þessara starfa á svæðum þar sem margar jarðsprengjur eru. Sem afleiðing af þessu deyja mörg fórnarlömb jarðsprengjuslysa sem að öðrum kosti hefðu lifað af, og mörg slys eru alls ekki skráð hjá yfirvöldum

Auk hins félagslega kostnaðar hafa afleiðingar jarðsprengjuslysa í för með sér mikinn einstaklingsbundinn kostnað fyrir það fólk sem lifir af. Í flestum tilfellum missir fólk einn útlim eða fleiri.

Í Kambódíu er einn af hverjum 236 íbúum sjúklingur með gervilim – hlutfall sem er hundrað sinnum hærra en í Evrópu og Bandaríkjunum. Bara í Angóla eru 20.000 manns sem vantar útlimi vegna afleiðinga jarðsprengjuslysa. Í flestum landbúnarðarsamfélögum þýðir það að missa útlim, að fórnarlambið getur ekki stundað venjulega vinnu. Viðkomandi getur ekki hjálpað til á akrinum, borið þunga hluti eða á annan hátt hjálpað til við að framfleyta fjölskyldunni. Frá sálfræðilegu sjónarmiði munu þessi fórnarlömb líta á sig sem byrði á fjölskyldunni og nánasta umhverfi. Oft fara þau að betla til að framfleyta sér. Ef tryggja á þessu fólki betri framtíð þarf að sjá um að þau fái nauðsynlga gervilimi og rétta læknismeðferð.

{mospagebreak title=Takmarkanir}

Takmarkanir

Fæst jarðsprengjusvæði eru afmörkuð og þess vegna er ekki hægt að greina þau frá umhverfinu í kring. Fyrsta aðvörunin sem fólk fær um að jarðsprengjusvæði sé í umhverfinu er fjölskyldumeðlimur, vinur eða nágranni sem orðið hefur fyrir jarðsprengjuslysi og dáið eða meiðst. Á þeim grundvelli er erfitt að meta umfang jarðsprengjusvæðis eða fjölda jarðsprengja. Vegna þeirrar hættu sem stafar af að vera á ferli á hættulegu svæði eru íbúar staðarins nauðbeygðir til að forðast staði þar sem vitað er að jarðsprengja hefur sprungið. Þetta þýðir að ein einstök sprenging er nægileg til að gera akur eða hrísgrjónaakur ónothæfan. Í héruðum þar sem hungrið er yfirvofandi verða íbúarnir samt sem áður að líta fram hjá hættunni og "aðvörunarskiltin" eru látið fólk og sært.

Í löndum þar sem jarðsprengjum hefur verið komið fyrir á svæðum sem hægt er að græða upp verður yfirleitt að taka þessi svæði úr umferð. Þetta þýðir að héruð sem áður gátu framleitt fæðu til að framfleyta þjóðinni eru nú háð matarsendingum frá öðrum landshlutum.

Í Angóla er talið að jarðsprengjur hafi minnkað matvælaframleiðslu við Melanje og í öðrum bæjum um meira en 25%. Í Mósambík hafa áhrif þurrka margfaldast vegna jarðsprengja á ökrunum og á vegunum; í Sofala- og Zambesíuhéruðunum hafa orðið miklar tafir á neyðaraðföngum matar eða þau alls ekki komist til skila vegna jarðsprengja á vegunum. Í öðrum löndum hafa jarðsprengjur í vökvunarveitum og vatnsveitum valdið því að svo til ómögulegt er að rækta þá akra sem eru lausir við jarðsprengjur.

Afleiðing af þessu er rafmagns- og vatnsskortur og önnur þjónusta verður handahófskennd og á svæðum þar sem mikið er um jarðsprengjur er lítið hægt að aðhafast. Vökvunarveitur verða ónothæfar og það hefur afar neikvæð áhrif á framleiðslu landbúnaðarafurða.

Þegar flutningur varnings, búnaðar og annara nauðsyna stöðvast vegna jarðsprengja á vegum, leggst starfsemi fyrirtækja í héruðunum niður. Afleiðingin er vaxandi atvinnuleysi og aukin verðbólga vegna hækkandi verðs á takmörkuðu vöruúrvali. Allt þetta leiðir til aukins hörmungarástands meðal íbúanna.