Sterkar stelpur!

0
538

sterkarstelpurHARPA

6. október 2014. Unglingsstúlkur í fátækustu löndum heims eru í brennidepli í vitundarvakningu frjálsra félagasamtaka og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands sem að þessu sinni kallast Sterkar stelpur – sterk samfélög.

Kynningarvikan stendur yfir alla næstu viku, dagana 6. – 11. október, en verður formlega ýtt úr vör á Austurvelli næstkomandi föstudag kl. 15 með vatnsfötuáskorun.

Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar Alþingis ætlar að ganga fyrsta spölinn með vatnsfötu á höfðinu að hætti afrískra stúlkna. Hún skorar á þrjá aðra að gera slíkt hið sama innan sólarhings og birta myndbönd eða ljósmynd af því til staðfestingar á samfélagsmiðlum. Ganga þarf með tíu lítra fötu að minnsta kosti tíu metra til stuðnings unglingsstúlkum í þróunarríkjunum.

Af hverju unglingsstúlkur?
Rannsóknir síðustu ára sýna að unglingsstúlkan er einn höfuðlykill að því að uppræta fátækt í heiminum. Þrátt fyrir það er staða unglingsstúlkna víða skelfileg, sláandi misrétti, nauðungarhjónabönd, ofbeldi og valdleysi. Þær verða fyrir mannréttindabrotum og mismunun vegna kyns og aldurs. Átakið felur jafnframt í sér hvatningu til allra stúlkna um að standa á rétti sínum og láta rödd sína heyrast, hátt og snjallt.

Komum heiminum í lag!

Á hverjum degi upplifa milljónir stúlkna að raddir þeirra séu kæfðar, lífi þeirra ógnað, réttindi þeirra fótum troðin, frelsi þeirra takmarkað – einungis vegna þess að þær eru stelpur. Með kynningarátakinu Sterkar stelpur – sterk samfélög viljum við að íslenska þjóðin sendi stúlkum sem búa við brot á mannréttindum skilaboð um að þær standi ekki einar: að saman getum við breytt heiminum og gert hann betri.

Á síðustu árum hafa rannsóknir dregið fram mikilvægi þess að styrkja sérstaklega unglingsstúlkur í baráttu gegn fátækt. Jafnframt að efnahags- og félagslegar framfarir fátækra þjóða ráðist að miklu leyti á velferð 500 milljón unglingsstúlkna í þróunarríkjum. Sú hugmyndafræði hefur náð mikilli útbreiðslu og vakið heimsathygli, oft kölluð The Girl Effect – eða Stelpuáhrifin. Margoft hefur verið sýnt fram á að fjárfestingar í menntun unglingsstúlkna skila sér beint í betri afkomu allrar fjölskyldunnar, betri næringu, betri heilsu, færri börnum, minni fátækt og betri fjárhagslegri stöðu. Unglingsstúlkan er höfuðlykillinn að því að rjúfa vítahring fátæktar. Þrátt fyrir það er stelpum kerfisbundið mismunað og gildir þá einu hvort horft er til menntunar, heilsu, næringar, atvinnuþátttöku eða heimilisstarfa.

Nauðungarhjónabönd

Rúmlega 14 milljónum barnungra stúlkna er þröngvað í hjónaband árlega. Þær eru sagðar vera gjafvaxta skömmu eftir fyrstu blæðingar, seldar eða giftar, oft miklu eldri mönnum. Þær eru rændar bernskunni. Eignast börn gegn eigin vilja þegar þær eru sjálfar á barnsaldri. Margar deyja af barnsförum sem er helsta dánarorsök þeirra 16 milljóna stúlkna á aldrinum 15-19 ára í fátækustu löndum heims sem verða þungaðar á hverju ári. Ein stúlka af hverjum sjö er gift áður en hún er 15 ára. Fyrir 18 ára aldur eru tæplega 40 prósent giftar.

Ónóg menntun

Mun færri stúlkur fá að fara í skóla en drengir. Fjórðungur stúlkna í þróunarríkjunum eru utan skóla. Af 130 milljónum barna sem ganga ekki í skóla eru 70 prósent stúlkur. Margvíslegar hefðir torvelda þeim skólagöngu. Þær eiga að bera heim vatnið, sinna systkinum, sækja eldivið, sjá um heimilisstörf. Þekkt eru dæmi um að stúlkum sé haldið frá námi vegna þess að menntuð stúlka ógnar karlasamfélaginu. Fleyg eru orð pakistönsku stúlkunnar Malölu Yousafzai sem var skotin í höfuðið fyrir að tala fyrir réttindum stúlkna til náms: Öfgasinnar hafa opinberað hvað hræðir þá mest: stúlka með bók! Enn eru á þriðja hundrað skólastúlkur ófundnar í Nígeríu sem öfgahópar rændu síðastliðið vor gagngert til að koma í veg fyrir að þær menntuðu sig.

Rannsóknir staðfesta að skólaganga stúlkna hefur margfeldisáhrif fyrir þær og samfélagið allt. Eins og afrískur málsháttur segir: Ef þú menntar strák menntarðu einstakling. Ef þú menntar stúlku menntarðu samfélag. Níu ára skólaganga stúlku leiðir til þess að þær giftast síðar og eignast færri og heilbrigðari börn, verða síður fyrir ofbeldi, verða heilbrigðari, skila auknum tekjum inn í fjölskylduna og þjóðfélagið – og eru líklegri til að vera boðberar breytinga í réttindabaráttu stúlkna og kvenna og annarra jákvæðra þjóðfélagsbreytinga. Menntuð stúlka ber með sér von um að vítahringur fátæktar heyri liðinni tíð.

Limlestingar á kynfærum

Einn alvarlegasti glæpurinn gagnvart stúlkum er limlesting á ytri kynfærum þeirra, óbætanlegur skaði sem þær lifa við alla ævi. Rúmlega 125 milljónir núlifandi stúlkna og kvenna hafa verið skornar í þeim 29 ríkjum Afríku og Miðausturlanda þar sem (ó)siðurinn tíðkast enn í mestum mæli. Flestar stúlkurnar eru skornar á unga aldri eða á aldursbilinu 2ja til 15 ára. Þær eru skornar án deyfingar, snípurinn fjarlægður og stundum bæði innri og ytri skapabarmar. Aðgerðin leiðir til mikilla blæðinga, oft alvarlegra sýkinga, fylgikvilla á meðgöngu og erfiðleika í fæðingu, ófrjósemi og mörg dæmi eru um stúlkunum blæði út og deyi.

Brýn þörf á breytingum

Nefnd hafa verið dæmi um gróft misrétti sem stúlkur búa við og þau eru því miður miklu fleiri. Margt hefur engu að síður þokast í rétta átt á síðustu árum. Valdamiklar stofnanir, fræðasamtök, vísindamenn og sterkir einstaklingar, konur og karlar, hafa tekið málefni unglingsstúlkna upp á arma sína og kallað eftir breytingum. Sífellt fleiri stúlkur ganga menntaveginn, baráttan gegn barnahjónaböndum og limlestingum á kynfærum stúlkna hefur fækkað, barátta gegn kynbundnu ofbeldi skilar árangri og virðing fyrir mannréttindum stúlkna fer vaxandi. Þetta gerist samt allt of hægt og því þurfa ALLIR sem vilja koma heiminum í lag að taka undir kröfuna um að tryggja stelpum hvarvetna í veröldinni fullt jafnrétti og fulla sæmd, heiminum öllum til farsældar.

Að átakinu standa: Þróunarsamvinnustofnun Íslands – Landsnefnd UN Women á Íslandi – Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF á Íslandi – Hjálparstarf kirkjunnar – Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi – Barnaheill, Save The Children á Íslandi – ABC Barnahjálp – SOS Barnaþorpin á Íslandi – Rauði krossinn – Afríka 20:20 – Alnæmisbörn – Samband íslenskra kristniboðsfélaga.

Heimild: Þróunarsamvinnustofnun.