SÞ beina kastljósinu að tengslum mannréttinda og friðar á alþjóðlega friðardaginn

0
454

21. september 2008 – Sameinuðu þjóðirnar héldu Alþjóðlegan friðardag í dag með uppákomum um allan heim í samstarfi við ólíka aðila; allt frá listamönnum og námsmönnum til símafyrirtækja og skákáhugamanna. Að þessu sinni eru mannréttindi í brennidepli enda er þess minnst í ár að sextíu ár eru liðin frá samþykkt Mannréttindayfirlýsingarinnar.
“Við vitum að mannréttindi eru forsenda friðar,” sagði  Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi sínu á friðardaginn. 
“Samt sem áður eru mannréttindi enn brotin á fólki um allan heim, ekki síst í styrjaldarátökum og í kjölfar þeirra. Þess vegna verðum við berjast fyrir því að ákvæði Mannréttindayfirlýsingarinnar séu ekki dauður bókstafur heldur raunveruleiki í daglegu lífi fólks. Við verðum að sjá til þess að allir þekki réttindin, skilji þau og njóti þeirra hverjir sem þeir eru og hvar sem þeir búa.”
Ban hringdi friðarbjöllunni í New York en hefð er fyrir því að þannig hefjist friðardagurinn. Tekið var forskot á sæluna því setningarathöfnin var á föstudag og voru fjórir friðarsendiherrar Sameinuðu þjóðanna viðstaddir.

 

Friðarbjöllunni hringt í New York.

Framkvæmdastjórinn sendi sms í þágu friðar en það er hluti af herferð Sameinuðu þjóðanna. Sím- og netnotendur eru hvattir til að senda friðarskilaboð til leiðtoga ríkja heims sem væntanlegir eru á leiðtogafund á Allsherjarþinginu í New York í þessari viku. Skilaboðin eru birt á vefsíðunni www.peaceday2008.org.
Friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna um allan heim halda friðardaginn hátíðlegan með ýmsum hætti. Þannig máluðu börn í Naqoura friðarmyndir á veggi höfðustöðva friðargæslusveitar Sameinuðu þjóðanna í Líbanon (UNIFIL).
Í Juba stóð friðargæslusveit SÞ í Súdan (UNMIS) fyrir ljósmyndasýningunni “Friðarímyndir” en þar er kastljósinu beint að menningu suður Súdan.
Í Afghanistan eru haldin íþróttamót, friðargöngur og friðarfundir. Auk hátíðahaldanna beitti UNAMA sér fyrir bólusetningum gegn mænusótt og var vonast til að ná til 1.8 milljóna barna. Meðal annara viðburða má nefna friðargöngu í Accra, friðarhátíð í Chulalongkorn- háskóla í Bangkok, friðarbjölluhringingu í Mexíkóborg og skákhátíð í þágu friðar í Jerevan höfuðborg Armeníu.
Þá koma 60 námsmenn frá borgunum Belgrad, Ljubljana, Podgorica, Sarajevo, Skopje og Zagreb í fyrrverandi lýðveldum Júgóslavíu saman á friðarráðstefnu sem Upplýsingaþjónusta Sameinuðu þjóðanna (UNIS) og Vínarborg stóðu fyrir.