SÞ: Brýnt að ná árangri í Poznan

0
463

 Losun iðnríkja á gróðurhúsalofttegundum hefur enn aukist, að því er fram kemur í samantekt Sameinuðu þjóðanna einungis tveimur vikum fyrir mikilvægan fund samtakanna um loftslagsmál í Poznan í Póllandi.

Losun þeirra fjörutíu iðnríkja sem heyra undir Rammasáttmála SÞ um loftslagsmál (UNFCCC) var 5% lægri árið 2006 miðað við 1990. Hins vegar hafði losunin aukist um 2.3% á árabilinu 2000 til 2006, segir í samantekt skrifsofu sáttmálans.

Ef einungis er litið til þeirra ríkja sem staðfest hafa Kyoto bókunina, hafði losun minnkað árið 2006 um 17% miðað við viðmiðunarárið 1990.  Engu að síður hafði losunin aukist frá 2000 til 2006. Talið er að ástæður þess að losunin minnkaði á árunum fyrst eftir 1990 sé einfaldlega, samdráttur í iðnaði í ríkjum sem tilheyrðu austurblokkinni í Evrópu, eftir hrun kommúnismans.

Yvo de Boer, forstjóri UNFCCC.

 "Frá þessum tíma má rekja aukna losun til sömu landssvæða en þar varð aukning um 7.4% milli 2000 og 2006,” segir Yvo de Boer, forstjóri skrifstofu Rammaætlunarinnar.

 Hann segir að þessar tölur sýni ótvírætt hversu brýnt sé að ná verulegum árangri á fundinum í Poznan í því að komast að samkomulagi um nýjan sáttmála til að glíma við loftslagsbreytingar. 

 De Boer sem er æðsti embættismaður Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum segir að tölfræði liggi nú fyrir um losunarkvóta fyrir nærri öll ríki Kyoto bókunarinnar út gildistíma hennar sem er 2012. Þessi tölfræði er notuð í viðskiptum með losunarkvóta í samærmi við bókunina.

“Losunarkvótar eins og þeir eru skilgreindir í Kyoto-bókuninni eru ekki lengur tölur á blaði, heldur raunveruleiki á kolvetnismarkaði heimsins,” segir Yvo de Boer. “Við sjáum að markaðurinn virkar og það er mikilvægt að hafa í huga, ekki síst á fundinum í Poznan.”