SÞ taka virkan þátt í hjálparstarfi í Líbanon

0
643
Sprenging í Beirút
Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna eru á meðal þeirra þúsunda sem þurftu á læknisaðstoð að halda.

Sameinuðu þjóðirnar vinna náið með yfirvöldum í Líbanon við að takast á við afleiðingar banvænnar sprengingar í Beirút á þriðjudag. Stór hluti höfuðborgarinnar varð fyrir mismiklum skakkaföllum. Meir en 130 manns týndu lífi og þúsundir slösuðust.

Hafnarsvæðið og nærliggjandi hverfi urðu harðast úti. Ríkisstjórnin hefur lýst yfir tveggja vikna neyðarástandi.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti djúpri hluttekningu með fjölskyldum hinna látni. „Ég óska hinum slösuðu skjóts bata, þar á meðal starfsfólki Sameinuðu þjóðanna í Beirút. Sameinuðu þjóðirnar munu standa sem fyrr þétt að baki Líbanon á þessum erfiðu tímum,” sagði Guterres.

Farhan Haq varatalsmaður Sameinuðu þjóðanna segir forgangsmál að styðja starfsemi sjúkrahúsa og áfallahjálpar.

„Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) starfar náið með líbanska heilbrigðisráðuneytinu. Meta þarf getu sjúkrahúsa í Beirút. Janframt skilgreina þörf á hjálp, sérstaklega í ljósi COVID-19 faraldursins”, sagði Haq.

„Sérfræðingar eru á leið til Beirút til aðstoðar bæði á vegum Sameinuðu þjóðanna og frá fjölmörgum aðildarríkjum.”

Sprenging í Beirút
Stórskemmd kornvörugeymsla i höfninni í Beirút

Beirút er mikilvæg fyrir SÞ

Beirúthöfn er helsta höfn Líbanons og þýðingarmikil, ekki aðeins fyfir landið sjálft heldur einnig fyrir starf Sameinuðu þjoðanna í Sýrlandi, benti Haq á.

„Við teljum að búast megi við að eyðilegging á höfninni muni valda Líbönum enn meiri efnahagslegum búsifjum. Landið flytur inn 80-85% allra matvæla,“ sagði hann.

„Félagar okkar á Samræmingarskrifstofu mannúðarmála (OCHA) óttast að sprengingin muni grafa undan hjálparstarfi okkar í Sýrlandi því stór hluti aðstoðar okkar hefur verið flutt um höfnina í Beirút, þótt aðrar leiðir hafi verið notaðar.”

Ástæða er til að óttast matarskort í Líbanon verði ekki að gert. Jafnvel áður en sprengingin varð hafði helmingur Líbana áhyggjur af því að geta ekki aflað nægilegs matar fyrir sig og fjölskyldu sína.

Líbanir eru aðeins um 6 milljónir talsins en hafa skotið skjólshúsi yfir um 900 þúsund sýrlenska flóttamenn, 200 þúsund Palestínumenn auk um 20 þúsund flóttamanna frá ríkjum allt frá Íraks til Súdans.

Nærri hundrað starfsmenn Sameinuðu þjóðanna í Beirút hafa þurft á aðhlynningu að halda eftir sprenginguna.