Stríðsglæpur að beita hungurvopni

0
417

Syria Madaya web

15.janúar 2016. Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsaðilar þeirra geta aðeins komið matvælum og annari aðstoð til innan við eins af hundraði þeirra íbúa sem eru í herkví í Sýrlandi. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna varaði í gær stríðandi fylkingar við því að notkun hungurvopns væri stríðsglæpur.

Talið er að fjögur hundruð þúsund manns séu í herkví – innilokaðir af vopnuðum sveitum. Helmingur er á yfirráðasvæði svokallaðs Íslamska ríkis (Da´esh), 180 þúsund á yfirráðasvæði Sýrlandsstjórnar og 12 þúsund á svæðum undir stjórn ýmissa vígasveita.

Fyrr í þessari viku tókst Sameinuðu þjóðunum að brjóta sér leið til bæjarins Madaya, sem verið hefur í herkví svo mánuðum skiptir. Liðsmenn SÞ sögðu að aðkoman hefði verið ólýsanleg, að sögn Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra samtakanna. Hann sagði að ástandið hefði verið „algjörlega svívirðilegt”. 

„Hræðileg aðkoman í Madaya sýnir svo ekki verður um villst hversu brýnt það era ð stilla til friðar,”

Hjálparstarfsmenn sögðu frá því að eldra fólk og börn, karlar og konur, hefðu verið lítið annað en skinnið og beinin. Fólkið hefði verið kinnfiskasogið, vannært og svo veikburða að það átti erfitt með gang.

„Ég vil biðja þeim sérstalega griða sem búa á svæðum sem eru í herkví í Sýrlandi. Sumir líkja þessu við að vera í gíslingu, en þetta er verra. Gíslar fá að minnsta kosti að borða.” 

„Við skulum ekki draga neitt undan: notkun hungurvopns í stríði er stríðsglæpur.”

Hann sagði að allir deiluaðilar, þar á meðal sýrlenska stjórnin hafi gert sig seka um þetta og annan „viðurstyggilegan verknað.”

Enginn málstaður getur réttlætt mannfallið og eyðileggingu skóla, heilsugæslu og markaða sem á sér stað daglega um allt landið, bætti hann við.

Sérstakur erindreki aðalframkvæmdastjórans, Staffan de Mistura, heldur áfram friðarviðleitni en boðað hefur verið til friðarviðræðna 25.janúar.

Mynd: Hjálparstarfsmenn ná fram til Madaya.  Al Saleh, WFP