Suður-Súdan: „Börnin deyja í kyrrþey…“

0
486

S.sudankids

8. febrúar 2014. Stefán Ingi Stefánsson, hjá UNICEF í Suður-Súdan segir að bregðast verði við hungri í landinu strax, hvort sem lýst verður yfir hungursneyð eða ekki.

Sagt hefur verið frá því í fréttum að Suður-Súdan sé á barmi hungursneyðar, en slíkt hefur aðeins gerst þrisvar í heiminum á þessari öld. Þegar lýst er yfir hungursneyð, þýðir það að ástandið er talið komið í hættulegasta flokk af fimm sem notaðir eru til að meta svokallað fæðuöryggi.  Stefán Ingi segir að næst verði ástandið metið um næstu mánaðamót en sagðist ekki telja að lýst verði yfir hungursneyð heldur verði Suður-Súdan áfram í fjórða hættuflokki sem er „neyðarástand.”

Þó þetta sé bitamunur en ekki fjár, getur þetta skipt máli.

Þetta þýðir að það verður minni athygli og minni peningur,” útskýrir Stefán Ingi. “Í Sómalíu 2011 dóu heilmingur barnana áður en hungursneyð var lýst yfir en 85% af peningunum komu eftir yfirlýsinguna.” Að mati Stefáns Ingi skiptir flokkun af þessu tagi litlu máli þegar upp er staðið:

 Línan hjá okkur er að það sé ástæðulaust að bíða. Við vitum að það eru 235.000 börn sem standa frammi fyrir bráðavannæringu í Suður Súdan. Skiptir eingu máli hvernig þetta fellur inn í flokkunarkeffi. Þetta er alvarleg neyð sem verður að bregðast strax við.”

Stefán Ingi hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu sem framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi síðastliðin ár, en hann fór til starfa í Suður-Súdan nú í sumar.Hann hefur haldið úti öflugu bloggi frá því hann fór út og í einu þeirra veltir hann upp þeirri spurningu hvernig brugðist hefði verið við barnadauða á við þann sem blasir við í Suður-Súdan, ef slíkt hefði gerst á Íslandi. Stefán skrifaði í tilefni af nýjum tölum um að 495 börn undir fimm ára aldri ,hefðu látist frá desember 2013. 

Það er svo óendanlega sorglegt og ósanngjarnt. Lítil, falleg og saklaus börn. Ef við yfirfærum þá dánartíðni yfir á Reykjavík þá hefðu 5 börn dáið á dag í þessa sjö mánuði…Ég ætla að biðja ykkur að taka smá stund og sjá fyrir ykkur hvernig við hefðum brugðist við því. Sjáið fyrir ykkur viðbrögð almennings, stjórnvalda, fjölda líkkista og jarðafara. Umræðu í fjölmiðlum. Sorg í samfélaginu. Þið mynduð örugglega þekkja til einhverra af þessum börnum og hefðuð örugglega farið í einhverja af þessum fjölmörgu jarðarförum.”

Stefán Ingi fer ekki dult með þá skoðun sína að þessi börn gjalda fyrir að vera dökk á hörund, fædd í Afríku, en ekkki til dæmis hvít og fædd á Íslandi. 

Hvernig hefði staðan síðan orðið í henni Reykjavík á fimmta mánuði þegar tala látinna barna væri að nálgast 800? Allt börn undir 5 ára aldri. Öll sorgin. Öll óvissan. Nýr kirkjugarður. Tómir leikskólar. Ég efast um að þið getið séð þetta fyrir ykkur en ég skora á ykkur að reyna.. Ef þetta væri í Reykjavík þá væri öll heimspressan mætt og við hefðum úr ótakmörkuðum peningum að spila til að koma í veg fyrir þetta. Það er auðvitað ekkert ótakmarkað en við værum með hundruð milljarða til að berjast fyrir lífi reykvískra barna. En þetta er í Suður Súdan og hér deyja börnin í kyrrþey. En þau deyja engu að síður.“

Mynd: Heilsugæslustarfsmenn sinna barni í sjúkrahúsi á vegum Lækna án landamæra, samstarfsaðila UNICEF, í búðum við flóttafólk í herstöð friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna (UNMISS) í borginni Makal. 

© UNICEF/NYHQ2014-0995/Campeanu/WFP