Sveigjanleg vinna virkar, að mati ILO

0
277
Sveigjanleg vinna
Mynd: Ave Calvar /Unsplash

Sveigjanleg vinna. Styttur vinnutími og sveigjanleg vinna geta verið ábatasöm fyrir hagkerfið, fyrirtæki og starfsfólk, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO).

Að mati skýrsluhöfunda kann þetta að stuðla að betra jafnvægi á milli vinnu og frítíma. Úttektin sem liggur að baki er hin fyrsta sem beinir kastljósi að þessu og því hvaða áhrif heildarvinnutími og skipulag hefur á afkomu fyrirtækja og starfsmanna.

Í skýrslunni eru brotnar til mergjar tölur jafnt fyrir og eftir COVID-19 kreppuna.

Sveigjanleg vinna
Mynd: Charles Deluvio/Unsplash

„Út frá þessum umfangsmiklu gögnum er hægt að draga þá ályktun að fyrirtæki hafi umtalsverðan hag af stefnumótun sem miðar að því að halda góðu jafnvægi á milli vinnu og einkalífs,“ segir í skýrslunni. „Þetta virðist styðja þær röksemdir að slík stefnumótum sé bæði vinnuveitendum og launþegum í hag.“

 Betra jafnvægi

Þriðjungur starfsfólks vinnur að jafnaði meir en 48 tíma á viku. Fimmtungur vinnuafls í heiminum vinnur hins vegar færri en 35 tíma á viku í hlutafstarfi.

Eitt af þeim fyrirbærum sem kastljósi er beint að er „The Great Resignation”. Þar er átt við tilhneigingu fólks til að hverfa úr starfi eftir COVID-19, ekki síst í heilbrigðis-, veitinga- og menntageiranum, út af lélegum kjörum, ósveigjanlegum vinnutíma og litlum framavonum.

„Þetta fyrirbæri hefur sett jafnvægi á milli vinnu og einkalífs í nýtt samhengi á félags- og vinnumarkaði að loknum heimsfaraldri,” segir aðalhöfundur skýrslunnar, Jon Messenger.

Í skýrslunni voru kannaðar ólíkar vinnu-„stundatöflur“ og áhrif á jafnvægi vinnu og einkalífs, þar á meðal vaktavinnu, samþjappaðan vinnutíma og útkalls-vaktir.

Nýstárlegar stundatöflur

Sveigjanleg vinna
Mynd: Charles Deluvio/Unsplash

Nýstárlegar stundatöflur af því tagi sem sáu dagsins ljós í COVID-19 kreppunni geta haft mikinn ávinning í för með sér, þar á meðal aukna framleiðni og bætt jafnvægi á milli vinnu og einkalífs, segir Messenger.

Í skýrslunni eru margar ályktanir og ráðleggingar. Bent er á að lítil framleiðni sé fylgifiskur langs vinnutíma, og hlutfallslega meira sé framleitt á skemmri tíma. Önnur dæmi um ráðleggingar:

  • Lög og reglur um hámark daglegs vinnutíma og skyldu-hvíld eru ávinningur sem hefur leitt til heilbrigðis og vellíðunar í samfélaginu og ber því að standa vörð um hann.
  • Ríkjum ber að færa sér í nyt reynsluna af minni vinnutíma og sveigjanleika á meðan COVID-19 kreppan stóð sem hæst.
  • Sveigjanlegur vinnutímu stuðlar að því að viðhalda atvinnu og skapar nýja möguleika. Hins vegar þarf að setja reglur um slíkt og taka þarf á neikvæðum hliðum. Þar á meðal þarf að tryggja rétt fólks til að “aftengjast vinnu.”