Svíar tvöfalda framlög til loftslagsmála í þróunaraðstoð sinni

0
705

Sænska stjórnin hefur tilkynnt að framlög til loftslagsmála í þróunaraðstoð Svíþjóðar verði tvöföld fyrir 2025. Alls munu Svíar verja 15 milljörðum sænskra króna til loftslagsaðstoðarinnar eða sem nemur tæplega 230 milljörðum íslenskra króna.  Tilkynningin kemur í aðdraganda COP26, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow.

 ”Loftslagsváin er alheimsvá og því ber að takast á við hana í sameiningu,” skrifuðu Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar, Per Olsson Fridh þróunarmálaráðherra og Per Bolund loftslagsmálaráðherra í kjallaragrein sem birtist í dag.

Loftslagsbreytingar koma misjafnlega hart niður á ríkjum heims. Ríkustu löndin bera mesta ábyrgð á loftslagsbreytingum. Fátækustu ríkin bera minnsta ábyrgð en verða harðast fyrir barðinu á afleiðingum þeirra. Með þetta í hug vilja Svíar að leggja lóð sín á vogarskálarnar í nauðsynlegum umbreytingum.

”Þróuð ríki verða að axla ábyrgð ef okkar á að takast sameiginlega að draga eins mikið úr losun í heiminum og þörf krefur,” segir sænski forsætisráðherrann.

COP26 handan við hornið

COP26, Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hefst í Glasgow 31.október.

Aukning sænsku loftslags-þróunaraðstoðarinnar leggur þrýsting á önnur auðug ríki um að standa við loforð sem gefin voru 2009. Á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn var því heitið að 100 milljarðar Bandaríkjadala skyldu renna árleg til loftslagsfjármögnunar.

Sjá nánar hér.