Svíþjóð: RnB og rapp til höfuðs COVID-19

0
664
COVID-19 Minnihlutahópa
COVID-19. Söngkonan Cherrie hefur hundruð þúsunda fylgjenda á Instagram. Úr myndbandinu Mami.

Sænsk yfirvöld færa sér í nyt vinsældir hip hop og RnB listamanna til að koma upplýsingum um COVID-19 áleiðis til minnihlutahópa og íbúa úthverfa.

Þegar farsótt á borð við COVID-19 ber að dyrum er þýðingarmikið að allir leggist á eitt og réttar upplýsingar nái til allra og það er oft hægara sagt en gert.

Svíþjóð Covid-19.
Cherrie er af sómölskum uppruna og hvetur yngra fólk til að tala við ættingja – sem eru síður vel tengdir. Úr myndbandinu Mami.

Sænsk yfirvöld vöknuðu upp við vondan draum þegar í ljós kom að óeðlilega margir af sómölskum uppruna voru í hópi þeirra sem létu lífið af völdum COVID-19. Talið var einsýnt að orsökin væri sú að upplýsingar hefðu ekki borist til allra samfélagsþegna.

Náð til minnihlutahópa

Sænsk farsóttaryfirvöld leituðu til listamanna til að koma skilaboðum á framfæri. Cherrie er sænsk-sómölsk RnB tónlistarkona. Milljónir streyma tónlist hennar á Spotify og það sem meira er um vert hundruð þúsunda fylgja henni á Instagram, ekki síst sænskir Sómalir. Hún birti myndband á Instagram til að vekja fólk til vitundar um veiruna.

„Á Stokkhólmssvæðinu, er helmingur þeirra sem látist hafa úr COVID-19 sænskir sómalir.  Ég veit að margir Sómalir fyljgast með mér og ég vil ná til ykkar. Gerið það, talið við ættingja ykkar. Við verðum að vera eins mikið heima og við getum, við verðum að þvo hendurnar,” segir Cherrie í myndbandinu. Hundruð hafa skrifað jákvæð ummæli um færsluna og myndbandið.

Talað við ættingja

Svíþjóð-Covid 19
Cherrie syngur og dansar. Úr myndbandinu Mami.

„Við sem eigum foreldra sem hugsanlega skilja ekki hversu alvarlegt þetta er, við verðum að tala við ættingjana. Það er mikilvægt að við séum öll ábyrg,“ skrifaði RnB listakonan á Instagram.

Cherrie segir að stéttamunur sjáist sífellt betur á þessum erfiðu tímum og fólkið í úthverfunum gleymist auðveldlega.

En það er óvenjulegt að yfirvöld leiti til listamanna og fólks í úthverfunum og minnihlutahópa. Cherrie segist vonast til að samskiptin við yfirvöld batni þegar jákvæð áhrif slíkrar samvinnu komi í ljós.