Svör við könnun SÞ: áhyggjur af loftslagsmálum, friði og manneskjunni sjálfri

0
675
75 ára afmæli SÞ
Mynd: Aarón Blanco Tejedor on Unsplash

Áherslur Íslendinga í alþjóðamálum eru fjölbreytilegar en mjög margir hafa áhyggjur af loftslagsmálum, friði og alþóðlegum viðskiptum.

Þetta kemur fram í svörum við könnun sem Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir í tilefni af 75 ára afmæli samtakanna í haust. Öllum stendur til boða að svara könnuninni og er hægt að gera það á íslensku hér.

75 ára afmæli SÞ
75 ára afmæli SÞ

Skorað var á svarendur að deila svörum síðum með vefsíðunni og af svörunum að dæma leggja margir Íslendinga áherslu á mannréttindi, þar á meðal réttindi kvenna umbætur á Sameinuðu þjóðunum, frelsi og lýðræði auk þeirra málefna sem fyrr voru nefnd.

Gía Aradóttir líffræðingur segir: „Fæðuöryggi er kjölfesta samfélaga, því þarf SÞ í kjölfar Covid-19 að auka stuðning við landbúnað og tryggja aðgengi að mat, til að hindra átök og flótta frá svæðum þar sem fæðuóöryggi ríkir eða er yfirvofandi.“

Benedikt Jóhanesson ritstjóri er á meðal þeirra sem leggja áherslu á umhverfið: „Að efla alþjóðasamvinnu með frjáls viðskipti, frjáls samskipti og mannréttindi að leiðarljósi. Og muna alltaf: There is no Planet B!

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri tvinnar einnig saman frjáls viðskipti og loftslagsmál. „Vinna gegn verndarstefnu og þjóðernishyggju. Leggja áherslu á hag allra af hnattvæðingunni, þ.m.t. samstilltum aðgerðum gegn loftslagsvánni.“

Dominique Plédel Jónsson athafnakona segir: „Auka enn menntun kvenna, takmarka fólksfjöldann, endurhugsa hagkerfið og gefa plánetunni forgang því án hennar verður engin framtíð.“

Eiríkur Hjálmarson upplýsingarfulltrúi tekur í sama streng. „Taktu skýra afstöðu með Jörðinni og fólkinu sem byggir hana og talaðu af ígrundaðri ákefð og sterkri tilfinningu fyrir henni.“

Skipulag alþjóðlegrar samvinnu er einnig ofarlega á baugi.

Þorfinnur Ómarsson upplýsingafulltrúi bendir á að of seint sé að birgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í hann. „Að bregðast við fyrirsjáanlegum vandamálum áður en þau verða að veruleika. Áherslur eiga að snúast um framtíðina, en ekki nútíð eða fortíð.“

Hjördís Árnadóttir samskiptastjóri vill róttæka uppstokkun á Sameinuðu þjóðunum. „Breyttir tímar, en SÞ sitja eftir. Nýir fastafulltrúar & afnám neitunarvalds í öryggisráði, nútíma samskipti og gegnsæi. Þetta þarf forgang.“

Halldór Kvaran framkvæmdastjóri slær á svipaða strengi. „Allar þjóðir verða að endurhugsa samvinnu og samræmingu aðgerða hvort sem um er að ræða faraldra á við Covid19 eða þvingaða fólksflutninga.“

Réttlæti er Magnúsi Bjarna Baldurssyni hagfræðingi efst í huga. „Aukin miðlun upplýsinga og því meiri þekking í ólíkum samfélögum um mikilvægi réttlætis fyrir alla og lausnir við að leita þess. Réttlæti sem grunngildi í öllum samfélögum.“

Jórunn Sigurðardóttir útvarps- og leikkona leggur áherslu á mikilvægi friðar.  „M.a. þarf að vinna gegn rányrkju, sóun og neysluhyggju, þeirri rót loftslagsbreytinga sem við getum haft áhrif á. Þetta krefst breytinga á viðmiðum okkar um hagsæld og þar með breytinga á efnahagskerfi heimsins.“

Grunngildin

Tolli Morthens myndlistarmaður víkur að grunngildum samfélagsins. „Útgangspunkturinn til lausnar á vanda mannsins verður að vera kærleikur, compassion,og vísa ég þá í vísindarannsóknir á eðli heila og huga og svo í menningararfleiðina, trúarbrögð, cult etc um sama efni.”

Pálína Jónsdóttir leikkona og leikstjóri beinir sjónum sínum að eðli mannsins. „Við þurfum að spyrja og leita svara við þeirri grundvallarspurningu hverning okkur líður þ.e hvað felst tilfinningalega í því að vera manneskja. Niðurstaðan á möguleika á því að vísa okkur veginn til sameiningar.”

Við höldum áfram að birta skilaboð Íslendinga til António Guterres aðalframkvæmdastjóra á næstu dögum. Lesendur eru hvattir til að svara könnuninni og geta auk þess deilt ráðum sínum til aðalframkvæmdastjórans með okkur en úrval svar verður birt á næstunni.

Könnunin á íslensku er hér: https://un75.online/?lang=isl

Netfang upplýsingafulltrúans Árna Snævarr: [email protected]