Sýrland: 4 milljónir munu þarfnast aðstoðar

0
407

Syria refugees

12. nóvember 2012 – Sameinuðu þjóðirnar telja að allt að fjórar milljónir Sýrlendinga þarfnist mannúðaraðstoðar frá og með næstu áramótum og ákalla þjóðir heims að láta fé af hendi rakna til að koma nauðstöddum til aðstoðar nú þegar harðnar á dalnum, vetur gengur í garð og hitastig lækkar. Til samanburðar má nefna að Danir og Norðmenn eru fimm milljónir talsins, íbúar Parísar rúmar tvær milljónir og Berínarbúar um þrjár og hálf.

Miðað við núverandi fjölgun flóttamanna frá Sýrlandi, má búast við að þeim fjölgi um þrjú hundruð þúsund fram að áramótum sem er ámóta og íbúafjöldi Íslands.

 “Það er fyrirsjáanlegt að enn fleiri munu látast, særast eða flosna upp frá heimilum sínum eftir því sem átökin dragast á langinn,” sagði John Ging, sem samræmir mannúðaraðstoð hjá Sameinuðu þjóðunum að loknum fundi mannúðarsamtaka í Genf á föstudag um ástandið í Sýrlandi.  

Um 400 manns frá aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, svæðisbundnum samtökum, alþjóðlegum frjálsum félagasamtökum og mannúðarstofnunum Sameinuðu þjóðanna tóku þátt í sjötta fundi þessara aðila um Sýrland.

Átökin í Sýrlandi hófust fyrir 20 mánuðum þegar uppreisn braust út gegn stjórn Bashar al-Assad og hafa 20 þúsund manns látist, aðallega óbreyttir borgarar. 400 þúsund manns hafa flúið til nágrannaríkjanna og 2.5 milljónir manna eru háðar mannúðaraðstoð, að því er Sameinuðu þjóðirnar telja.

 “Við teljum að flóttamönnum fjölgi og verði tala þeirra komin yfir 700 þúsund miðað við núverandi þróun,” bætti Ging við. “Við gerum ráð fyrir miðað við núverandi aukningu að fjórar milljónir þurfi mannúðarðastoð eftir nýjarið en talan er nú um 2.5 milljónir.”
Ging sagði að verulega væri gengið á sjóði til að fjármagna aðstoðina við þetta fólk. Óskað var eftir 358 milljóna dollara framlögum til mannúðaraðstoðar innan Sýrlands og hefur tekist að afla 45% þess fjár.

Óskað var eftir 485 milljónum dollara til að sinna flóttamönnum utan Sýrlands og hefur aðeins tekist að afla 35%.