Sýrland: friðarviðræðum frestað til föstudags

0
440
Syrian refugee. Flickr Bengin Ahmad Creative Commons

Syrian refugee. Flickr Bengin Ahmad Creative Commons

25.janúar 2016. Viðræður um frið í Sýrlandi sem hefjast áttu í dag hefur verið frestað til föstudags. 

Byrjað verður á því að reyna að koma á víðtæku vopnahléi, koma mannúðarastoð til nauðstaddra og og binda enda á þá ógn sem stafar af vígamönnum hins svokallaða Íslamska ríkis. Viðræðurnar eru undir umsjón Sameinuðu þjóðanna og er búist við að þær geti tekið 6 mánuði.

Staffan de Mistura, sérstakur erindreki í deilunni sagði í gær þegar hann tilkynnti nýja dagsetningu að hann gerði sér fyllilega grein fyrir því hver torsótt það gæti reynst að binda enda á átökin sem kostað hafa 250 þúsund manns lífið. 4 milljónir hafa flúið land, 6.5 milljónir eru á vergangi innanland og 13.5 milljónir manna í Sýrlandi reiða sig á mannúðaraðstoð

„Ég get sagt ykkur fyrirfram að það verður mikið um uppnám og írafár, menn munu ganga út og snúa aftur vegna sprengju hér eða árás þar,“ sagði de Mistura á blaðamannafundi. „Við verðum að halda ró okkar og halda okkar striki á meðan þetta tækifæri gefst.“

Deilendur munu ekki hittast augliti til auglitis, að minnsta kosti í fyrstu, en sáttasemjarar munu bera boð á milli. Vopnahlé mun ekki ná til Íslamska ríkisins né Al-Nusra samtakanna sem eru í tengslum við Al-Quaeda.

Boðað hefur verið til alþjóðlegs fundar um mannúðaraðstoð við Sýrland í Lundúnum 5.febrúar.